Ég hef að undanförnu verið viðstödd marga viðburði og samkomur þar sem börn eru í aðalhlutverkum. Börn á öllum aldri að gera góða hluti, vekja eftirtekt og athygli.

Ég á tvær dætur, 10 og 15 ára, sem hafa frá því í leikskóla fengið þjálfun í að standa fyrir framan hóp og tjá sig, ýmist í hlutverkum, með upplestri eða bara með því að kveikja á kertum á skólasamkomum. Ég vildi óska að sú hefði verið venjan þegar ég var barn. Hvorug þeirra á í vandræðum með að koma fram og þær segja líka meiningu sína jafn óðum. Heft tjáning gerir engum gott.

Í viðtali í tölublaði vikunnar segir Andri Steinar Johansen, sigurvegari í Stóru upplestrarkeppninni, að upplestur fyrir framan hópa auki sjálfsöryggi sem nýtist í svo mörgu öðru allt lífið.

Þegar ég hlýddi á hvern magnaðan upplesturinn á fætur öðrum í téðri keppni, fylltist ég ekki bara stolti í garð keppenda og ánægju með að slík keppni sé haldin. Ég sá þarna röð af fjórtán kynslóðabetrungum sem munu vera fyrirmyndir í að finna góðar aðferðir við að leiða næstu kynslóðir til góðra verka og viðhorfa.

Hlutverk okkar, hinna eldri, er að taka eftir því sem vel er gert; hrósa fyrir það og láta börnin finna hversu mikils virði allar framfarir eru. Allir sigrar, stórir sem smáir.