Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur hér á landi árið 2013 er nú hluti af íslenskri löggjöf. Sáttmálinn hefur að geyma ýmis grundvallarréttindi og tryggir öllum börnum upp að 18 ára aldri sérstaka vernd og umönnun.

Í Barnasáttmálanum felst viðurkenning á því að börn séu fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi; þau eigi sín eigin réttindi – óháð réttindum fullorðinna.

Barnasáttmálinn kveður m.a. á um vernd tiltekinna grundvallarmannréttinda barna, svo sem bann við mismunun, réttinn til lífs og þroska, friðhelgi fjölskyldu- og einkalífs, félaga-, skoðana-, tjáningar- og trúfrelsis. Öllum aðildarríkjum er skylt að grípa til aðgerða til að tryggja velferð barna, m.a. á sviði mennta-, heilbrigðis- og félagsmála.

 Viðreisn í Hafnarfirði vill innleiða Barnasáttmálann hjá Hafnarfjarðarbæ hið allra fyrsta með það að markmiði að virða og uppfylla réttindi barna. Barnasáttmálinn er í raun lykilplagg í þjónustu við börn og fjölskyldur og tónar vel við áherslur Viðreisnar og vilja til að brjóta niður múra milli þeirra kerfa sem koma að málefnum barna og fjölskyldna. Kerfin eru til að þjóna fólki en ekki öfugt.

Viðreisn vill að forgangsraðað sé í þágu mannréttinda. Þau sveitarfélög sem það gera, eru mannvæn og fjölskylduvæn og verða um leið eftirsóknarverðir búsetukostir. Við eigum að forgangsraða í þágu barna og fjölskyldna, huga fyrst og síðast að menntun og velferð íbúanna. Þannig samfélagi vill Viðreisn stuðla að.

 

Þröstur Emilsson skipar 3. sæti á lista Viðreisnar í Hafnarfirði

Sunna Magnúsdóttir skipar 4. sæti á lista Viðreisnar í Hafnarfirði