Um 250 manns troðfylltu sal Félags eldri borgara við Flatahraun þegar Janus Guðlaugsson, PhD-íþrótta- og heilsufræðingur, kynnti samstarfsverkefni sitt og Hafnarfjarðarbæjar. Um er að ræða markvissa heilsueflingu allt að 160 Hafnfirðinga á aldrinum 65 ára og eldri í eitt og hálft ár. Mikill fjöldi skráði sig á lista á staðnum og allt lítur út fyrir að ærið „lúxusvandamál“ bíði bæjarins með að koma til móts við fjöldann ef hann fer yfir mörkin, enda eru um 3500 Hafnfirðingar á þessum aldri. Fjarðarpósturinn plataði Janus í stutt viðtal að kynningu lokinni, en hann er sjálfur Hafnfirðingur og hóf þessa vegferð sína hér í bæ um aldamótin.

Janus Guðlaugsson.

„Ég er búinn að vera 15 ár í þessu ferli, var áður námsstjóri íþrótta í heilbrigðisráðuneytinu í 10 ár. Fór svo til Danmerkur 1996-97 í framhaldsnám í stjórnun og íþróttir fyrir sérhæfða hópa, m.a. fatlaða og eldri borgara. Þá kviknaði á einhverri peru hjá mér með að það væri svo lítið gert fyrir þessa hópa á Íslandi. Svo blundaði það bara inna með mér. Við tók meistaranám í íþróttafræðum. Ég er svona fyrsti Móhíkaninn í slíku meistaranámi og þurfti að finna verkefni og datt niður á þetta í tengslum við þjálfun hér í Hafnarfirði, 2000 – 2004. Þá skoðaði ég þrjá hópa; einn sem æfði þol, annan styrk og þriðja bæði styrk og þol. Sá síðastnefndi kom langbest út. Við tók svo 7 ára doktorsvinna. Þetta hefur gefið mér helling, ánægju af því að sjá eitthvað verða til. Mætingin var ótrúleg og það gerðist reyndar líka í Reykjanesbæ,“ segir Janus hrærður.

Úr kynningu Janusar. 

Þátttakandi gaf göngugrindina sína

Upphafið að samvinnu Janusar og Hafnarfjarðarbæjar er doktorsverkefni hans, sem á íslensku kallast Fjölþætt heilsurækt – Leið að farsælli öldrun. Sambærilegt verkefni hefur verið í gangi síðan í vor í Reykjanesbæ með frábærum árangri. Mælingar hafa sýnt fram að þátttakendur hafa náð að losa sig við einkenni sykursýki B og þá var dæmi þess að þátttakandi gaf göngugrindina sína í þarfari verkefni um jólin þar sem hann var ekki lengur bundinn notkunar á henni eftir hálfs árs þátttöku. Hver og einn þátttakandi fær einstaklings miðaða æfingadagkrá sem gerð verður í kjölfar mælinga á þreki, styrk og líkamlegs ástands hvers og eins. Æfingar fara fram í fámennum hópum undir leiðsögn fagfólks. Auk þol og styrktaræfinga verður þátttakendum einnig boðið upp á fyrirlestra er snúa að hollu mataræði og lífsstíl. Samningurinn er liður í áherslu sveitarfélagsins í þá veru að hvetja og efla íbúa sína til hreyfingar og hollra lífshátta og draga úr þörf á aðstoð heilbrigðiskerfisins eins og kostur er.

Þessir herramenn höfðu mikinn áhuga á að bæta heilsu sína. 

Ný nálgun á sviði heilsu og velferðarmála

Á fyrirlestrinum sagði Janus að verkefnið væri ný nálgun á sviði heilsu og velferðarmála að ræða sem þurfi að taka alvarlega og veita athygli. Mikilvægt sé að vinna gegn þáttum sem stuðli að þróun kyrrsetulífsstíls með aukinni daglegri hreyfingu, breyttri og bættri matarmenningu, nægum svefni og breyttum hugsunarhætti. „Lífsstílsbreyting er maraþonhlaup en ekki spretthlaup. Það sem skiptir máli fyrir þátttakendur er að viðhalda þeim lífsstílsbreytingum sem þegar hafa litið dagsins ljós eða eiga eftir að gera það að lokinni sex mánaða þjálfun. Því er nauðsynlegt að styðja þau áfram í þessu breytingarferli hafi þau áhuga að halda því áfram. Svo má ekki gleyma áhrifum hreyfingar á heila og minni,“ sagði Janus m.a. í kynningunni.

Þessar vinkonur voru fljótar að skrifa sig á lista. 

Staðfesta og einbeitt hugarfar

Flestir þátttakendur sækjast eftir að geta sinnt athöfnum daglegs lífs lengur, geta búið áfram í sjálfstæðri búsetu, stundað vinnu lengur, forðast eða seinkað innlögn á dvalar og hjúkrunarheimili og viðhaldið eða bætt lífsgæði og líðan á efri árum og jafnvel lengt líf sitt um 5-10 ár. „Það skiptir höfuðmáli að vera staðföst í að vinna með sjálfa sig, endurskoða eða styrkja lífsstíl sinn enn frekar, hugarfar sitt og anda. Það er aldrei of seint að byrja en getur verið óheppilegt að bíða of lengi. Ef við höfum ekki tíma fyrir heilsuna í dag hefur heilsan ekki tíma fyrir okkur á morgun,” sagði Janus jafnframt.

Það komust færri inn í salinn en vildu. Hópur fólks sat eða stóð í forstofunni og reyndi að fylgjast með.

Nokkrir bæjarfulltrúar voru viðstaddir kynninguna og við gripum Rósu Guðbjartsdóttur, formann bæjarráðs og formaður stýrihóps vegna verkefnisins Hafnarfjörður – heilsueflandi samfélag. „Þetta kemur skemmtilega á óvart og hversu mikill áhugi er á heilsueflingu yfirleitt. Bara frábært hvað eldri borgarar eru áhugasamir. Þetta er frumkvöðlaverkefni sem greinilega er mikill áhugi fyrir og lúxusvandamál ef fleiri vilja taka þátt en lagt var upp með. Næsti hópur getur komið inn í sumar eftir fyrsta sex mánaða tímabilið. Maður hefur svo mikla trú á forvarnagildinu í þessu og mikilvægt að auka lífsgæði, hamingju og vellíðan,“ segir Rósa.

Myndir: OBÞ.