Innbrotafaraldur hefur herjað á Setbergshverfið í vetur eins og önnur hverfi á höfuðborgarsvæðinu og eru margir íbúar þar uggandi og finna fyrir óöryggi. Eftir samskipti á íbúasíðu hverfisins á Facebook var blásið til íbúafundar sem verður haldinn 1. mars. Við spurðum Kristínu Thoroddson, íbúa í Setbergi og eina af þeim standa að fundinum, út í hann.

„Íbúar Setbergsins eru með íbúasíðu og á henni hafa að undanförnu skapast umræður um innbrotin og stendur íbúum ógn af þeim. Við viljum vita hvernig og með hvaða hætti við getum varið okkur, hvaða mildunaraðgerðir eru mögulegar og með hvaða hætti við getum sameinast gegn þessum innbrotafaraldi sem alltaf kemur upp aftur og aftur. Við viljum fá fræðslu en það er svo margt sem við íbúar getum gert til að gera gott hverfi enn betra. Á opnum fundi foreldrafélags Setbergsskóla nú í vetur kviknaði sú hugmynd að halda opinn íbúafund þar sem rætt verður um nágrannavörslu sem og mögulega öryggismyndavélar sem settar hafa verið upp í nágrannabæjarfélögunum,“ segir Kristín.

Til fundarins hafa verið boðaðir aðilar frá lögreglu höfuðborgasvæðisins ásamt aðilum sem ræða munu um nágrannavörslu. Foreldrafélagið stendur fyrir fundinum og er hann opinn öllum. Hér er Facebook síða viðburðarins.

Mynd af Setbergi: Olga Björt.