Trefjar ehf. hafa frá árinu 1979 framleitt yfir 400 smábáta og hjá þeim starfa um 60 manns. Fyrstu bátarnir voru Skel en árið 1996 þróaði fyrirtækið nýja hraðfiskibáta undir nafninu Cleopatra, sem er aðalframleiðsluvaran í dag. Við hittum Högna Bergþórsson, tækni- og markaðsstjóra, sem sagði okkur frá fyrirtækinu og rekstrinum.

„Almenningur tengir mest við heitu pottana okkar, en utan þess að smíða skip þá þjónustum ýmsan annan iðnað einnig. Sem dæm má nefna fyrir álverin og virkjanirnar, m.a. kúluhúsin á Nesjavöllum og á Kröflusvæðinu. Þar eru gjarnan valdir litir sem falla inn í umhverfið hverju sinni,“ segir Högni, sem hefur starfað hjá fyrirtækinu í 20 ár og ætíð haft mestan áhuga á að selja íslenska vöru í útlöndum. „Við höfum þróað vörur okkar með íslenskum sjómönnum, lært inn á þeirra þarfir og hvernig hlutirnir þurfa að vera fyrir aðra markaði. Eitt dæmi um þetta var þróun báta til að sölu í Bretlandi. Þar eru humar og krabbi veiddir í gildrur sem því miður þekkist ekki enn á Íslandi. Við þróuðum lausnir fyrir þann markað og erum enn að selja þar og víðar í Evrópu. Verðmæti á humri veiddum í gildrur er margfaldur miðað við veiddan í troll.“

trefjar_

Viðskiptavinir kortlagðir
Inni í fundarherbergi Trefja ehf. eru þrjú landakort; eitt af Íslandi, annað af Evrópu og þriðja af heiminum. „Við fylgjumst vel með bátunum sem við seljum og merkjum staðsetningarnar inn. Þetta er ágætis markaðstæki fyrir okkur og veitir góða yfirsýn. Við leggjum mikið uppúr eftirfylgni og þjónustu við eigendur bátana. Auk viðskiptavina okkar hérlendis eru þeir einnig frá Bretlandi, Noregi, Frakklandi, Arabíu, Afríku, Suður Ameríku og Grænlandi. Við einbeitum okkur þó að mörkuðum Evrópu sem eru næstir og líkastir okkur, með svipaðar reglur og menningarheima.“

Einn af nýrri mörkuðum þeirra er Frakkland, sem Högni segir að búi yfir mikilli fjölbreytni af litlum bátum sem notaðir séu í ólíka hluti. „Við erum með umboðsmenn víða og þar þarf þolinmæði í svona. Það þótti í raun fjarstæðukennt fyrir 20 árum síðan að Bretar eða Norðmenn myndu kaupa báta af okkur. Í dag skoða þeir okkur hiklaust sem einn af þremur fyrstu kostum. Við höfum reynt að byggja upp okkar ímynd sem traust og áreiðanlegt fyrirtæki.“

trefjarMunkar mættu af fyrra bragði
Árið 2012 boðuðu grískir munkar komu sína á skrifstofu fyrirtækisins til þess að kaupa af þeim fiskibát. „Þetta var ábóti 200 munka klausturs ásamt fleiri munkum. Allir alskeggjaðir og klæddir svörtum kuflum. Þeir veiða til eigin neyslu og eru hörkuflinkir sjómenn. Þeir keyptu fyrst fiskibátinn og svo farþegabát ári seinna.“

Einnig kom fulltrúi kóngafjölskyldu frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum og keypti bát eftir dálítil samskipti. „Hann var svo flinkur að við vissum ekki fyrr en eftir viðskiptin að kaupandinn var úr sjálfri konungsfjölskyldunni, sem m.a. á Manchester City knattspyrnufélagið. Við sendum Mugga (pabba Mugisons), Guðmund Kristjánsson, nú hafnarstjóra á Ísafirði, til þeirra að kenna þeim á bátinn. Við reynum að gera þetta eins faglegt og frekast er unnt þannig að hægt sé að treysta okkur. Þannig viljum við hafa þetta.“

Cleopatra_40_trefjarGera allt til að tryggja gæðin
Stærsti viðskiptavinur Trefja ehf. er þó í Noregi, annað stærsta olíuleitarfyrirtæki í heimi. „Við smíðum nú alla þeirra vinnubáta og tökum að okkur viðhald og eftirlit hjá þeim. Okkar starfsmenn eru því reglulega í þjónustuferðum um borð í þeirra skipum úti á sjó.“ Högni segir töluverða samþjöppum hafa orðið á innanlandsmarkaði og miklu færri aðilar í útgerð en með stærri báta. „Við erum með þrjú mjög stór verkefni um þessar mundir, en almennt smíðum við 8-20 báta á ári. Það fer eftir stærð þeirra. Flestir viðskiptavina okkar í dag eru erlendir en það er að hluta til vegna þess að bátar sem fyrst voru seldir innanlands hafa verið seldir út. Við erum líka alltaf að sérþróa báta fyrir hvern viðskiptavin eftir þörfum. Það kemur fjöldi iðnaðarmanna að hverri smíði og við gerum allt til að tryggja gæðin.“

oseyrarbraut29_trefjarVilja vera í Hafnarfirði
Trefjar ehf. eru í glæsilegu húsnæði að Óseyrarbraut 29 sem opnaði 2008 og var fyrsta húsið á landinu sem byggt var sérstaklega sem bátaverksmiðja. Það stóð til að loka starfseminni að Hjallahrauni 2 en það veitti ekki af auka húsnæði. „Við smíðum skrokkana í Hjallahrauninu og klárum þá hér. Það er á döfinni bygging annars húss hér við hliðina og þá verður öll starfsemin á einum stað. Það hefur ekki bara verið metnaður hjá okkur að framleiða bátana á Íslandi – heldur í Hafnarfirði,“ segir Högni að lokum.

Forsíðumynd: OBÞ. Aðrar myndir frá Trefjum ehf.