Um 30 hafnfirsk börn, auk um 15 foreldra, eru félagar í Ljónshjarta, stuðningssamtökum fyrir ungt fólk (20-50 ára) sem hefur misst maka og börn þeirra. Samtökin voru stofnuð fyrir fimm árum og nafnið vísar í bók Astridar Lindgren, Bróðir minn Ljónshjarta. Þau stóðu fyrir samveru og grillveislu á Víðistaðatúni sl. sunnudag og framundan er Reykjavíkurmaraþonið, þar sem fólk er hvatt til að heita á samtökin. Ljónshjarta voru veitt samfélagsverðlaun Fréttablaðsins í hópnum Frá kynslóð til kynslóðar fyrir starfsemi sína árið 2017.

Stofnendur Ljónshjarta.

Hugmyndin að Ljónshjarta kviknaði þegar fjórar ungar hafnfirskar ekkjur; Ína Sigurðardóttir, Karen Björk Guðjónsdóttir, Sara Óskarsdóttir og Elísabet Rós Kolbeinsdóttir, kynntust og vorum sammála um að það vantaði vettvang fyrir fólk í þessari stöðu. Einnig fannst þeim ekki allir sitja við sama borð. Börn sem höfðu til dæmis misst foreldri úr krabbameini höfðu betri aðgang að alls kyns þjónustu í gegnum Ljósið og Krabbameinsfélagið. Þær stofnuðu Facebook hóp snemma árs 2013. Í dag eru meðlimir í honum 220 manns. Þar er fólk sem hefur nýlega misst maka (jafnvel daginn eftir missi hefur fólk skráð sig inn) sem og einstaklingar sem misstu fyrir 10-15 árum. Sá hópur sækir ekki mikið í stuðning heldur frekar að styðja aðra og miðla reynslu sinni.

Karen Björk Guðjónsdóttir, Silja Úlfarsdóttir, Karólína Helga Símonardóttir, Anna Ýr Böðvarsdóttir, Jóna Rut Gísladóttir og fjölskyldur voru meðal þeirra sem nutu samveru í grillveislu á Víðistaðatúni um liðna helgi.

Sterk viðbrögð við Facebook hópnum

Fram kemur á heimasíðu samtakanna www.ljonshjarta.is að makamissir í blóma lífsins sé eitt mesta áfall sem hægt sé að verða fyrir á lífsleiðinni. Það taki mjög á að vera í djúpri sorg og sinna á sama tíma börnum og heimili. Viðbrögðin við Facebook hópnum voru afar sterk og fannst stofnendum að þyrfti meira utanumhald og að hjálpa fólki að vinna úr sorg sinni. Því ákváðu Karen og Ína að stofna samtök og fengu aðra góða einstaklinga til liðs við sig.

Fjarðarpósturinn kíkti í grillveisluna um liðna helgi og ræddi þar við Karólínu Helgu Símonardóttur, Silju Úlfarsdóttur og Karen Björk Guðjónsdóttur, sem allar eru í stjórn samtakanna og eiga það sameiginlegt að hafa misst maka sína. Þær segja mjög hjálplegt að fá að komast í kynni við og hitta fólk í sömu sporum; finna skilning og stuðning hjá þeim sem þekkja af eigin reynslu hvað við sé að etja.

Upplýsingar og jafningjastuðningur

Einnig segja þær mikilvægt að fólk sem misst hefur maka geti fengið aðstoð við að átta sig á hvernig ráðlegast sé að gera hlutina og finna á einum stað upplýsingar um réttindi sín í kerfinu og leiðir í sorgarvinnu fullorðinna og barna. „Starfsemin hefur verið öflug og eru erindi eða viðburðir fyrir börn og fullorðna í hverjum mánuði. Þar er að finna allar helstu upplýsingar hvað varðar sorg og sorgarviðbrögð. Ýmis ráð er þar að finna, reynslusögur, upplýsingar um fagfólk sem hægt er að leita til o.fl. Lokaði Facebook hópurinn okkar er fyrst og fremst hugsaður sem vettvangur fyrir jafningjastuðning. Einnig erum við með opna síðu á Facebook undir heitinu Ljónshjarta.“ Þær stöllur hvetja þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoninu, sem fram fer um helgina, að heita á samtökin. Þeim peningum verði vel varið.

Myndir frá samverunni um liðna helgi: 

Myndir úr grillveislu/OBÞ

Mynd af stofnendum: aðsend.