Sigurð Sigurjónsson leikara þarf vart að kynna fyrir Íslendingum. Hann er einn dáðasti leikari okkar tíma og er nýkominn aftur „heim“ í Þjóðleikhúsið og stendur þar einn á sviðinu sem Ove í einleiknum „Maður sem heitir Ove“ eftir samnefndri bók. Sigurður er mikill fjölskyldumaður og finnst ekkert betra en að ferðast um landið. Fjarðarpósturinn hitti hann á sunnudegi heima í Stuðlaberginu og spjallaði við hann í stofunni þar sem hann lærir allar rullurnar sínar.

Sigurður er fæddur í heimahúsi og uppalinn á Hamarsbraut 10 í Hafnarfirði, stoltur eiginlegur Gaflari eins og hann segir sjálfur. Hann ólst þar upp til sextán ára aldurs hjá einstæðri móður sinni ásamt eldri bróður.

„Maður áttar sig á því núna hvað maður var heppinn með umhverfi til að alast upp í. Verandi í Hafnarfirði á þessum tíma, í návist við nunnurnar, slippinn, Dröfn skipasmíðastöðina, fjöruna, Hamarinn, Klaustrið. Ævintýraheimur.“

Sigurður bjó á Hamarsbrautinni, nánast við hliðina á Kató og St. Jósefsspítala og í miklu návígi við nunnurnar í Klaustrinu. Hann fór í Kató, svo í Öldutúnsskóla glænýjan sem þá var undir stjórn Hauks Helgasonar skólastjóra. Þaðan lá beinast við að fara í Flensborgarskólann. Hann útskrifaðist þaðan sem gagnfræðingur og svo var það bein leið í Leiklistarskóla Íslands.

Hann flutti svo í Vesturbæinn eða þar til hann fór að búa sjálfur ásamt konu sinni Lísu C. Harðardóttur sem einnig er uppalinn Hafnfirðingur. „Þannig að ég var ekkert að sækja vatnið yfir lækinn,“ segir Sigurður og brosir við. Þau kynntust í skátunum þar sem þau störfuðu bæði í hjálparsveitinni. Hann byggði svo hús með aðstoð bróður síns, Hreiðars, fyrir tuttugu árum að Stuðlabergi 14 og hefur búið þar síðan. Sigurður og Lísa eiga þrjú börn og fjögur barnabörn og eitt er á leiðinni. „Alsæla,“ eins og Sigurður kemst að orði.

Kominn heim

Sigurður Sigurjónsson í garðinum

Sigurður Sigurjónsson í garðinum heima í Stuðlaberginu

Sigurður er aftur kominn til starfa í Þjóðleikhúsinu eftir nokkurra ára hlé. „Ég var búinn að vera svona „Freelance“ eins og sagt er í nokkur ár. Ég er búinn að vinna mikið í Spaugstofunni og hinum ýmsu kvikmyndaverkefnum og öðru. Nú er ég í raun kominn heim aftur því ég hóf ferilinn í Þjóðleikhúsinu.“

40 ára ferill

Um þessar mundir á Sigurður 40 ára leikafmæli. Hann útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands árið 1976. „Þá labbaði ég yfir Lindargötuna og yfir í Þjóðleikhúsið og þá byrjaði ballið.

Fyrsta hlutverkið man ég eins og það gerst hefði í gær en þá lék ég bakaradrenginn í Dýrunum í Hálsaskógi. Eftir það var ég bara fastráðinn í Þjóðleikhúsinu næstu tuttugu ár.“ Fyrsta kvikmyndahlutverk Sigurðar var svo í hinni merkilegu mynd Landi og sonum sem kom út árið 1980 eða 1981. „Hún er ein af þeim myndum sem kenndar hafa verið við íslenska kvikmyndavorið, það var algjör sprengja þá náttúrlega. Hálf þjóðin fór í bíó og sá Land og syni. Og ég var bara grænn Hafnfirðingur að leika í þeirri mynd.“

Eru einhver hlutverk þér minnisstæðari en önnur?

„Mér er bakaradrengurinn í Dýrunum í Hálsaskógi mjög minnisstæður vegna þess að þetta var náttúrlega fyrsta hlutverkið mitt og markaði kannski spor í minn feril, kom mér svolítið á brautina. Og svo er það þetta kvikmyndahlutverk í Landi og sonum sem er stór varða á minni leið og núna síðast þegar ég lék í myndinni Hrútar sem var mikið ævintýri. En það hlutverk situr í mér, mér þykir vænt um að eiga það í spjaldskránni“.

Útrás handan við hornið?

