,,Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum og að réttur hvers og eins sé jafn
sterkur”. Þetta kemur fram í grunnstefnu Pírata sem fjallar um borgararéttindi.
Þessvegna telja Píratar í Hafnarfirði að við alla stefnumótun skuli hafa í huga
jafnréttissjónarmið varðandi kyn, kynhneigð, kyntjáningu, kynvitund eða annað kyngervi og
að vinna skuli með virkum hætti gegn kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi gegn öllu
fólki af öllum kynjum.

Eitt mikilvægasta jafnréttismál samtímans er framkoma hins opinbera við trans fólk og fólk af
öðrum kynjum. Píratar í Hafnarfirði vilja leggja áherslu á að opinber skráningarform geri ráð
fyrir öllum kynjum og að fólk geti breytt nafni sínu í kerfum bæjarins. Þá er einnig mikilvægt
að nýjar byggingar séu hannaðar með þarfir alls fólks í huga. Öllum kynjum skal gefið rými í
opinberum byggingum, t.d skólum, sundlaugum og íþróttahúsum en eldri mannvirki þarf að
lagfæra svo klefar og salernisaðstæður verði ásættanlegar.

Annað mikilvægt jafnréttismál er markviss vinna gegn margþættri mismunun. Fólk sem
tilheyrir tveimur eða fleirum minnihlutahópum er í aukinni áhættu á að verða jaðarsett í
samfélaginu. Við þurfum til dæmis að styrkja stöðu hinsegin fólks og kvenna af erlendum
uppruna með því að veita fólki upplýsingar um réttindi þeirra á viðeigandi tungumáli. Eins
þarf að bregðast við búsetuvanda kvenna með geð- og fíknivanda.

Af mörgu er að taka úr skólakerfinu en Píratar leggja meðal annars áherslu á að starfsfólki í
skóla- og frístundastarfi barna og unglinga standi til boða fræðsla í jafnrétti, svosem í
kynjuðum orðaforða og hvernig megi vinna gegn staðalímyndum.

Hildur Björg Vilhjálmsdóttir
Skipar 3. sæti á lista Pírata