Ný gatnamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar voru tekin í notkun sl. föstudag. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra opnaði formlega gatnamótin með aðstoð Hreins Halldórssonar vegamálastjóra. Auk þeirra voru viðstödd Haraldur Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Rósa Guðbjartsdóttir formaður bæjarráðs, Guðlaug Kristjánsdóttir forseti bæjarstjórnar, Jón Gunnarsson alþingismaður og fulltrúar frá Hafnarfjarðarbæ, Vegagerðinni, verktakanum og aðrir sem komið hafa að verkinu.

Verktakar eru Loftorka Reykjavík ehf. og Suðurverk hf og byrjað var á verkinu í mars 2017. Ýmis konar frágangsvinnu á þó eftir að vinna og verður lokið við þá vinnu á vormánuðum 2018. Verkið felst í gerð mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar við Krýsuvíkurveg.

Til framkvæmdanna teljast einnig breytingar á Krýsuvíkurvegi, gerð tengivegar að Suðurbraut og tengivegar að Selhellu. Einnig er innifalin gerð göngu- og hjólastígs meðfram Suðurbrautartengingu og hraðatakmarkandi aðgerðir á Suðurbraut. Þá er gerð hljóðmana við Reykjanesbraut í Hafnarfirði hluti verksins. Auk þess eru innifaldar breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja og landmótun.

Tilboð í verkið voru opnuð 22. febrúar 2017. Verksamningur var undirritaður 21. mars 2017 og verk hófst. Uppsteypa brúarmannvirkis hófst 21. júlí 2017. Verklok samkvæmt samningi áttu að vera 1. nóvember 2017, en seinkaði af ýmsum ástæðum. Heildarkostnaður er áætlaður um 1.100 m.kr.

 

Forsíðumynd: Hersir Gíslason.

Aðrar myndir frá Hafnarfjarðarbæ.