Laugardaginn 17. febrúar mun Dýrahjálp Íslands standa fyrir kynningar- og fjáröflunarviðburði í Kirkjulundi 17 (húsið ská á móti Dýraspítalanum í Garðabæ). Starf Dýrahjálpar verður kynnt, sérstaklega verður tekið fyrir fósturheimilastarfið sem og umsjónaraðilastarfið og hægt verður að ræða við núverandi sjálfboðaliða sem hafa starfað á þessum sviðum.

Fólk er hvatt til að kynna sér þessi gefandi og bráðskemmtilegu störf innan Dýrahjálpar og jafnframt skráð sig sem sjálfboðaliða ef það vill taka þátt í gleðinni. Einnig verður á staðnum basar þar sem hægt verður að gera góð kaup á ýmsum varningi sem félagið hefur fengið að gjöf frá einstaklingum og fyrirtækjum og þarf ekki að nota. Til sölu verða m.a. hunda-/kattabúr, bæli, kanínubúr, hamstrabúr, kerti og margt margt fleira.

Fósturhundurinn Jónsi verður á staðnum (ásamt fleiri útvöldum Dýrahjálpardýrum) og mun taka á móti knúsum og klappi ásamt því að „segja“ sögu sína en hann var í mikilli yfirþyngd þegar hann kom til Dýrahjálpar en hefur náð ótrúlegum árangri með breyttu matarræði, hreyfingu og vatnsleikfimi! Frí klóaklipping verður í boði Berglindar Dýrahjálpar-sjálfboðaliða með meiru.

Nánari dagskrá er að finna á Facebook síðu Dýrahjálpar.