Jón Ingi Hákonarsson, ráðgjafi í starfsendurhæfingu og MBA, leiðir lista Viðreisnar í Hafnarfirði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 26. maí næstkomandi. Vaka Ágústsdóttir, ráðningar og þjálfunarstjóri LSR er í öðru sæti og Þröstur Emilsson, framkvæmdastjóri, í því þriðja.

Í fréttatilkynningu sem send var fjölmiðlum kemur fram að Viðreisn se frjálslynt stjórnmálaafl sem leggur áherslu á jafnrétti og jöfn tækifæri allra, frelsi til orðs og athafna sem heftir ekki frelsi annarra.

„Markmið Viðreisnar er að berjast fyrir réttlátu samfélagi, fjölskylduvænna samfélagi og virkja almenning til áhrifa. Við viljum virkja lýðræðið og setjum almannahagsmuni ávallt framar sérhagsmunum.“

 

Félag Viðreisnar í Hafnarfirði hefur nú birt framboðslista flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 26. maí næstkomandi.

Listann skipa eftirtaldir aðilar:

 1. Jón Ingi Hákonarson, ráðgjafi í starfsendurhæfingu, MBA
 2. Vaka Ágústsdóttir, ráðningar- og þjálfunarstjóri LS Retail
 3. Þröstur Emilsson, framkvæmdastjóri, formaður velferðarnefndar Viðreisnar
 4. Sunna Magnúsdóttir, viðskiptafræðingur
 5. Árni Stefán Guðjónsson, grunnskólakennari og handboltaþjálfari
 6. Auðbjörg Ólafsdóttir, yfirmaður fjárfestatengsla og samskipta
 7. Ómar Ásbjörn Óskarsson, varaþingmaður og markaðssérfræðingur
 8. Þórey S. Þórisdóttir, doktorsnemi í viðskiptafræði, formaður Viðreisnar í Hafnarfirði
 9. Hrafnkell Karlsson, menntaskólanemi og fráf. formaður Hinsegin félagsins Bur í MH
 10. Harpa Þrastardóttir, verkfræðinemi og umhverfis- og gæðastjóri
 11. Daði Lárusson, félags- og viðskiptafræðingur og markmannsþjálfari
 12.  Edda Möller, útgáfustjóri Skálholtsútgáfunnar13. Jón Garðar Snædal Jónsson, byggingafræðingur14. Ásta Rut Jónasdóttir, stjórnmálafræðingur15. Þorvarður Goði Valdimarsson, almannatengill

  16. Lilja Margrét Olsen, lögfræðingur

  17. Þorsteinn Elí Halldórsson, framkvæmdastjóri

  18. Sóley Eiríksdóttir, sagnfræðingur

  19. Halldór Halldórsson, öryrki

  20. Kristín Pétursdóttir, hagfræðingur

  21. Benedikt Jónasson, múrari

  22. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, alþingismaður

Fjöldi mikilvægra verkefna framundan

„Þau eru mörg verkefnin sem bíða okkar í Hafnarfirði bæði stór og smá en öll mikilvæg. Við höfum að undanförnu unnið að stefnumótun fyrir komandi kosningar og er sú vinna enn í gangi en mig langar til að nefna nokkur af okkar áherslumálum fyrir komandi kosningar“, segir oddviti Viðreisnar í Hafnarfirði.

 • Skólamálin verða mál málanna. Við viljum auka frelsi grunn og leikskóla Hafnarfjarðar og draga úr miðstýringu. Þannig teljum við að skólarnir geti sinnt sínum skyldum á fjölbreyttari máta og komið betur til móts við ólíkar þarfir nemenda sinna. Á sama tíma teljum við að styrkja þurfi stoðþjónustu við skólana.
 • Brúum bilið hefur verið eitt af áherslumálum Viðreisnar. Sá vandi sem myndast hjá foreldrum milli fæðingarorlofs og leikskóla er verulegur og því þarf bæjarstjórn að stíga skrefið í samvinnu leikskólakennara, forledra, stéttarfélaga og atvinnulífs.
 • Við viljum sjá sálfræðing í fullu starfi í öllum grunnskólum bæjarins. Heilsubærinn Hafnarfjörður þarf að huga jafnt að andlegri heilsu bæjarbúa sem hinni líkamlegu. Það á að vera jafn sjálfsagt að hafa sálfræðing í skólanum eins og að hafa íþróttakennara.
 • Við viljum sjá aukna samfellu milli skóla og frístunda til að stytta vinnudag barna og gefa fjölskyldunni meiri tíma saman
 • Innleiða á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hjá Hafnarfjarðarbæ. Sáttmálinn er lykilplagg í þjónustu við börn og fjölskyldur og tónar vel við áherslur Viðreisnar og vilja til að brjóta niður múra milli þeirra kerfa sem koma að málefnum barna og fjölskyldna. Kerfin eru til að þjóna fólki en ekki öfugt.
 • Húsnæðismálin eru stórt úrlausnarefni en við í Viðreisn munum vinna í anda Húsnæðissáttmálans sem Viðreisn kynnti í síðustu ríkisstjórn. Þar skiptir máli að allir þeir aðilar sem aðkomu eiga að þessum málaflokki vinni saman með það að markmiði að auka framboð af litlum og meðalstórum íbúðum.
 • Við viljum bæta lífsgæði eldri Hafnfirðinga og bjóða þessum hópi upp á sálfræðiþjónustu og sjúkraþjálfun. Að geta lifað sjálfstæðu lífi eins lengi og kostur er skiptir okkur máli.
 • Við viljum endurskoða ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Núgildandi samningur sem Hafnarfjarðarbær er aðili að, sinnir ekki með fullnægjandi hætti þörfum notendanna. Fjölbreyttari úrræði eiga að vera í boði, úrræði sem miðast við þarfir notendanna.
 • Traust fjármálastjórn er einn af hornsteinum í stefnu Viðreisnar og munum við leggja áherslu á að byggja á þeirri góðu vinnu sem unnin hefur verið í Hafnarfirði undir styrkri stjórn Haraldar Líndal bæjarstjóra.
 • Við viljum auka samvinnu milli sveitarfélaga. Það liggja mikil sóknarfæri í aukinni samvinnu t.a.m þegar kemur að kaupum á vöru og þjónustu, í sorpmálum og fleira.
 • Barnaverndarmál eru svo mikilvægur málaflokkur sem þarf að huga sérstaklega að, auka þar fagmennsku og í raun taka málaflokkinn til gagngerrar endurskoðunar.
 • Við þurfum að huga sérstaklega að málefnum fatlaðs fólks. Hvort heldur er húnsæðismál, ferðaþjónusta eða annað. Allt er þar undir. Við getum gert miklu betur og eigum að gera það.
 • Fræðsla og forvarnir eru sömuleiðis mikilvægur málaflokkur, og má þar nefna vímuefni, ofbeldi, hegðunarfrávik, geðraskanir og fleira.
 • Virkniúrræði fyrir ungt fólk eru aðkallandi úrlausnarefni.

Sett hefur verið upp fb-síða þar sem hægt er að fylgjast með fréttum af starfinu: