Líf Erlu Kolbrúnar Óskarsdóttur og fjölskyldu snarbreyttist á skelfilegan hátt eftir að hún fór í aðgerð vegna endaþarmssigs eftir barneignir. Aðferðum læknisins í aðgerðinni hafði almennt verið hætt fyrir um 30 árum en urðu til þess að Erla Kolbrún er öryrki með stöðuga sára verki. Líkamleg vanlíðan hafði að lokum þær andlegu afleiðingar að Erla Kolbrún undirbjó að taka eigið líf en bíður nú þess að komast að á endurhæfingargeðdeild á Kleppi. Hún leggur áherslu á mikilvægi opinnar tjáningar sjúklinga og aðstandenda og segir að Snapchat hafi bjargað henni á myrkum dögum.

Erla, eiginmaður hennar Andrés Helgason og dæturnar Alexandra Ösp og Magdalena Eik búa á Völlunum. Það var ekki að sjá á Erlu hún væri sárþjáð þegar Fjarðarpóstinn bar að garði, enda ber hún sig mjög vel, stórglæsileg, skemmtileg og með mikla útgeislun og dillandi hlátur. „Núna eru verkirnir á skalanum 5-6 af 10 en eru langoftast 7-8. Þannig að miðað við það er ég bara nokkuð góð núna! Ég er búin að lifa með verki í bráðum 6 ár,“ segir Erla og brosir. Hún býr yfir miklu sjálfsöryggi og æðruleysi, enda hefur hún bæði sagt fjölmiðlum sögu sína áður og tjáir sig mikið um veikindi sín á Snapchat.

Erla Kolbrún og Andrés, eiginmaður hennar. 

Öskraði af sársauka eftir aðgerðina

Eftir fæðingar dætranna var Erna vör við erfiðleika með hægðir, að halda þvagi og fékk ítrekað sveppasýkingar. „Lengi vel spurði ég engan út í það. Hélt að það væri bara hluti af því að fæða börn. Síðan versnaði þetta svo mikið og þegar Magdalena var 2 ára leitaði ég til læknis sem sagði að ég væri með mikið endaþarmssig og þyrfti að fara í aðgerð sem hann sagði einfalda, ég færi heim sama dag og sárin yrðu um sex vikur að gróa.“

Vegna afar langs biðlista eftir slíkri aðgerð á Landspítalanum mælti læknirinn með vini sínum, lækni við heilsugæslustöðina á Akranesi. Báðir voru nálægt sjötugu í aldri. Erna tók ákvörðun um að láta vaða og komst að eftir örfáar vikur, alsæl. „Ég var sjálf ekkert búin að heyra í þeim lækni og ég hitti hann ekkert fyrir svæfinguna. Þegar ég svo vaknaði eftir aðgerðina þá öskraði ég af sársauka og mér var gefið morfín og svæfð aftur. Sama gerðist þegar ég vaknaði aftur og ég ældi af verkjum. Hjúkrunarfræðingurinn sagði mér að róa mig og við tóku dagar þar sem ég m.a. datt út af verkjum.“

Erla Kolbrún á Landspítalanum. 

30 ára gömul skurðaðferð

Þegar hér var komið við sögu var Erla hætt að nærast og Andrési leist ekki á blikuna og hringdi á sjúkrabíl og þau fóru á bráðamóttökuna í Fossvogi í von um að koma Erlu henni til Akraness til að fá einhverja hjálp. Ekki er boðið upp á slíkan neyðarakstur á milli sjúkrahúsa á kvöldin og um nætur svo að starfsfólk bráðamóttökunnar bjó um Erlu í aftursæti fjölskyldubílsins, bílbeltalausri, og Andrés varð að aka Erlu til Akraness, sjálfur með tárin í augunum.