Kvikmyndin Hrútar hefur að undanförnu vakið gífurlega athygli um allan heim og einnig myndbandið sem Sigurður lék í fyrir hljómsveitina Of Monsters and Men. Hann segir að beint og óbeint hafi þessi athygli haft áhrif á feril hans. „Ég nýt þess að Hrútar hafi farið mjög víða og þetta umrædda myndband sem fékk um fjórtán milljón áhorf. Það er ansi stór hópur. Þá er auðvitað eftir manni tekið. En ég er ekkert að fara í neina útrás, ég er voðalega vel settur hér á Íslandi. Ég hef vissulega fengið alls kyns fyrirspurnir en það hefur ekki orðið að neinu. Það stendur svolítið á mér einhvern veginn, ég dreg lappirnar í þeim efnum. Þetta á ekki sérlega vel við mig. En hvað svo verður í framtíðinni veit maður aldrei,“ segir Sigurður hógvær að vanda.

Maður sem heitir Ove

Nýjasta hlutverk Sigurðar er einleikurinn „Maður sem heitir Ove“ eftir samnefndri bók. „ Ég las hana á sínum tíma og heillaðist strax af henni. Þá vissi ég nú ekki að það stæði til að gera einleik upp úr þessu. Við settum þetta svo upp, ég og Bjarni Haukur (Þórsson, leikstjóri) vinur minn en við höfum unnið mikið saman. Og nú er ég bara að leika þetta 3-4 kvöld vikunnar. Það er alveg þokkalegur pakki.“

Sigurður segir mikinn Ove í sér. „Ég held að það sé að vissu leyti ástæðan fyrir því hversu vinsæll hann er og hvað hann snertir við mörgum að margir sjá sjálfan sig í Ove. Hvort sem þeim líkar það nú betur eða verr,“ segir Sigurður og brosir við.

En hvernig nálgast maður persónu eins og Ove? „Ég reyni auðvitað að vera mjög einlægur, ég held með Ove. Hann er auðvitað gallagripur, rúðustrikaður maður, óalandi og óferjandi á köflum. En þeir sem þekkja söguna vita nú að það leynist nú ýmislegt á bak við. Þetta er ekki eins svarthvítt og það virðist í fyrstu.“

Einleikur öðruvísi

Sigurður segir einleikinn óneitanlega frekar einmanalegt starf en þó fyrst og fremst bara fyrir og eftir sýningu. „Því maður er svolítið einn í undirbúningnum fyrir sýningu og eins hefur maður engan til að spegla sig í eftir sýninguna. Maður þarf svolítið að búa til samtalið við sjálfan sig: „Já, það gekk nú vel í kvöld.“ Hins vegar verð ég ekki einmana þegar ég kem inn á svið því þá mæta mér áhorfendur og við eigum góða stund saman í áttatíu mínútur.“

Leiklistin og ferðamannaiðnaðurinn

Í vor leikstýrði Sigurður eins konar túristasýningu eins og hann orðar það sjálfur í Hörpu . Hún heitir „How to become Icelandic in 60 minutes“ eftir Bjarna Hauk Þórsson en þar leikstýrir hann vinum sínum úr Spaugstofunni, Karli Ágústi Úlfssyni og Erni Árnasyni. „Við gerðum líka svona sýningu úti í Svíþjóð, „How to be Swedish in 60 minutes“ þar sem hann (Bjarni) lék sjálfur.“

Þeir Bjarni Haukur störfuðu fyrst saman fyrir um tuttugu árum þegar Sigurður leikstýrði Bjarna í Hellisbúanum sem var gríðarlega vinsæl sýning og gekk í nokkur leikár. „Síðan tók hann upp á því að skrifa einleiki fyrir sjálfan sig og ég kom að því öllu í rauninni og ég hef leikstýrt flestu sem hann hefur gert.“

„Sýningin okkar núna er í raun stíluð beint inn á túristana og staðsetningin gæti ekki verið betri en einmitt í Hörpunni þar sem flestir ferðamenn, sem hingað koma, reka inn nefið þar. Þetta er sannarlega nýr markaður fyrir leiklistina hér heima. En það mætti gera miklu meira og það mun verða. Og ekki bara túristasýningar heldur bara almennar. Hinn almenni ferðamaður vill njóta menningar, hann fer á tónleika, í bíó og á jazzbúllur og svo framvegis. Við verðum að horfast í augu við það að það eru um milljón túristar hér á ári og þetta er náttúrlega svakaleg viðbót í markhópinn okkar. Leiklistin mun nýta sér þetta klárlega því við getum boðið upp á ýmislegt. Vonandi þróast þetta bara í einhverja skynsamlega átt. Túristinn vill ekki bara afþreyingu, hann vill líka fræðast um menningu og sögu.“

