Í síðasta tölublaði Fjarðarpóstins er fjallað um uppbyggingu á Dvergsreitnum. Farið er yfir ferlið og skipulagsforsögn sem var forsenda nýgerðra deiliskipulagsbreytinga. Vitnað er í forsögnina með þessum orðum „ Í skipulagsforsögninni segir m.a. að almennt skuli ekki gera ráð fyrir að byggt verði hærra en 2 hæðir og nýtanlegt ris.“ Hér er rétt að öll málsgrein forsagnarinnar sé birt, en þar segir „Leitast skal við að fella húsin að aðliggjandi húsum við Lækjargötu og Brekkugötu hvað varðar form, efnisval og stærðarhlutföll, þannig að þau virki sem eðlilegt framhald af þeirri byggð. Almennt skal ekki gera ráð fyrir að byggt verði hærra en 2 hæðir og ris ofan á þak jarðhæðarinnar.”

Á mynd með greininni má sjá að aðliggjandi hús nánast hverfa þrátt fyrir að um loftmynd sé að ræða, hvað þá þegar staðið er á götu niðri. Ljóst er að þessi nýja byggð er í hróplegu ósamræmi við skipulagsforsögnina.

Greinarhöfundur tekur einnig fram í greininni að skipulags- og byggingarráð hafi samþykkt að taka út raðhúsalengju, sem voru teiknuð á baklóð Gúttó. Þessi hús voru aldrei inni í skipulagsforsögninni! Til hvers er verið að samþykkja að taka eitthvað út þegar skiplagsforsögn gerði alls ekki ráð fyrir að hafa það inni?

Eigendur allra aðliggjandi hús hafa harðlega mótmælt þessu mikla byggingarmagni og hæð húsanna. 23 aðilar og hópar gerðu athugasemdir við deiliskipulagstillögurnar en ekkert tillit var tekið til þeirra sem er kaldhæðnislegt þegar nýskipaður bæjarstjóri segir orðrétt í blaðaviðtali . “Þú þarft að að hlusta á íbúana og bregðast við óskum þeirra og sjónarmiðum eins og við á hverju sinni.”

Að auki hefur Skipulagsstofnun óskað eftir 7 lagfæringum á deiliskipulagsbreytingunum, m.a. á útreikningum nýtingarhlutfalls, skilmálum á hvernig fella eigi húsin sem best að aðliggjandi húsum ofl.

Dvergshúsið var ein stór mistök. Ætla bæjaryfirvöld að sniðganga meginmarkmið skipulagsforsagnar og miða deiliskipulagsbreytingar út frá þeim mistökum eða nota tækifærið sem býðst til að gera gamla miðbæinn einstakan á lands vísu?

Sigurjón Elíasson.

Skýringarmynd greinar Sigurjóns frá því í þarsíðasta tölublaði:

Skýringarmynd greinar Sigurjóns frá því í þarsíðasta tölublaði.