Skemmdarverk voru unnin á Hraunvallaskóla um liðna helgi og m.a. brotinn fjöldi flísa sem klæða húsnæðið að utan. Hallgrímur Kúld, húsvörður skólans, segist vera orðinn langþreyttur á ástandinu og að svæðið sé ekki vaktað með öryggismyndavélum, en þeim var nánast öllum stolið utan af húsinu fyrir níu árum. Nemandi við yngstu deild skólans var staðinn að verki við að sparka í eina flís þegar Fjarðarpósturinn var á staðnum við að skoða aðstæður.

IMG_3464

Byggingin er víða illa farin eins og sjá má.

IMG_3481

Krossviðarplötur hafa verið settar til bráðabirgða og þær eru einnig farnar að láta á sjá. 

„Ég bara skil ekki hvers vegna nemendur við skólann, sem ég hef fengið ábendingar um að hafi gert þetta, fari svona illa með skólann sinn,“ segir Hallgrímur, sem bætir við að tjónið með vinnu við lagfæringar geti auðveldlega hlaupið á hundruðum þúsunda, ef ekki milljónum. „Þetta hefur verið gert nokkrum sinnum áður og ýmist virðist hafa verið sparkað eða stórir grjóthnullungar notaðir við þessa ömurlegu iðju. Eitt grjót var meira að segja skilið eftir á staðnum.“

IMG_3473

Einn grjóthnullunganna sem líklega var notaður til að brjóta flísarnar. 

IMG_3461

IMG_3474Mætti vel nýta fjármunina í annað

Flísarnar og öryggismyndavélarnar eru ekki það eina sem hefur fengið á kenna á skemmdarfýsninni undanfarin ár, heldur hafa nokkur gler á klukkum sem eru utan á veggjum skólans einnig verið brotin svo að fjarlægja varð klukkurnar. „Hvert gler í svona klukku kostar um 100 þúsund og ég veit ekki hvað hver flís kostar, en við höfum reynt að setja krossviðarplötur í svipuðum lit í staðinn, en þær eru bara til bráðabrigða. Svo eru fleirihundruð þúsund sem fara í kostnað á ári vegna rúðubrota hérna. Þetta er fyrst og fremst tjón fyrir bæinn og skólann og það væri hægt að gera svo margt annað fyrir fjármunina sem fara í svona lagfæringar, svo sem að bæta aðstöðuna hérna eða bæta við leiktækjum.“

 

IMG_3478

Einn fárar klukkna sem eftir eru á húsi skólans er með brotið gler. Nýtt gler kostar 100 þúsund. 

Einn staðinn að verki

Hallgrímur segir að hann hafi séð konu á Facebook tjá sig um að vera smeyk við að setja son sinn í Hraunvallaskóla vegna neikvæðrar umræðu um umgengni við skólann. Þegar Fjarðarpósturinn var á staðnum að skoða ummerki þá var drengjahópur gangandi um lóðina og einn u.þ.b. sex til sjö ára var staðinn að verki við að sparka í eina flísanna sem var búið að brjóta að hluta til. Hallgrímur spurði drenginn hvers vegna hann væri að þessu og þeim stutta brá og baðst fyrirgefningar. Einn drengjanna sagðist telja sig vita hverjir hefðu verið að verki um helgina.

IMG_3485

Nokkrar öryggismyndavélar voru teknar niður og stolið fyrir 9 árum.

Vill fá myndavélar aftur

„Þeir sem skemma hérna eru fyrirmyndir yngri nemenda sem herma bara eftir eins og við sáum núna,“ segir Hallgrímur sem vill gjarnan að foreldrar tali við börnin sín um alvarleika þess að skemma eignir skólans og bæjarins. „Við eigum að líta á þetta sem eign okkar saman sem notum þennan skóla og fara vel með hann. Við eigum ekki að samþykkja að nemendur skólans hagi sér svona. Svo vil ég bara fá myndavélar hér aftur, bara setja þær enn hærra. Þá er hægt að sjá hverjir eru að verki og láta þá borga fyrir skemmdirnar,“ segir Hallgrímur að lokum.

hraunvallaskóli

Hraunvallaskóli. 

Forsíðumynd: Hallgrímur Kúld húsvörður ásamt tíkinni sinni Líf.