Viðreisn er frjálslyndur og alþjóðlega sinnaður flokkur sem hefur jafnrétti sem leiðarstef í öllum sínum verkum. Það gildir jafnt um innra starf sem stefnu og pólitískar ákvarðanir.

Jafnlaunavottun hefur verið lögfest fyrir tilstilli Viðreisnar. Það er öflugt tæki til að útrýma kynbundnum launamun innan vinnustaða. Viðreisn ætlar að halda á fram á þessari braut og taka næsta skref sem er þjóðarátak um leiðréttingu launa þeirra stétta sem einkum eru skipaðar konum.

Kynferðisofbeldi af öllu tagi er samfélagslegt mein. Breyta verður skilgreiningu nauðgunar til nútímahorfs og hverfa frá úreltum viðhorfum. Viðreisn hefur þegar lagt fram frumvarp þessa efnis sem hefur verið fagnað af þeim sem gerst þekkja til afbrota af þessu tagi. Nauðsynlegt er að efla getu lögreglu og ákæruvaldsins til þess að sinna þessum málaflokki.

Viðreisn vill jafnrétti við stjórn fjármálakerfisins. 90% þess er í höndum karla – það gengur ekki. Fyrsta skref til þess að laga þetta er að gera lífeyrissjóðum skylt að setja sér jafnréttisstefnu sem tekur til fjárfestinga.

Viðreisn vill að atkvæðavægi landsmanna verði jafnt. Strax á að nýta á það svigrúm sem kosningalög leyfa og breyta ákvæðum stjórnarskrár um leið og unnt er.

Viðreisn vill jafnrétti í sjávarútvegi. Taka á upp markaðsleið við úthlutun aflaheimilda. Þannig verður aðgangur að kerfinu opinn og þjóðin fær eðlilegt afgjald af auðlind sinni.

Viðreisn vill jafnrétti í samgöngumálum. Suðvesturhornið hefur orðið útundan í þeim efnum og það verður að laga.

Þetta eru nokkur dæmi um að Viðreisn lætur verkin tala og hefur kjark til þess að hrinda jafnréttismálum í framkvæmd.

 

Jón Steindór Valdimarsson skipar 2. sæti á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi