Það er alltaf svolítið skemmtilegt að nota þessa spurningu til að brjóta ísinn í samtölum við fólk, því hver vill ekki bjarta framtíð? Hverjar svo sem stjórnmálaskoðanir fólks eru, opna þessi orð oft leið að áhugaverðum samtölum. Orð eru jú til alls fyrst.

Nú eru að verða fjögur ár frá því sundurleitur hópur fólks, með sameiginlega sýn á framtíð bæjarins síns og ástríðu til að sjá hana rætast, safnaðist fyrst saman undir merkjum Bjartrar framtíðar og bauð fram lista í bæjarstjórn. Frábærar móttökur skiluðu okkur ábyrgðarhlutverki í meirihluta, sem við höfum nálgast með gildi Bjartrar framtíðar að leiðarljósi. Þessi gildi – hugrekki, svigrúm, jafnvægi, hlýja, skilningur, hreyfing, traust og ábyrgð – hafa reynst ómetanlegt veganesti í því fjölbreytta og annríka starfi sem þátttaka í bæjarstjórn svo sannarlega er.

Skemmtilegri Hafnarfjörður

Slagorðið okkar um skemmtilegri bæ hefur flogið víða á þessum árum. Það hljómar kannski léttvægt eða grunnt að vilja umfram allt gera bæinn sinn skemmtilegri, en þegar öllu er á botninn hvolft er það líklega markmið okkar allra að hafa ánægju af lífinu og tilverunni.

En hvað er það sem gefur lífinu gildi og gerir tilveruna skemmtilegri? Kannski aukinn tími fyrir fjölskylduna, að geta farið í sund á kvöldin og háttað börnin í leiðinni. Að börnin séu glöð í skólanum, fái góðan mat, fjölbreytt verkefni í frístund. Hvað með jákvæða og öfluga þjónustu í nærumhverfinu og aðgengi að fjölbreyttu menningarlífi? Metnaðarfullur bær vill að sjálfsögðu bjóða þjónustu í fremstu röð, hugsa vel um alla og setja mannréttindi og jafnan rétt í forgrunn. Snyrtilegt og lifandi umhverfi er líka lykill að vellíðan, sem og vissan um að skila framtíðinni hreinu umhverfi og heilbrigðri náttúru.

Síðast en ekki síst þarf að fara vel með og vera hagsýn. Á bak við slagorð um skemmtilegheit eru nefnilega fjölmörg háalvarleg verkefni og mikil ábyrgð.

Áfram veginn

Það er meðbyr í Hafnarfirði og framtíðin björt. Þjónusta bæjarins hefur eflst, reksturinn hefur náð jafnvægi og við höfum alla burði til að gera enn betur. Aukin ánægja íbúanna í bænum er jafnframt kærkomin hvatning til að halda ótrauð áfram á sömu braut. Við í Bjartri framtíð í Hafnarfirði hlökkum til áframhaldandi samtals við bæjarbúa og bjóðum alla áhugasama velkomna í hópinn.