„Þá hitti ég lækninn og hann sagði að það væru ytri saumar sem þyrfti að taka, en hann var mjög þurr á manninn og tillitslaus. Hann tók svo saumana aðeins síðar og sendi mig heim, en verkirnir skánuðu ekki. Við fórum þá aftur á bráðamóttökuna og þar sagði Andrés við starfsfólk að þau færu ekki fet fyrr en einhver hlustaði á það sem Erla hafði gengið í gegnum.“ Við þeim tók læknir sem hringdi í þann sem hafði gert aðgerðina. Röð atvika urðu til þess að það kom í ljós að sá gamli hafði saumað í grindarbotnsvöðvann, í stað þess að skera í bandvefina í kring, og eyðilagt taugar. Hætt hafði verið að skera á þann hátt um 30 árum fyrr.

Settist á rúmin og kvaddi börnin

„Ég vildi óska að ég hefði gúglað lækninn fyrir aðgerðina, því saga hans er ekki falleg! Síðan þá hef ég verið verkjasjúklingur og ekkert getað unnið. Ég er eins og áttræð kona að neðan sem hefur átt 13 börn eða eitthvað álíka,“ segir Erla, en við tóku önnur alvarlegri áhrif. „Andlega hliðin hrundi og tímabili var ég búin að ákveða að taka eigið líf og kveðja börnin mín. Þegar dæturnar sváfu eitt kvöldið þá settist ég á rúmin þeirra, talaði hljótt við þær og strauk þeim. Í þessu ástandi fannst mér það eina raunsæja ákvörðunin að láta mig hverfa svo að fjölskyldan mín gæti fengi betra líf. Andrés fann eitthvað á sér og tók eftir því þegar ég sat hjá Magdalenu. Ég var tekin úr aðstæðunum og ekið beint á geðdeild Landspítalans á sjálfsvígsvakt.“

Bíður eftir að komast að á Kleppi

Þarna fer af stað ferli sem smám saman leiðir til þess að Erla er tengd við geðlækni í gegnum heimilislækninn sinn. „Hann var dásamlegur, ungur og nýkominn heim úr námi. Hann hjálpaði mér með lyf og slíkt en þau hafa því miður ekki hjálpað nóg því ég er með mikið þunglyndi og kvíða. Ég upplifi samt góða tíma inni á milli. Í haust hrundi ég aftur á botninn og um síðastliðin áramót sat ég inni í bíl og grét á meðan Andrés og dæturnar fóru út að njóta flugeldanna við Garðakirkju. Eftir það vildi geðlæknirinn koma mér inn á endurhæfingargeðdeild á Kleppi eða á Reykjalund. Ég kaus frekar Klepp, m.a. því þar eru lyfin ekki tekin af mér og ég get hitt fjölskylduna meira því þetta er opin innlögn með eftirliti. Geðlæknirinn vill skipta alveg um lyf og það gæti tekið einhverjar vikur. Ég er í biðstöðu með að komast að þar núna. Andrés passar lyfin mín og skammtar mér þau,“ segir Erla.

Minni áhyggjur aðstandenda eftir Snapchat

Erla opnaði Snapchat aðganginn sinn fyrir 2 árum og fann að hún hafði frá svo mörgu að segja og það hjálpaði henni. „Þar er stórfjölskyldan og vinirnir og ég gat upplýst alla jafn óðum. Allir höfðu aðgang að mér og það fréttist út og ókunnugir fóru að fylgjast með líka. Ég fékk svo góð viðbrögð því margir voru í svipaðri stöðu,“ segir Erla, og fylgjendur urðu 1000 á mjög skömmum tíma og fjölgar ört. „Það eru svo margir sem upplifa sig eina með geðsjúkdóma sína og það finnst mér stundum líka. Svo fæ ég bara stundum dásamleg skilaboð akkurat þegar ég þarf á þeim að halda. Andrés hefur líka minni áhyggjur af mér og getur sinnt tvöfaldri vinnu sinni, dætrunum og heimilinu. Hann er skiltagerðamaður og barþjónn. Andrés er einstakur og kletturinn minn og ég veit ekki hvar ég væri ef hann væri ekki maðurinn minn.“

