Í Hafnarfirði eru fjöldinn allur af íþróttafélögum sem eru að vinna stóra sigra og flest öll með blómlegt barna og unglingastarf. Það eru hrein og klár forréttindi fyrir okkur að búa hér í þessum bæ sem virðist vera óþrjótandi brunnur af hæfileikaríku íþrótta- og listafólki. Það er hinsvegar ekkert sjálfgefið að svo verði um ókomna tíð og því má ekki sá dagur líða sem við hugum ekki að framtíðinni.

Við í Framsókn og óháðum ætlum að fylgja eftir þeirri forgangsröðun sem að ÍBH hefur sett upp og ganga hratt í þau mál. Snemma í þeirri forgangsröðun er bætt aðstaða fyrir Hestamannafélagið Sörla sem að hefur eingöngu yfir gamalli reiðskemmu að ráða sem að er löngu sprungin utan af sér. Aðstöðuvandi FH og Hauka í knattspyrnu er líklega flestum kunnur og það þarf að fara í það að leysa þann vanda. Jaðarsportin mega ekki verða útundan enda alls ekki allir sem að finna sig í þessum hefðbundnu boltagreinum. Við ætlum að hækka styrki og bæta aðstöðu jaðarsportfélaga til muna og hjálpa þeim að blómstra enn frekar. Það sem við leggjum áherslu á er ekki eingöngu uppbygging íþróttamannvirkja heldur viljum við vinna að enn frekari samræmingu milli skóladags og frístunda og efla starfssemi frístundabílsins þannig að hann fari á fleiri staði og þjóni fleiri aldurshópum.

Við í Framsókn og óháðum ætlum að leggja okkar af mörkum við að styðja við blómlegt og metnaðarfullt íþróttastarf hér í Hafnarfirði.

Brynjar Gestsson, knattspyrnuþjálfari og stundakennari, skipar 6 sæti á lista Framsóknar og óháðra