Bæjarfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Bæjarlista ítreka fyrri bókanir sínar og athugasemdir um málsmeðferð varðandi þá ákvörðun meirihlutans að falla frá byggingu bæjarins á knatthúsi á Kaplakrika og lýsa furðu á því að haldið sé áfram með málið á meðan kæruferli er í gangi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fulltrúum minnihluta. 

Bæjarfulltrúarnir fordæma jafnframt þá staðreynd sem fram kom í umræðu um viðaukann hér í dag að bæjarstjóri hafi þegar greitt út 100 milljónir króna úr bæjarsjóði til Fimleikafélags Hafnarfjarðar án þess að fyrir lægi samþykktur viðauki. Slíkur gjörningur er andstæður 2. málsgrein 63. greinar sveitastjórnarlaga og heimildarlaus með öllu og allra síst til marks um ábyrga fjármálastjórn. Einnig stangast hann á við 65. grein, um ábyrga meðferð fjármuna sveitarfélagsins.

Með þessari framgöngu hefur meirihlutinn endanlega bitið höfuðið af skömminni í þessu máli og sýnt af sér fullkomið ábyrgðarleysi gagnvart sameiginlegum fjármunum Hafnfirðinga.

Þessi gjörningur bæjarstjóra verður kærður til samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins til að fá úr því skorið hvort lög hafi verið brotin í starfi

Jón Ingi Hákonarson bæjarfulltrúi Viðreisnar

Adda María Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar

Friðþjófur Helgi Karlsson bæjarfulltrúi Samfylkingar

Guðlaug Svala Steinunnar Krisjánsdóttir bæjarfulltrúi Bæjarlistans