Upplýst börn öruggari

Spurð um líðan dætranna í gegnum þetta ferli allt saman segir Erla að þær hafi oft upplifað það að sjúkrabíll komi og taki mömmu þeirra með sér vegna mikillar þjáningar. „Eldri stelpan mín, Alexandra Ösp, er einhverf og er þannig gerð að hún er einhvern veginn með allt á hreinu. Ég spurði hana um daginn: Hvernig líður þér þegar mamma fer með sjúkrabíl eða grætur? Þessi elska svaraði: Ég veit að þegar þú ferð á spítala þá kemurðu alltaf aftur. Alexandra er líka með hlutverk, t.d. að taka hundinn okkar og fara með hann inn í herbergi. Það hjálpar henni. Sú yngri, Magdalena Eik, er mikil tilfinningavera og mjög skýr. Hún hefur upplifað margt með mér, t.d. þegar ég fékk lyfjakrampa um daginn þegar hún svaf við hliðina á mér. Hún grætur oft og ég tek líka mjög oft utan um hana og hún spyr mig á kvöldin hvort allt sé í lagi. Við fylgjumst vel með henni og styðjum við hana. Það er mikilvægt að upplýsa börnin eins og hægt er miðað við þeirra þroska. Það er minn versti ótti að börnin mín séu hrædd og óörugg,“ segir Erla.

Dæturnar Magdalena Eik og Alexandra Ösp við „frosbrunninn“ í Hellsigerði. 

Bætur dekkuðu uppsafnaðar skuldir

Erla er menntuð lyfjatæknir en mun aldrei vinna við það. „Ég fór á endurhæfingarlífeyri til að byrja með í þrjú ár. Svo fór ég í örorkumat og er fullur öryrki. Þegar ég tilkynnti mömmu það hún fór bara að gráta, ekki ég. Ég var enn svo dofin. Þetta er tegund af sorgarferli með öllum sínum hæðum og lægðum. Ég verð t.d. oft reið. Réttarkerfið á Íslandi er svo asnalegt að ef ég færi í mál við lækninn þá myndi ég bara tapa á því. Ég fór þó í mál þar sem ég fékk hæstu mögulegu bætur frá sjúklingatryggingum og þær dekkuðu skuldir sem höfðu hlaðist upp. Við gátum farið af leigumarkaðnum og keypt okkur íbúð þar sem okkur líður vel.“ Svo fóru fyrirtæki að taka eftir Erlu á Snapchat og bjóða henni samstarf. „Ég hef mikinn áhuga á förðun og hönnun og hef fengið dýrmæt hlutverk sem hjálpa mér. Ég hitti aðrar konur og ræðum eitthvað uppbyggjandi í kjölfarið. Það huggar vinnuhjartað í mér.

Verkjateymi vekur von

Spurð um hvernig hún horfir til framtíðar segir Erla að ekki sé langt síðan hún sá ekki framtíð fyrir sér. „En í dag er verkjateymi sem fundar um mína líðan og það gefur mér dýrmæta von. Ég mun halda áfram að ‘snappa’ og fylgjast með öðrum þar. Mig langar að efla snappið mitt og hjálpa fleirum sem eru í sömu stöðu. Ég vona að ég geti það. Fólk er forvitið um hvernig manneskja fer að því að vera með svona stöðuga verki. Núna virðist allt líka vera að opnast og fólk að tala um það sem áður hefur verið tabú. Sem betur fer,“ segir Erla brosandi.

Erla. Elskan mín. Og besti vinur. Hljómar einsog Hollywood klisja en þannig er það. Þú ert fyrirmynd fyrir aðra. Þú hefur alltaf verið með opið og góðlegt hjarta og alltaf viljað hjálpa öðrum. Ekki hætta því. Þú ert fyrirmynd dætra þinna. Þær sjá sterka konu. Konu sem hefur glímt við gríðarlega erfið veikindi og áföll eftir þessa árás. Þú hefur farið djúpt í ölduskaflana og átt erfitt með að sigla út úr þeim. En þú hefur alltaf náð því. Dætur okkar munu ætíð muna og vita hvað þær eiga sterka, góða og fallega móður. Ekki gleyma því. Við verðum alltaf þér við hlið í þessu stríði. Við höfum tapað mörgum orustum. Unnið nokkrar. En við munum sigra i þessu stríði. Við elskum þig heitar en allt og sjáum ekki lífið án þín.

Þinn Andrés og dætur. 

 

Myndir úr Hellisgerði: Olga Björt. Aðrar myndir frá Erlu.