Framkvæmdir við byggingu nýs hjúkrunarheimilis að Sólvangi ganga vel að sögn Helgu Ingólfsdóttur, bæjarfulltrúa og formanns Umhverfis- og framkvæmdaráðs og formanns starfshóps um byggingu nýs hjúkrunarheimilis, þó verkið sé nokkuð á eftir áætlun. Það helgist aðallega af því að að verktaki hóf verkið seinna en reiknað var með og þurft hafi að brjóta meiri klöpp en útreikningar gerðu ráð fyrir. Verkefnastjórn um bygginguna hafi lagt fast að verktakanum, Munk Ísland, að vinna upp þessa seinkun á næstu vikum og vonir standi til að það verði gert.

Upphaflegur samningur við ríkið gerði ráð fyrir að Hafnarfjarðarbær myndi byggja og reka nýtt hjúkrunarheimili en samningnum var breytt þannig að bærinn mun byggja nýtt og leigja síðan ríkinu sem mun sjá um reksturinn.  „Við teljum að þetta sé betri lausn fyrir sveitarfélagið þar sem fyrir liggur að heimilismenn verða ekki einungis Hafnfirðingar. Enn fremur sýnir rekstur sambærilegra eininga að fjármagn til reksturs er ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt verklýsingu velferðarráðuneytisins,“ segir Helga. Gott dæmi um það sé rekstur hjúkrunarheimilisins Ísafoldar sem Garðabær sagði sig frá á síðasta ári.

Fyrirhugaðar endurbætur og nýting á eldra húsi

Fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar hafa á liðnum misserum gengið á fund þriggja heilbrigðisráðherra og að auki sent þeim formlegt erindi þar sem óskað er eftir viðræðum um að eldra hús á Sólvangi verði áfram nýtt fyrir hjúkrunarrými.  „Sömu arkitektar og hanna nýtt hjúkrunarheimili hafa gert frumkönnun á því með hvaða hætti hægt er að breyta eldri byggingunni þannig að komið verði til móts við kröfur um rými og einbýli án þess að hrófla við útliti hússins. Fyrir liggur að hægt er með góðu móti að breyta innra skipulagi og myndu þannig allt að 33 rými komast fyrir í húsinu auk þess að dagdvöl á jarðhæð verði áfram til staðar,“ segir Helga.

Dagdvalarrýmum fjölgar úr 8 í 14

Áfram er gert ráð fyrir því að bjóða upp á dagdvöl fyrir eldri borgara á Sólvangi og nú hefur dagdvalarrýmum verið fjölgað úr 8 í 14 sem Helga segir að muni gefa mun meiri möguleika á að nýta þessa þjónustu. Áfram verði unnið að því að auka og víkka út þjónustuframboð á Sólvangi sem skuli verða miðstöð öldrunarþjónustu í Hafnarfirði.

Ráðherra jákvæð um fjölgun hjúkrunarrýma

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fékk heimsókn frá fulltrúum Hafnarfjarðarbæjar í síðustu viku og eftir samtal við hana og embættismenn ráðuneytisisns segir Helga að full ástæða sé til bjarsýni varðandi næstu skref. „Það verða viðræður milli Hafnarfjarðarbæjar og ríkisins um fýsileika þess að hluti af þeim 80 hjúkrunarrýmum sem til stendur að fjölga um á höfuðborgarsvæðinu muni koma til Hafnarfjarðar. Öll rök hníga að því að þetta sé hagkvæmt þar sem bæði er um að ræða rekstarlega hagkvæmni og enn fremur sýna útreikningar á kostnaði við endurbætur að það er mun ódýrari og fljótlegri kostur heldur en að byggja nýtt hús frá grunni.“

Mynd: Verkís.