Viðreisn vill auka lífsgæði allra  Hafnfirðinga en ekki síst þeirra sem eldri eru og byggðu upp þennan bæ með dugnaði og hyggjuviti. Það eiga að vera lífsgæði að fá að eldast í firðinum fagra. Sem betur fer líður mörgum vel og geta notið allra þeirra lífsgæða sem tilveran býður upp á. Hins vegar er hópur eldri Hafnfirðinga sem þarf aðstoð til að hámarka lífsgæði sín.

Það skiptir máli að fá að eldast með reisn og hluti af því eru félagsleg samskipti.  Því miður er stækkandi hópur eldra fólks í hættu á að einangrast heima hjá sér, sér í lagi yfir háveturinn þegar færðin er slæm. Viðreisn vill finna leiðir með eldri borgurum til að rjúfa félagslega einangrun með bættum samgöngum. Við horfum m.a. til þeirrar leiðar sem blindrafélagið fór á sínum tíma, en félagið samdi við leigubílastöðvar um ferðaþjónustu.

Við viljum gera eldri Hafnfirðingum kleift  að búa heima eins lengi og kostur er og viljum styðja betur við heimilisaðstoð. Við viljum jafnframt auðvelda þessum hópi að sækja sér þjónustu sjúkraþjálfara og sálfræðinga. Það er okkur líka hjartans mál að þeir sem þiggja heimsendan mat hafi valfrelsi og geti valið sér hvaðan sú þjónusta er keypt.

Viðreisn vill standa vörð um hagsmuni eldri borgara í Hafnarfirði. Það er allra hagur að bæði líkamleg og andleg heilsa sé sem best. Það er fjárfesting sem skilar ávinningi.

Það á að vera gott að eldast í Hafnarfirði. Gerum góðan bæ betri og bætum lífsgæðin og gerum það saman.

 

Jón Ingi Hákonarson skipar 1. sæti á lista Viðreisnar

Þröstur Emilsson skipar 3. sæti á lista Viðreisnar