Desember er fallegur tími. Þrátt fyrir myrkrið er hann á vissan hátt bjartasti mánuðurinn. Fólk keppist við að skreyta með ljósum. Kertaljós, ljósaseríur, hvít og litrík ljós, ljós í gluggum, á svölum og í garðinum. Hugmyndafluginu eru engin takmörk sett. Litríkar ljósaskreytingar í bænum og þegar veðurguðirnir eru okkur hliðhollir toppa svo ljósin á himinhvelfingunni allt. Hvað er yndislegra en stjörnubjartur himinn, tunglskin eða dansandi norðurljós? Svo koma flugeldarnir á gamlárskvöld. Dásamlegt að horfa á öll þessi ljós. Gott að sjá ljósið í víðustu merkingu.

„Gott að sjá þig,“ segjum við gjarnan þegar við hittum vini og kunningja. En í bókstaflegri merkingu er gott að sjá þig — í myrkri? Íslendingar klæðast gjarnan dökkum fötum á veturna. Ég var engin undantekning. Eitt sinn gekk ég um í fallegu svörtu kápunni minni og var bara ánægð með það þangað til bíll snarhemlaði við hliðina á mér. Það var sem sagt ekki gott að sjá mig. Ég slapp með skrekkinn og fór beinustu leið í endurskinsmerkjaleit. En viti menn. Það var flóknara en ég hélt þar til einhver benti mér á banka sem væri líklega með endurskinsmerki. Ég þangað og bar upp erindið. „Já, er það fyrir stelpu eða strák?“ „Ja, eiginlega fyrir ömmur,“ svarði ég hálfhvumsa og vingjarnlegu konunni var greinilega brugðið og afsakaði sig. Það gleymist stundum að fleiri en börnin þurfa endurskinsmerki. En ég fór út með fallegt bleikt merki en sá fljótlega að ég þyrfti fleiri til að sjást almennilega.

Síðan þetta var hefur þeim fjölgað sem láta ljós sín skína í umferðinni. En betur má ef duga skal. Því miður eru enn þá alltof margir í dökkum yfirhöfnum sem ekki er gott að sjá. Ég þurfti sjálf að snarhemla um daginn fyrir einum slíkum. Ef ég hefði skaðað einhvern myndi ég trúlega aldrei sjá ljós framar. Hugsum og sjáumst í umferðinni.
Og á meðan ég man. Mig langar í flott endurskinsmerki í jólagjöf.