Jóhannes Kristjánsson skemmtikraftur og Guðni Ágústsson fyrrum stjórnmálamaður hafa slegið í gegn vítt og breitt um landið með 20 sýningar af uppistandinu Eftirherman og Orginallinn. Þeir voru með sýningu síðastliðinn sunnudag í Bæjarbíói og verða með tvær í viðbót þar. Fjarðarpósturinn hitti þá félaga sem margir hafa ruglað saman í tímans rás. Viljandi setjum við viðtalið upp sem samtal í anda skemmtunar þeirra.  

Jóhannes: „Ég hef lifað af listinni sem skemmtikraftur síðan 1982. Það er mjög ávanabindandi og skemmtilegt og sem betur fer hefur alltaf gengið vel. Ég á þeim sem ég hermi eftir mikið að þakka því án þeirra væri ég ekki að þessu.“

Guðni: „Við sem hann hermir eftir eigum honum miklu meira að þakka því hann hefur gert okkur fræga og vinsæla. T.d. Ólafur Ragnar Grímsson, Steingrímur Hermansson, Halldór Blöndal, ég og fleiri. Fólk fór að trúa því að við værum skemmtilegir. Þetta var bara fín auglýsing fyrir okkur og hafði jafnvel einhver áhrif á kjörgengi.“

Jóhannes: „Ég nam stjórnmálafræði í HÍ þar sem Ólafur Ragnar kenndi mér. Ég fór líklega bara til að læra hann utan að, enda sat ég ekki nema tvo metra frá honum.“

Jóhannes: „Ég sá Guðna fyrst í lit árið 1976 á samkomu og talaði við hann í skamma stund. En sá fljótlega að þetta var eigulegur maður“ (hlátur)

Guðni: „Svo þróaðist vinskapur með okkur því Jóhannes er miklu líkari mér en bræður mínir, sem eru ellefu talsins.“

Jóhannes: „Já þetta er til mikilla vandræða, bæði fyrir hann og mig.“

Guðni: „Jájá, fólk hefur bæði haldið ég sé hann og hann sé ég.“

Jóhannes: „Eitt sinn var ég á Ísafirði yfir páskana og gaf mig á tal við konu um fertugt sem var með 9 ára stelpu með sér. Þegar þær gengu í burtu spurði stelpan mömmu sína: „Hvernig þekkir þú Guðna Ágústsson?“ Þá var hann landbúnaðaráðherra. Einnig var ég á Hornafirði þegar bíl var rennt upp að mér og ökumaðurinn spurði mig hvað mér fyndist um það að Jóhannes væri alltaf að herma eftir mér.“

Guðni: Ég hef komið á stað og verið heilsað sem hinni margfrægu eftirhermu og ég lét það yfir mig ganga.

Jóhannes (skellihlær): „Hann hefur líka gert margt í mínu nafni til að koma ekki óorði á sjálfan sig. Hvílíka skandala!“

Guðni: „Þess vegna er nú komið þetta nafn á skemmtunina okkar, Eftirherman og orginallinn, af því að þegar ég hringdi í mína kjósendur, vini og fjölskyldu, þá var fólk oft á varðbergi því það hélt að ég væri Jóhannes. Núna er aftur komið slíkt skeið og ég er gjarnan spurður að því hvor okkar ég sé. Meira að segja móðir Jóhannesar tók feil á okkur, kyssti mig á kinnina, heilsaði Jóhannesi og áttaði sig svo á því að ég var ég.“

Jóhannes: „Ef Guðni hefði nú einhvern tímann veikst þá hefði ég getað leyst hann af. Hann hefur bara aldrei veikst.“

Guðni: „Ég hefði nú ekki viljað leysa hann af. Það þurfti að skipta um hjarta í honum! Hins vegar heimsótti ég hann á sóttarsæng þar sem hann sat með heila vél í staðinn fyrir hjarta. Það er mikil mildi að hann skuli vera lifandi.

Jóhannes: „Ég fékk nýtt hjarta, tvítugt, þannig að ég yngdist um 17 ár, að sögn skurðlæknisins. Það eru orð að sönnu og nú hleyp ég á fjöll.“

Guðni: „Í mörg ár hafa menn, ekki síst aðdáendur Jóhannesar og vinir mínir, hvatt okkur til að gera efna til svona sýningar. Við fórum á vegum SS um allt land þar sem ég stjórnaði fundum og Jóhannes hélt ræður. Það fylltust alltaf húsin og fólk hvatti okkur til að gera þetta á eigin vegum.“

Jóhannes: „Þetta er skemmtilegt og skaðlaust fyrir flesta!“

Guðni: „Jóhannes hefur það fram yfir flesta skemmtikrafta að ég hef aldrei heyrt neinn sem hann hermdi eftir kvarta. Menn hafa miklu meira kvartað yfir því að hann taki þá ekki fyrir. Þegar ég var í pólitíkinni þá þóttu menn ekki merkilegir fyrr en Sigmund hafði teiknað þá, Spaugstofan tekið þá fyrir, Jóhannes hermdi eftir þeim og þeir komu fram í áramótaskaupinu. Annars féllu þeir af þingi. Jóhannes umhverfist í þá sem hann leikur. Fótstaðan, líkamsbeitingin, svipbrigðin og röddin breytast.“

Jóhannes: „Það er alveg stórgaman að koma hingað í Hafnarfjörð. Það er svo mikill félagsþroski hérna. Það gengur alltaf allt svo vel hérna, alveg sama hver fjandinn það er, undanfarin 30-40 ár. Þetta er ekki skjall, þeir eiga skilið að sagt sé frá því.“

Myndir: Olga Björt.