Jón Arnar Jónsson

Jón Arnar Jónsson

Íbúafundur fór fram á dögunum í Hraunvallaskóla þar sem rædd voru ýmis mál sem brunnið hafa á íbúum hverfisins eftir fréttir um tælingar og meintar tælingar. Eitthvað var um að börn upplifðu sig ekki örugg í hverfinu. Jón Arnar Jónsson, formaður íbúasamtaka á Völlunum, stóð fyrir fundinum og til máls tóku Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri, Andri Ómarsson, verkefnastjóri hjá Hafnarfjarðarbæ, Margeir Sveinsson, stöðvarstjóri lögreglunnar í Hafnarfirði og Ólafur Örn Bragason, sálfræðingur. Til umræðu voru vöktun akstursleiða, nágrannavarsla, samtal við börn um tælingu og glæpi og fyrirbyggjandi aðgerðir.

 

Vilja fá sem flestar tilkynningar

Margeir Sveinsson

Margeir Sveinsson

Margeir Sveinsson, stöðvarstjóri lögreglunnar í Hafnarfirði, segir afbrotatíðni vera mjög svipaða á milli ára í Hafnarfirði. Þó hafi eignaspjöllum eitthvað fækkað því á tímabili mældust þau tiltölulega há.

„Hverfið í Hafnarfirði sem ég bar saman við Höfuðborgarsvæðið er póstnúmer 221 sem inniheldur Setbergið, Áslandið og Vellina. Miðað við þessi þrjú hverfi þá höfum við fengið flestar tilkynningar um heimilisofbeldi á Vallarsvæðinu og það skýrist líklega af því að nálægð íbúa er meiri í fjölbýlishúsum. Miðað við höfuðborgarsvæðið er Hafnarfjörður yfir meðaltali en heilt yfir er t.d. ein skýringin á fjölgun heimilisofbelda vegna skráningar lögreglu sem og að fólk er orðið meira vakandi yfir þessu. Lögreglan kallar eftir að fá upplýsingar um öll slík tilvik, öðruvísi er ekki hægt að sporna við þessum leiðinlega kvilla í okkar samfélagi.“ Í hegningarlagabrotum hafi Hafnarfjörður komið svipað út undanfarin ár en er undir meðaltali í flestum brotum ef miðað er við Höfuðborgarsvæðið. Þá bárust 17 tilkynningar um innbrot í heimahús og þar af voru 7 í hverfi 221.

Umræða kallar á fleiri tilkynningar

„Tælingamálin eru áberandi fleiri en undanfarin ár. Það sem af er þessu ári eru átta slíkar tilkynningar á Vallasvæðinu sem er einni færri en samanlagt fjögur ár á undan. Á heildina í Hafnarfirði hafa þær verið 14 sem af er þessu ári en á höfuðborgarsvæðinu eru þær 23. Umræðan kallar á fleiri tilkynningar og við skiljum foreldra vel að vilja deila slíkum reynslum á samfélagsmiðlum en viljum fyrst og fremst fá þær og fleiri en færri. Það hafa komið dæmi um tilkynningar þar sem um tælingar var ekki að ræða. Reynsla okkar er sú að ef ein tilkynning berst þá koma fleiri í kjölfarið og það kallar fram ótta hjá börnum og þau fara jafnvel að túlka aðstæður á verri veg en þarf.“

Fagna myndavélum

Margeir segir lögregluna fagna þeirri þróun að settar séu upp eftirlitsmyndavélar sem séu af hinu góða og einn liður í að hjálpa við að stemma stigu við afbrotum. „Það er mjög vel athugandi að koma slíkum fyrir þarna á Völlunum og jafnvel víðar í bænum. Slíkar ákvarðanir liggja hjá bæjarfélaginu. En það er alltaf misjafnt hvort íbúar hverfa eru tilbúnir í að fá slíkt eftirlit á sitt svæði enda líta margir á að þarna sé verið að raska friðhelgi og persónuvernd. Lögreglan færi þó ekki inn í slíkan gagnagrunn nema af ríkri ástæðu og ef eitthvað sérstakt máli yrði í gangi.“

Nágrannavarsla stóreykur öryggi

Andri Ómarsson

Andri Ómarsson

Andri Ómarsson, verkefnastjóri hjá Hafnarfjarðarbæ, segir nágrannavörslu samfélagslegt verkefni sem íbúar, lögreglan og Hafnarfjarðarbær séu þátttakendur í. Meginmarkmiðið sé að íbúar taki höndum saman í forvarnarskyni til að koma í veg fyrir innbrot og eignatjón. Nágrannavarsla snúsit í raun um einfaldar aðgerðir til að skapa öruggara og ánægjulegra nágrenni með því að efla tengsl íbúa og samheldni á því svæði sem tekur hana upp.

Svipað og foreldraröltið

Góðir grannar verði „augu og eyru“ götunnar og líti eftir eigum fólks þegar það fer í lengri eða skemmri tíma, skipti sér af óskilegri hegðun og tilkynni um grunsamlegar mannaferðir. „Ekki ósvipað og foreldraröltið. Þetta snýst um að vera vakandi og vera til staðar þegar á reynir. Þannig sköpum við betra og öruggara umhverfi og höfum góð áhrif á hverfisbraginn.“ Rannsóknir hafi sýnt að nágrannavarsla sé mikilvægur hlekkur í að fækka glæpum og þá sérstaklega innbrotum og þjófnaði á eigum fólks. „Sá sem hefur áhuga á því að hefja nágrannavörslu getur nálgast allar nánari upplýsingar á vef Hafnarfjarðarbæjar. Árangursríkara er að skipuleggja nágrannavörslu á minni svæðum, s.s. í einni götu eða fjölbýlishúsi og reynslan sýnir að ef einn byrjar þá fara aðrir af stað sem eykur öryggið í öllu hverfinu til muna.“

