Okkar fólk í framboði til Alþingis

Fjarðarpósturinn hafði samband við þá Hafnfirðinga sem skipa efstu sæti á framboðslista hvers stjórnmálaafls fyrir sig og munu þeir kynna sig og stefnu síns flokks í þessu tölublaði og í næstu viku.

 

Kosningar eiga að snúast um framtíðina og hvernig við getum gert gott samfélag enn betra.  Í dag eru sumir flokkar í forystu um fortíðina og vilja litlu breyta meðan aðrir þora í umbætur sem augljóslega eru til hagsbóta fyrir íslenskar fjölskyldur og fyrirtæki.

Ég gæti farið yfir eitt helsta baráttumál Viðreisnar að skipta krónunni út eða festa hana við annan gjaldmiðil til að lækka vexti, stærsta útgjaldalið íslenskra fjölskyldna. Ég gæti talað um baráttu okkar fyrir því að lækka kostnað við matarkörfuna eða leysa húsnæðisvandann með fjölgun íbúða en þar erum við þegar byrjuð. Ég gæti rætt um ný vinnubrögð sem við í Viðreisn höfum innleitt en í þeim felst ekki í eftirgjöf gagnvart sérhagsmunum heldur því að almennar reglur gildi í samfélaginu. En nú kallar jafnréttið.

Við í Viðreisn settum jafnréttið aftur á dagskrá með því að setja fram jafnlaunavottun til að takast á við kynbundinn launamun. Þetta var fyrsta mál okkar á Alþingi þótt ekki hafi allir rótgrónir flokkar verið alsælir með þá lendingu.  Núna setjum við launakjör hefðbundinna kvennastétta eins og í umönnunar- og kennslustörfum á dagskrá en laun kvenna eru að meðaltali 13% lægri en laun karla. Það er óþolandi. Það þarf viðtæka sátt um þjóðarátak í átt til stóraukins launajafnréttis. Það verður næsta stóra skrefið til að eyða kynbundnum launamun á íslenskum vinnumarkaði.  Slík sátt er nauðsynleg og fyrir henni mun Viðreisn berjast.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Formaður Viðreisnar, skipar 2. sæti í SV-kjördæmi