Öll þekkjum við geðrænan vanda á eigin skinni eða í okkar nánasta umhverfi. Ómeðhöndlaður geðrænn vandi hefur mikil áhrif á þann sem þjáist, fjölskyldu viðkomandi og samfélagið allt. Lífsgæði skerðast, vinnuframleiðni minnkar, aukin þörf skapast fyrir þjónustu félags- og heilbrigðiskerfis, tekjur tapast vegna glataðra skatta og útgjöld aukast vegna bóta úr almannatryggingarkerfinu. Rannsóknir hafa sýnt að þriðjungur fólks þjáist af þessum vanda á hverju ári og helmingur einhvern tímann á lífsleiðinni. Rannsókn sem ég vann 2011 var í takt við aðrar rannsóknir og sýndi að þriðjungur þeirra sem koma á heilsugæslu koma vegna geðræns vanda. Því er spáð að þunglyndi verði helsta ástæða örorku 2030.  Tæplega fjórðungur þeirra sem eru á örorku eru það vegna geðraskana. Ungum karlmönnum á örorku hefur fjölgað síðustu ár og sjálfsvíg er algengasta dánarorsök  ungra karlmanna 18-24 ára hér á landi. Í dag er aðgengi að bestu mögulegu meðferð allt of takmarkað og þjónustan sem fólk fær er of lítil, of langt í burtu og kemur of seint.

Við viljum aðgengilegt, skilvirkt og öflugt geðheilbrigðiskerfi

Ég legg áherslu á umbætur í geðheilbrigðiskefinu. Efla þarf forvarnir og fræðslu um geðheilbrigði á öllum sviðum. Tryggja þarf aðgengi almennings að bestu mögulegu meðferð við geðrænum vanda eins og kvíða og þunglyndi í nærumhverfi. Meðferðin þarf að standa til boða og vera niðurgreidd af ríkinu í heilsugæslunni, í skólakerfinu, í öldrunarþjónustu, á sjúkrahúsum, hjá félagsþjónustu og hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingum. Huga þarf sérstaklega að því að tryggja þessa þjónustu á landsbyggðinni. Því fyrr sem vandi greinist og því fyrr sem fólk fær viðeigandi aðstoð því minni þjónustu þarf. Ráðast þarf í þjóðarátak gegn sjálfsvígum og vinna gegn ofbeldi og þöggun þess.

Geðheilbrigðismál eru mitt hjartans mál

Ég hef barist fyrir bættu aðgengi að sálfræðiþjónustu og umbótum á geðheilbrigðiskerfinu um árabil. Fjárfesta þarf sérstaklega í geðheilbrigðiskefinu. Sú fjárfesting mun strax skila sér tilbaka. Ég mun leggja áherslu á þessi mál á Alþingi Íslendinga. Til þess að ég geti gert það þarf ég stuðning þinn þann 28. október næstkomandi.

Kristbjörg Þórisdóttir skipar 2. sæti á lista Framsóknarmanna í SV-kjördæmi