Hjónin Sigurlaugu Jónínu Jónsdóttur og Ólaf Kristberg Guðmundsson þekkja flestir Hafnfirðingar undir nöfnunum Gógó og Óli, en þau kenndu samtals vel á annað þúsund bæjarbúum af nokkrum kynslóðum að aka bíl. Þau búa í Háabergi en Óli er sannur gaflari, fæddur í kjallaranum á Selvogsgötu 10 árið 1930. Gógó kom til Hafnarfjarðar 18 ára gömul til að starfa á St. Jósefsspítala. Þar kynntist hún Óla.

Óli flutti þriggja mánaða með foreldrum sínum að Selvogsgötu 22 og ólst þar upp. Pabbi hans byggði það hús og Óli byggði sjálfur síðar hús efst við Selvogsgötuna. „Ég bjó því samtals 63 ár við Selvogsgötu. Mín æska var ágæt og þrátt fyrir mikla fátækt var aldrei matarskortur. Pabbi átti alltaf kindur og hesta og fulla tunnu af söltuðu kindakjöti, hrossakjöti og stóra stæðu af saltfiski. Einnig var alltaf  fullt af kolum til kyndingar. Það var ekkert endilega sjálfgefið í Hafnarfirði að fólk ætti kjöt. Pabbi var sá eini í firðinum sem slátraði hestum fyrir aðra. Það var engin aðstaða til þess, hann gerði það bara úti á túni. Hann sinnti þessu fyrir sama fólkið ár eftir ár,“ rifjar Óli upp.

Beikon og appelsínur

Hann man einnig vel eftir því að árið 1937 gaf sjómaður föður hans eina appelsínu sem hann kom með heim og þar hafði enginn séð slíkt. „Pabbi skar appelsínuna í fjóra parta, gaf okkur bræðrunum þremur sinn hvorn fjórðunginn og skipti þeim síðasta í tvennt handa sér og mömmu. Við átum börkinn og allt, þetta var alveg rosalega gott.“ Árið 1942 fóru mamma og pabbi Óla með drengina á hestum Selvogsleiðina og gistu tvær nætur; eina í Nesi í Selvogi hjá Guðmundi þar sem vitinn er, og aðra hjá Hlín í Herdísarvík í heyinu í hlöðunni. „Við komum við í hádeginu daginn eftir hjá Magnúsi í Krýsuvík og borðuðum þar hverabrauð og smjör. Skammt frá voru fimm Ameríkanar sem héldu til í bragga til að fylgjast með umferðinni á sjónum. Áður en við fórum voru Kanarnir búnir að steikja handa okkur beikon og egg, sem við höfðum aldrei séð fyrr. Þeir fylltu svo hnakktöskuna af appelsínum. Það var svakaleg veisla!“ segir Óli.

Ung og nýtrúlofuð í Dýrafirði. 

Góð samskipti við hermennina

Þegar breski herinn var kominn um 1940 seldi Óli þeim fisk og franskar fyrir Jón Matthiesen. „Hann keyrði okkur með bakka m.a. að stórum kampi við Urriðaholt og þar seldum við hermönnunum. Þeir fylltu sölukassana sem við bárum af appelsínum og eplum, súkkulaði og tyggjói. Samskipti voru mikil og góð við hermennina. Bretarnir tóku fyrst yfir Flensborgarskólahúsið og voru með stór topptjöld á túninu  þar til dvalar og matar þá um sumarið.“ Þegar stríðið skall á var klaustrið í byggingu fyrir nunnurnar og var verið að múra það að innan þegar herinn tók það yfir. Herinn tók bara yfir þau hús sem stóðu tóm á þessum tíma. Svo smíðuðu þeir bragga í viðbót,  þannig voru margir „kampar“ í Hafnarfirði og nágrenni þar sem herinn hafði reist sér aðstöðu,“ segir Óli.

Ameríkaninn kom svo árið 1942 og tók við af Bretunum. Þá fór Óli að selja útlensk blöð til hermannanna. Í bröggum á bakvið klaustrið voru kolabyngir og þegar amerísku hermennirnir höfðu yfirgáfu klaustrið fórum við strákanir í hverfinu með hjólbörur að og keyrðu kolin heim í þeim. „Mig minnir að ég hafi náð í þrjár eða fjórar börur. Þetta var dýrmætt á þessum tíma.“

 

Gíslabúð

Þegar Óli var 13 ára hóf hann störf í Gíslabúð hjá Gísla Gunnarssyni kaupmanni, beint á móti Þórðarbúð sem kölluð var. Það var verslun uppi á Hamrinum, rétt fyrir neðan spítalann. „Þá var engin reiknivél í búðinni og ég reiknaði allt í huganum. Þar voru alltaf skammtaðir ávextir fyrir jólin og komu bara sendingar af eplum fyrir jólin. Lagði eplalykt yfir allan í bæinn viku fyrir jól en eplunum var stillt út í glugga og á borðin í búðinni. Á þessum tíma var skammtað út á sykurneyslu heimilanna. Svo komu sykurmiðar og skammtað út frá þeim. Þarna var allur fjandinn seldur frá matvöru og upp í vefnaðarvöru. Þá var engin rafmagnssög til og handsöguðum við kótilettur og heilu skrokkana til að selja.“

Óvænt ástin beið í Hafnarfirði

Gógó fæddist árið 1935 í Haukadal í Dýrafirði og ólst þar upp  til 18 ára aldurs, þegar hún fór til Hafnarfjarðar til að starfa í St. Jósefsspítala í einn vetur. „Ég kunni afar vel við mig þar og réð mig aftur til starfa árið 1982 og vann þar allt til ársins 2005. Þetta var alveg frábær vinnustaður og starfaði ég því samanlagt í 25 ár. Veturinn eftir að við Óli kynntumst, árið 1954, stundaði ég nám í Húsmæðraskólanum. Þar lærði ég margt nytsamlegt, það var virkilega góður tími og skildi mikið eftir sig en ég hafði ekki haft kost á öðru námi“.

