Lionsklúbbur Hafnarfjarðar afhenti nýlega Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar þrjá áningarbekki sem komið var fyrir á þremur stöðum umhverfis Hvaleyrarvatn. Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélagins, veitti bekkjunum viðtöku frá Ingvari Viktorssyni, formanni Lionsklúbbsins.

4

Þessir tóku til máls: Magnús Gunnarsson, Jónatan Garðarsson, Haraldur L. Haraldsson og Ingvar Viktorsson. 

3

Ingvar, formaður Lionsklúbbs Hafnarfjarðar afhendir Jónatan, formanni Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, staðfestingarskjalið.

Viðtakan fór fram hjá einum bekkjanna þriggja, en afar fagurt útsýni er þaðan og yfir Hvaleyrarvatn. Jónatan rifjaði upp merka sögu vatnsins og umhverfis þess og sagði að það minnti helst á sænska sveit í dag. „Við horfum til þess að gera þetta að yndissvæði fyrir alla og fögnum þessu góða innleggi ykkar í þá átt.“ Hann gantaðist aðeins með það að þetta liti út eins og innherjaviðskipti vegna þess að Ingvar er einnig ritari Skógræktarfélagsins. Uppskar hann mikinn hlátur viðstaddra en svona getur hitt á í bæjarfélagi þar sem sömu menn eru virkir í ýmsum málum. Meðal þeirra sem voru viðstaddir afhendinguna var Magnús Gunnarsson, sem er einmitt formaður Skógræktarfélags Íslands.

7

Viðurkenning á frábæru starfi

Gjöf á setbekkjunum er einn liður í gjörningum Lionsklúbbs Hafnarfjarðar í tilefni af 100 ára afmælis Lionshreyfingarinnar á heimsvísu og viðurkenning á frábæru starfi Skógræktarfélagsins í upplandi Hafnarfjarðar. Formaðurinn Ingvar sagði meðal annars: „Það er okkar vilji að félagið annist þessa bekki vel. Þeir eru komnir í góðar hendur fyrir lúna fætur.“ Jónatan bætir við að hann finni svo vel þegar fólk vill taka stutta göngu umhverfis vatnið eða koma sér af stað eftir veikindi, þá séu bekkirnir tilvaldir til þess að staldra við til að hvíla og njóta.“

8

Bekkirnir eru vel merktir. 

10

Útsýnið frá einum bekkjanna yfir vatnið er ekki amalegt. 

 

Forsíðumynd:
Fjórir núverandi eða fyrrverandi bæjarstjórar (Hafnarfjarðar, Grindarvíkur, Vesturbyggðar) voru viðstaddir afhendinguna og af því tilefni kallaðir saman á mynd. Magnús Gunnarsson, Haraldur L. Haraldsson, Ingvar Viktorsson og Jón Gunnar Stefánsson.