Umfjöllun um læsi og slakar niðurstöður skimana í lestri á landsvísu sem og annars staðar í heiminum er ekki ný til komin og því síður umfjöllun um slakan árangur drengja. Fjöldinn allur af fagfólki hefur fjallað um kosti og galla mismunandi nálgana í lestrarkennslu, greint frá því sem það telur mikilvægt og enn aðrir látið áhyggjur sínar í ljós.

Eins hafa foreldrar, kennarar sem og annað fagfólk lagt sitt á vogarskálarnar svo vel megi vera. Hvort sem það er hvatning foreldra í heimalestri, fagvitund kennara í kennlustofunni eða ígrundun fagfólks í þeirri áætlunargerð sem fram hefur farið á vegum menntamálaráðuneytisins, sveitafélaga og skóla, þá virðast það svo að enn sé árangur drengja áhyggjuefni.

Tekið skal fram að ekki er litið svo á að eitthvað sé algilt í þessum stóra heimi lestrar-  og kennslufræða þar sem sambærilegar jafnt sem ólíkar skoðanir fagfólks mætast og jafnvel skarast. En ekki verður litið fram hjá þeirri staðreynd að rannsóknir og skimanir geta gefið okkur ákveðnar vísbendingar um gott gengi og varpað ljósi á það sem betur mætti fara.

Mikilvægi læsis og lesturs er óumdeilt og flest teljum við slakan árangur drengja vera áhyggjuefni. Því er eins farið í skólum Hjallastefnunnar. En hugmyndarfræðin í heild sinni fangar vel hvernig ólíkum þörfum drengja og stúlkna er mætt hverju sinni og þar er lestrarkennslan, sem er lykilþáttur í læsi, engin undantekning. Í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Hafnarfirði benda niðurstöður úr stöðluðum skimunum í lestri til þess að ólíkar nálganir í kynjaskiptu starfi geti náð fram árangri þar sem á hvorugt kynið hallar – með öðrum orðum jafnrétti.

Ágæti kynjaskiptingar í skólastarfi er umdeilt. En sé litið til innlendra og erlendra rannsókna er varða kynjafræði menntunnar í kynjablönduðum skólahópum, þá bendir allt til þess að í kennslustofunni fái drengir meiri athygli en stúlkur. Sú athygli virðist síður en svo vera drengjum til framdráttar í læsi – eða hvað?

Í lokin er vert að hafa í huga að eitt þarf ekki að útiloka annað þegar þörfum barna er mætt. Kennslufræðilegar nálganir, sem eru fjölmargar,  hafa mikið vægi í námi barna og þá eru nálganir sem taka mið af ólíkum þörfum kynjanna ekki undanskyldar – hversu mikið rými þær fá eða ættu að fá er efni í aðra umfjöllun.

Hildur Sæbjörg, skólastýra Barnaskóla Hjallastefnunnar í Hafnarfirði.