Þrjú ár eru liðin frá því leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson fékk símtal um að það stæði til boða að fara til Marokkó að leika í sjónvarpsseríu fyrir bandarísku sjónvarpsstöðina NBC og að hann hefði tvær vikur til að hnýta alla hnúta. Hann stökk á það tækifæri og það hefur aldeilis undið upp á sig. Fleiri sjónvarpsseríur og kvikmyndir fylgdu í kjölfarið. Fjarðarpósturinn heyrði í Jóhannesi Hauki áður en hann stökk af stað í tökur á nýjasta hlutverkinu, hollenskum skipstjóra í kvikmyndinni Where’d You Go Bernadette.

„Þetta leggjst allt mjög vel í mig, þetta er algjört ævintýri! Ég verð hér við tökur á skipinu í eina viku. Allar senurnar mínar gerast um borð í skipinu svo það er hægt að pakka öllu saman á stuttum tíma. Næsta verkefni er svo sjónvarpssería sem verður tekin upp á Englandi og í Noregi, verð í því verkefni fram í febrúar,“ sagði Jóhannes Haukur, rétt áður en hann lagði af stað til Grænlands. Jóhannes Haukur hefur ferðast til landa sem hann hefur aldrei komið til áður og hefur einnig getað leyft fjölskyldu sinni að koma með í sumar ferðir. „Yngsta barnið okkar er ansi víðförult þótt hún sé ekki einu sinni orðin tveggja ára. Nú er ég staddur á Grænlandi í fyrsta sinn á ævinni og mun dvelja hér í nokkra daga og leika hollenskan skipstjóra í Hollywood kvikmynd.“ Sögusviðið er Suðurskautið en Jóhannes Haukur segir að sem betur hafi ekki þurft að fara alla leið þangað. „Við gistum og tökum upp á rússnesku rannsóknarskipi rétt hjá Kangerlussuaq. Hér er veðrið gott og sólin skín.“

Myndir: Frá Jóhannesi Hauki.