Flestir kannast núorðið við stjúpfeðginin Dýra Kristjánsson og Lönu Björk Kristinsdóttur í hlutverkum Íþróttaálfsins og Sollu stirðu. Dýri er hagfræðingur frá Minnesota háskóla, keppti í áhaldafimleikum þar og starfar dags daglega sem sjóðstjóri skuldabréfasjóða hjá Stefni ehf. Lana Björk er á leið í 10. bekk í Áslandsskóla. Þau búa í Áslandinu og þar er stundum smeygt skrautlegum myndum frá aðdáendum inn um bréfalúguna og þau jafnvel beðin um að koma út að leika. 

Dýri æfði fimleika og árið 2006 tók hann þátt í áhættuatriðum við gerð Latabæjarþáttanna. Ári síðar þróaðist sú vinna út í að koma fram og skemmta sem Íþróttaálfurinn, þó mest í útlöndum. „Upp úr 2010 heimsótti ég leikskóla á Íslandi og þá fór boltinn smám saman að rúlla. Magnús Scheving hefur ekki komið fram í þessu hlutverki síðan 2014 og ég hef formlega verið í því síðan þá. Þetta eru orðin um 1100 skipti,“ segir Dýri sem heldur nákvæmt bókhald yfir framkomur, með stöplaritum og tilheyrandi. „Mér finnst þetta mjög skemmtilegt og ég vil halda vel utan um þetta.“

IMG_2542

Stjúpfeðginin bregða á leik í Hellisgerði. Myndir: Olga Björt

Fjölhæfni og aukið sjálfstraust

Lana Björk kom fyrst fram sem Solla stirða á sumardeginum fyrsta í fyrra. Aðspurð segist hún lengi hafa langað að prófa þetta hlutverk, enda með verulega góða fyrirmynd á heimilinu. „Ég hef æft fimleika lengi, verið í sönglist, söngtímum og hef tekið þátt í tískusýningum og alls kyns verkefnum tengdum framkomu. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt og það er svo frábært hvað krakkarnir eru glaðir og taka mikinn þátt,“ segir hún. Dýri bætir við: „Ég og mamma hennar vitum það og þessu fylgir góður boðskapur. Þetta er líka góð leið til að víkka út þægindahringinn og auka sjálfstraust. Lana Björk hefur staðið sig mjög vel.“

Viljum ekki predika

Markhópurinn er 3-6 ára börn en Dýri segist hafa skemmt krökkum alveg upp í 10 ára. „Þá eru þeir eiginlega orðnir of töff fyrir þetta og þá fer maður líka bara í annan gír. Lætur aðal töffarann í salnum gera með sér armbeygjur og svona.“Hann segist þakklátur foreldrum fyrir að mæta aftur og aftur með börnin sín og hann veit að þeir eru líka þakklátir fyrir boðskapinn. „Við viljum ekki predika heldur vera góðar fyrirmyndir. Grunnurinn er taktföst tónlist sem krakkar hreyfa sig við en við reynum líka að læða inn húmor sem fullorðna fólkið getur tengt við.“

dyri_solla

Íþróttaálfurinn og Solla stirða í búningum sínum. Mynd: ÓMS

„Af hverju ertu með bleikt hár?“

Spurð hvort krakkar reyni að nálgast þau heima við játa þau því hlæjandi. „Við komum heim og þá bíða okkar teikningar og bréf. Ef ég er úti á palli að grilla þá er stundum kallað: „Viltu koma út að leika?“ segir Dýri. Krakkarnir spyrji líka alls kyns spurninga og séu mjög einlæg. „Hvað heitur þú?“ „Af hverju ertu með bleikt hár?“ Lana Björk segir að best sé að svara spurningu með spurningu. Á þessum nótum rifjar Dýri upp skondið atvik úti á landi þar sem hann skemmti 300 krökkum í litlum sal. „Ég lét alla hita upp og lagði svo til að allir færu í splitt. Þá kallaði einn drengurinn hátt og snjallt: Íþróttaálfur! Ég get ekki farið í splitt, þá verður mér svo illt í typpinu!“ Þetta vakti mikla kátínu meðal viðstaddra.“

Mikilvæg ábyrgðarhlutverk

Í ljósi þess hversu lengi Magnús Scheving var í hlutverki Íþróttaálfsins segir Dýri að hann ætti alveg sjálfur að geta haldið þessu áfram næstu 15 árin. „Þetta heldur manni ungum líka og í góðu formi.“ Lana Björk segist líka vilja gera þetta sem lengst. „Það eru hæfileikaríkar stúlkur sem hafa leikið Sollu og það hefur verið góður stökkpallur. Þetta eru ábyrgðarhlutverk og mikilvægt að sinna þeim vel. Þótt fyrirtækið Latibær sé ekki lengur á Íslandi en samt kallað eftir okkur að skemmta, það segir eitthvað. Við munum halda áfram að gera okkar besta,“ segir Dýri.