Ég veit ekki hvernig það er með ykkur en heilinn í mér tekur sér aldrei frí. Þannig gerist það mjög oft að þegar ég á þess síst von, er kannski í mestu makindum að borða lifrarpylsu eða Nóa-kropp, að þá hreytir hann í mig hugmynd og eyðileggur jafnvel fyrir mér matinn. Þannig var það í fyrradag þegar ég var sultuslakur að naga pitsusneið að þá klonkeraðist ein á fullu gasi beint á ennið innanvert. Þar sem mér fannst þetta fjarstæðukennd og vitlaus hugmynd þá snýtti ég henni út um nefið með þóttarlegu fnæsi og hélt svo áfram að innbyrða sneiðina, sem mér fannst reyndar orðin hálf ólystug eftir snýtinguna.

Þar með hélt ég að ég væri laus við þessa leiðindahugmynd, en hún hékk á mér eins og pestin og suðaði og suðaði þar til allt í einu að ég sá að þetta var frábær hugmynd, mögulega frábærasta hugmynd sem ég hef fengið.

Hún er þessi: Hertökum Garðabæ.

Við höfum allt sem þarf til þess að leggja undir okkur nágrannasveitarfélag. Við erum með hundrað manna víkingasveit gráa fyrir járnum, við erum með Hamranesflugvöll fyrir loftárásirnar, við erum með firnasterkan og fjölbreyttan flota bundinn við bryggju og ef við skerum slippkvíarnar lausar þá erum við með fyrirtaks innrásarpramma. Við trekkjum að sjálfsögðu í gang tæki og tól í Sankti Jósepsspítala og þá erum við komin með fínasta hersjúkrahús. Hafnarfjörður býr að því að varnir eru hér allar góðar, það sem ekki er varið sjó er girt úfnu hrauni. Hafnfirðingar eru sérfræðingar í hraunhernaði eftir að hafa flestir lært hernaðarlistirnar við dvöl í Kaldárseli þar sem undirritaður lærði að syngja um Jesú og að hertaka óvini og halda þeim svo föngnum í virkjum sem hlaðin voru í hrauninu. Allir hafa svo Hafnfirðingar svo lært hraunhernað í frímínútum á skólalóðinni.

Þetta getur ekki klikkað og fer ég yfir strategíska hlutann í næsta pistli

Ást og friður

Tommi