Gísli Már Gíslason er hagfræðingur hjá Hagstofu Íslands og bý á Norðurbakkanum með fjölskyldu sinni. Gísli Már skellti í tælenska fiskisúpu með grænu karrý fyrir fjölskyldu sína og lesendur Fjarðarpóstins. Hann segir súpuna einfalda og að hún heni vel í haustkuldanum. Hrísgrjónin gefi súpunni góða fyllingu. Öll hráefnin segist hann hafa að sjálfsögðu fengið í Fjarðarkaupum. 

 

Fiskisúpa með grænu karrý

Uppskrift

 • 500 gr langa (eða annar hvítur fiskur)
 • 1 msk kókosolía
 • 1 þumalstór biti af engifer
 • 1 hvítlauksgeiri
 • ½ rauðlaukur
 • 2 tsk grænt karrýmauk (meira eða minna eftir smekk)
 • 2 dósir kókosmjólk
 • 1 l vatn
 • 1 kjúklingateningur
 • 1 tsk fiskisósa
 • Safi úr ½ límónu
 • 1 lítill haus brokkolí
 • 1 rauð paprika
 • Vorlaukur
 • Kóríander
 • 1 poki Basmati hrísgrjón, soðin skv. leiðbeiningum

 

Aðferð

 1. Súpupottur hitaður á hellu og kókosolía sett í. Engifer og hvítlaukur skorin smátt og steikt snöggt. Rauðlaukur skorinn í sneiðar og steiktur í skamma stund.
 2. Grænkarrýmauki bætt við og steikt í nokkrar sekúndur.
 3. Kókosmjólk, vatni, kjúklingateningi og fiskisósu bætt við og hitað að suðu.
 4. Brokkolí skorið af stilknum og sett í pott. Paprika skorin í strimla og sett út í. Eldað eftir smekk.
 5. Undir lokin er langan skorin í bita og sett út í. Slökkt undir pottinum, beðið í smá stund þangað til langan er elduð í gegn. Smakkað til með límónusafa og súpan borin fram með hrísgrjónum ásamt skornum vorlauk og kóríander.