Okkar fólk í framboði til Alþingis

Fjarðarpósturinn hafði samband við þá Hafnfirðinga sem skipa efstu sæti á framboðslista hvers stjórnmálaafls fyrir sig og þeir kynna sig og stefnu síns flokks í næsta tölublaði og í síðustu viku.

 

Ástæða þess að ég býð krafta mína fram er sú að ég þoli ekki óréttlæti og þann farveg sem hægri öfl á Íslandi hafa valið okkur. VG er augljós kostur.

VG mun ekki að hækka skatta á almenning heldur gera skattkerfið réttlátara. Við viljum setja kjör almennings í forgang og hækka ráðstöfunartekjur elli- og örorkulífeyrisþega.

Mikilvægt er að styðja við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og stórauka framlög til uppbyggingar félagslegs leiguhúsnæðis. Húsnæðisbætur þarf að hækka með það að markmiði að húsnæðiskostnaður fari ekki yfir fjórðung af ráðstöfunartekjum.

Við viljum tryggja sveitarfélögunum öruggan tekjugrunn til að sinna nauðsynlegri nærþjónustu. Það er auðvelt að láta ríkið skila tekjuafgangi með þeirri aðferð sem hefur tíðkast. Að lögbinda sífellt fleiri verkefni sveitarfélaganna án þess að tekjur til þeirra séu tryggðar. VG leggur einnig ríka áherslu á samráð ríkis og sveitarfélaga um metnaðarfull markmið í loftslagsmálum.

Við viljum endurskoða fyrirkomulag Lánasjóðs íslenskra námsmanna og menntastofnana og efla að nýju jafnrétti til náms.

Við Vinstri græn, höfum alla tíð byggt á þeirri skoðun að kvenréttindi séu mannréttindi. Við viljum gera heildstæða úttekt á réttarstöðu brotaþola kynferðisofbeldis og tryggja að sú vitundarvakning sem orðið hefur um þetta samfélagsmein skili árangri út í samfélagið.

Ef þú vilt vita meira, bendi ég á vg.is.

Verið einnig hartanlega velkomin á kosningaskrifstofu VG að strandgötu 11 í spjall og kaffi.

 

Ester Bíbí er búsett í Hafnarfirði og er í 5. sæti á framboðslista VG í Suðvesturkjördæmi.