St. Jósepsspítali þegar Gógó starfaði þar.

Óli: Fyrsta skiptið sem ég sá Gógó ók ég sjúkrabíl hérna ásamt öðrum. Við komum með gamla konu á spítalann og Gógó stóð fyrir aftan eina nunnuna, á fyrsta vinnudegi sínum. Svo kynntist ég henni betur 1-2 mánuðum síðar. Ég var bæði feiminn og hlédrægur og skildi ekki hvað stelpur vildu þegar ég var á þessum aldri. Ég tók samt fyrsta skrefið, mig minnir það nú! Gógó: Stelpur áttu ekki frumkvæði að slíku á þessum tíma! Mér leist ljómandi vel á Óla, það gefur augaleið! “

Fjórir briddsfélagar byggðu saman hús

Parið bjó fyrst um sinn heima hjá foreldrum Óla og eignuðust þar fyrsta barn sitt af fimm árið 1956. Þau misstu eina dóttur. Óli og þrír bridds-félagar hans ákváðu að byggja allir hús á sama tíma og áttu ekki krónu fyrir því. „Ég gat keypt timbrið notað frá ritstjóra Þjóðviljans, hann var að byggja í Kópavogi og lét rífa allt utan og innan úr húsinu sínu. Timbrið lá hringinn í kringum húsið, hvorki nagldregið né skafið og ég bauð í það 12 þúsund krónur og hann tók því.“ Timbrið var flutt á vörubíl á milli og þeir notuðu svo sama bíl síðar til að sækja allan sand til að byggja húsin og var hann handmokaður. „Úr timbrinu fengum við um tvær vatnsfötur fullar af nöglum og Gógó og pabbi minn réttu alla naglana um veturinn. Við höfðum ekki efni á að kaupa nagla og í þá daga beygðu menn sig eftir nagla ef þeir misstu þá. Naglarnir enduðu svo í klæðningu þaksins á einu húsanna,“ segir Óli.

Síðan var allt steypt með lítilli vél og fimm félagar pabba Óla, auk félaga hans, komu til að vinna með þeim og tóku ekkert fyrir. Það var mikið kapp og metnaður settur í að klára og allt unnið á höndum. Þetta var allt meira og minna skiptivinna. „Á þremur árum byggðum við fjögur hús, þar af eitt fokhelt við Fögrukinn; Öldutún 8, Holtsgötu 19 og Grænukinn 18.“ segir Óli. Óli, Gógó og börnin bjuggu í sínu húsi við Öldutún í 34 ár. Fyrst áttu þau einungis einn dívan og einn eldhúskoll. Fengu svo fjóra kolla í viðbót auk eldhúsborðs frá Herði bróður Óla sem er smiður. Enginn ísskápur var til staðar og engin hrærivél heldur.

Guðm. Rúnar og Elínborg Jóna elstu börn Óla og Gógó fyrir utan Öldutún 8.

Fjölskyldumynd frá 9. áratugnum. 

Rafvirki, lögregla, ökukennari

Óli kláraði rafvirkjann og vann í þrjú ár hjá Rafveitunni og keyrði sjúkrabílinn ásamt fleirum, sem þá var á þeirra vegum í líklega í 20 ár áður en slökkviliðið tók við honum. „Svo fór ég aftur í rafvirkjunina um tíma áður en ég fór í lögregluna. Ég átti vin sem var yfirlögregluþjónn í Hafnarfirði, Jón Guðmundsson. Hann bauð mér sumarstarf í afleysingum eitt sumarið í löggunni. Ég ætlaði aldrei að verða lögregluþjónn en starfaði samt við það í 39 ár og 9 mánuði, þar af 24 ár sem aðstoðaryfirlögregluþjónn og 9 mánuði sem yfirlögregluþjónn.“ Einn daginn árið 1963 datt Óla í hug að fá sér ökukennararéttindi því hann var með meirapróf. Hann átti þó engan bíl. „Árið 1970 kenndi ég á meiraprófsnámskeiðum, þeim fyrstu í Hafnarfirði og kunni vel við það.“ Gógó: „Ég fór á námskeið hjá honum og það varð til þess að ég tók ökukennaraprófið tveimur árum síðar. Ég varð önnur eða þriðja konan sem kenndi á bíl hér á landi og ég kenndi í 33 ár.“

Óli: „Við höfðum ekki efni á að kaupa bíl fyrr en ég fór að kenna á bíl. Við keyptum Volkswagen og kenndi ég upp í skuldina fyrir bílnum. Þá lærðu allir á bíl, það er orðið svo dýrt í dag þó ekki hafi það verið neitt ódýrt í den heldur. Ég var ekki dýr og kenndi mörgum fyrir lítið.“ Gógó bætir við: „Krakkar lærðu auðvitað á bíl allt árið og vorum við því viðloðandi ökukennsluna árið um kring án þess þó að taka mikið frí. Ég var stundum orðin trúnaðarvinur nemendanna og tók þátt í gleði þeirra og sorg í tengslum við bílprófið. Ég tók mjög inn á mig ef illa gekk í prófinu enda iðulega afmælisdagur þeirra og þar af leiðandi mikilvægur dagur. En það var svo gaman að vera í návist unglinganna og það gaf okkur mikið að kenna þeim og upplifa lífið í gegnum þau,“ segir Gógó að lokum og Óli er henni sammála.

 

 

Mynd af hjónunum við eldhúsborðið: OBÞ

Aðrar myndir í einkaeigu.