Skoða vöktun akstursleiða

Haraldur Líndal Haraldsson

Haraldur Líndal Haraldsson

Haraldur Líndal Haraldsson bæjarstjóri segir nauðsynlegt að tryggja leiðir fyrir íbúa til að tala saman og finna leiðir til að vera líða vel í hverfum sínum. Vaxandi áhugi sé á hverfi eins og Völlunum og mikil uppbygging þar. Umræða um hverfið sé orðin jákvæðari með hverju árinu. „Okkur hafa borist beiðnir um vöktun akstursleiða í fleiri hverfum en á Völlunum. Engar ákvarðanir hafa verið teknar en ákveðin frumkönnun hefur átt sér stað. Það þarf að vinna svona verkefni með persónuvernd. Ef settar yrðu upp myndavélar á Völlunum yrðu þær líklega við Ástorg, Seltorg og Ásbraut.“ Slíkar myndavélar skrái umferð inn og út úr hverfinu. Myndirnar yrðu í hárri upplausn og miklum gæðum. Þær myndu greina bílnúmer vel og skrá þau í stafrænan grunn og þær gætu líka látið vita ef auglýst bílnúmer ætti leið um. „Slík vöktun hefði mikið forvarnagildi því hún hefur fælingarmátt. Gögnin yrðu þó aðeins afhent lögreglunni til skoðunar.“ Áætlaður kostnaður við uppsetningu og rekstur yrðu rúmar 102 þúsund krónur á hvern staur á mánuði. Slíkar myndavélar hafi sannað gildi sitt í öðrum hverfum, s.s. á Seltjarnarnesi og öryggissjónarmið ráðið ferð í samráði við Persónuvernd.

Góð tengsl eru besta forvörnin

Ólafur Örn Bjarnason

Ólafur Örn Bjarnason

Ólafur Örn Bragason, sérfræðingur í réttarsálfræði, talaði um hvernig best er fyrir foreldra og forráðamenn að nálgast börnin sín og fræða þau án þess að vekja hjá þeim of mikinn ótta. „Grunnskólabörn eru líklegri en leikskólabörn til að gera sér grein fyrr hverjir eru ókunnugir. Sá sem er ókunnugur er grimmur í bíómyndum og það vita allir hver hann er en vondi kallinn lítur ekkert endilega út fyrir að vera það í raunheimi. Við þurfum því að eiga gott samtal við börnin okkar. Láta þau vita hvert þau geta leitað, t.d. til nágranna, skóla, verslana og bókasafna.“

Daglegt spjall í stað yfirheyrslu

Besta forvörnin sé þjálfun í daglegu spjalli, ekki endilega til vara þau við. „Það er um að gera að fyrir okkur foreldra að vera yfirveguð. Í þannig spjalli tileinka börnin sér að segja okkur frá einhverju sem við spyrjum kannski ekki beint út í. Bara hvernig dagurinn var og hvaða fólk þau hittu og allskonar almenns eðlis.“ Þá sé gott benda þeim á hvers konar fyrirheit ókunnugir geti notað, s.s sælgæti, dót, gæludýr, beðið um hjálp til að leita að gæludýri. Þegar þau eru eldri gætu bæst við klám, áfengi og vímuefni. „Svo þetta með að einhver bjóði þeim far heim úr skólanum eða til að sækja þau vegna þess að foreldri hafi orðið fyrir óhappi. Barnið upplifir ótta við að það sé elt. Hótanir koma eftir á ef einhver hefur náð til barnsins.“

Skapa öryggistilfinningu

Ólafur Örn imprar á því að heimsmynd öryggis skipti börn meira máli en óöryggis. „Geturðu útskýrt betur fyrir mér“ er til dæmis betra að segja en að bregðast við með yfirheyrslu ef barn hefur mögulega lent í því að reynt hafi verið að tæla það. Það er því um að gera fyrir foreldra að æfa sig í að ræða erfið málefni og hversdagslega hluti. Og að sjálfsögðu að vita alltaf hvar börnin eru og með hverjum. Benda þeim á öruggar aðstæður, eins og ég taldi upp áðan. Kenna börnum á að hlusta á sig sjálf ef þau fá ónotatilfinningu gagnvart ókunnugum eða jafnvel fólki sem þau þekkja. Benda þeim á að venja sig þá á að fara í burtu úr aðstæðum og segja fullorðnum frá. Það er vel hægt að æfa þau í ákveðni og byggja þannig undir sjálfsöryggi og að setja mörk.“

Hlusta – ekki vita svörin

Þá sé einnig sniðugt að hvetja börn til að leika við aðra en þá sem þau fá ónotatilfinningu frá. Kenna þeim að skapa eigið öryggi með því að leika fleiri saman en færri. „Það er í eðli foreldra að ímynda sér það sem er verst. Þess vegna þarf að sýna eins mikla ró og hægt og alls ekki gera lítið úr því ef barn segir frá. Sýna fram á að því sé trúað og að það sé rétt að segja frá. Viðbrögð okkar skipta miklu máli varðandi hvernig barn tekst á við afleiðingar ef það verður fyrir einhverju. Við eigum að hlusta, ekki vita svörin. Það á alltaf að tryggja öryggi barnsins og tilkynna til barnaverndar ef við vitum af börnum sem eru í slæmum aðstæðum. Góð tengsl foreldra og barna skipta mestu máli og eru besta forvörnin.“