Helga-IngolfsHafnarfjörður er fyrst sveitarfélaga á Íslandi til að fá jafnlaunavottun frá Velferðarráðuneytinu samkvæmt kröfum ÍST 85:2012.  Markmiðið með vottuninni er að sjálfsögðu að útrýma kynbundnum launamun sem því miður er enn til staðar í okkar samfélagi.  Með innleiðingu á jafnlaunastaðli undirgengst sveitarfélagið að leggja fram launagreiningar og  fylgja eftir gerð launaviðmiða m.a. viðmiða fyrir umbun en það er þekkt staðreynd að ýmsar aukagreiðslur sem koma til viðbótar föstum mánaðarlaunum eru oftar en ekki orsök kynbundins launamunar.  Aukið gegnsæi og fagmennska við ákvarðanir launa og umbunar er sjálfsögð krafa í nútímaþjóðfélagi.  Líta ber á innleiðingu jafnlaunavottunar á sama hátt og önnur gæða- og stjórnkerfi sem stuðla að betri og faglegri vinnustað.  Með lögum sem samþykkt voru á Alþingi síðastliðið vor ber öllum fyrirtækjum með 25 starfsmenn eða fleiri að leggja fram áætlun um jafnlaunakerfi og það er ánægjulegt að þó nokkur fyrirtæki hafa nú þegar fengið vottun Velferðarráðuneytisins auk þess sem fjölmörg fyrirtæki og stofnanir nýttu sér Jafnlaunavottun VR sem veitt hefur verið frá árinu 2013.

Jafnréttismál eru samfélagslegt verkefni

Við eigum að sinna jafnréttismálum með virkum hætti og líta á það sem samfélagslegt verkefni að sömu laun séu greidd fyrir jafnverðmæt störf.  Eitt af mínum aðaláherslumálum hafa ávallt verið jafnréttismál og það er því sannarlega ánægjulegt að þessum áfanga skuli vera náð fyrir starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar og því ber að fagna.  Næsta skref er síðan að fylgja áætluninni eftir með markvissum hætti.

Helga Ingólfsdóttir

Bæjarfulltrúi

Formaður Umhverfis- og framkvæmdaráðs og varaformaður Fjölskylduráðs