Leikarar þurfa að gera ýmislegt

Sigurður hefur leikið ótal mörg hlutverk í gegnum tíðina og hefur þurft að gera ýmsa hluti sem venjulegur fjölskyldufaðir myndi eflaust ekki láta bjóða sér en hann lætur það nú ekki á sig fá. „Það var nú sagt í Þjóðleikhúsinu hér á árum áður að leikari gæti bara neitað af tveimur ástæðum, – ef það stríddi gegn stjórnmála- eða trúarskoðunum hans. Það hefur nú aldrei reynt á það á mínum ferli. Ég hef aldrei skorast undan neinu. Ég hef reyndar þurft að gera hluti sem ég réð ekkert við, það er allt annað mál. Ég hef aldrei þurft að pína mig í einhverja hluti sem mér er þvert um geð að gera. Maður verður bara að sætta sig við það þegar maður er leikari og að vera tilbúinn að gera ýmislegt, annars er maður bara ekki alvöruleikari. Maður þarf að snúa upp á sjálfan sig, það verður engin þróun í leikaranum ef hann fer alltaf sömu leið sem hann þekkir. Það verður að fara út fyrir veginn. Það er ekkert gaman að þessu öðruvísi.“

Spaugstofan

Það er nú ekki hægt að ræða við Sigurð án þess að ræða um Spaugstofuna sem hefur verið stór hluti af ferli hans í um þrjátíu ár.

„Ja, það er hægt að segja að við séum í fríi frá sjónvarpi í bili að minnsta kosti enda var þetta orðinn dágóður tími.“ Hann segir vissulega mikinn söknuð að Spaugstofuþáttunum fyrir þá félaga. „Það er svo mikið að gerast í samfélaginu að okkur finnst frekar leiðinlegt að geta ekki verið að fikta í því. En við njótum þess að gera það í sýningunni, þær eru aldrei eins, við bætum við atriðum á hverjum degi í hverri einustu sýningu.“

Þeir félagar tóku nefnilega upp þráðinn „því að við erum svo brjálaðir“ eins og Sigurður orðar það og settu upp Spaugstofusýningu síðastliðinn vetur í Þjóðleikhúsinu. „Það gekk svo rosalega vel í fyrra, okkur fannst svo ofboðslega gaman og við heyrðum ekki betur en fólki þætti líka svo ofboðslega gaman að við ætlum að hefja aftur leik nú í lok október. Það erum við fimm gömlu karlarnir og höfum aldrei verið hressari.“

Einstakt samband

Spaugstofumenn hafa unnið saman í um þrjátíu ár og því er ekki úr vegi að spyrja hvernig þeim hafi tekist að láta samstarfið ganga svona lengi. „Okkur líður svo vel saman að við viljum endilega halda þessu áfram,“ segir hann og bætir við að ástæðan fyrir því að þeir hafi hangið svona lengi saman sé sú að utan vinnu séu þeir allir mjög góðir vinir og að aldrei hafi slest upp á vinskapinn. „Það má segja að það sé svolítið einstakt samband og það mun bara held ég ekkert breytast úr þessu fyrst við erum búnir að lafa þetta lengi saman. Við höfum mikið samband og erum svona eins og gott rauðvín sem verður bara betra.“

Alæta á Ísland

Á milli þess sem Sigurður er í sínum verkefnum í leikhúsinu eða á skjánum segist hann

lifa venjulegu fjölskyldulífi í Hafnarfirði. „Ég á hund sem dregur mig í göngur og þar fæ ég mína reglubundnu hreyfingu á hverjum degi. Svo rölti ég stundum golf og fer að veiða og er annars bara hér í Hafnarfirði með barnabörnunum þegar ég er ekki að leika Ove.“

Sigurður segir þó aðaláhugamál þeirra hjóna og fjölskyldunnar vera að ferðast um landið. „Þar sem við erum nú bæði gamlir skátar og vorum í hjálparsveitinni og ferðuðumst í óbyggðaferðir upp á jökla og allt þar á milli vöndumst við á og urðum alveg háð því að ferðast um landið okkar. Þetta er því það sem við gerum mest á sumrin þegar við mögulega getum. Áður fyrr var það upp á gamla mátann með tjaldið, núna er það fellihýsið og ætli við endum ekki í húsbíl einhvern tíma,“ segir Sigurður kíminn. „Það er endalaust hægt að ferðast um Ísland og það eru okkar bestu stundir.“ Aðspurður hvort að hann eigi sér einhvern uppáhaldsstað segir hann að það sé í raun allt landið og miðin: „Við erum alætur á Ísland.“

Þegar leikmyndin hrynur

Sigurður segist ekki leggja einstaka sögur úr bransanum á minnið en segir að menn lendi í ótrúlegustu uppákomum á sviði. „Það getur allt gerst og það gerist allt. Rafmagnið fer einn góðan veðurdag, maður gleymir texta sömuleiðis, maður dettur og maður meiðir sig og það fer allt úrskeiðis einn góðan veðurdag, leikmyndin hrynur. Þannig að það er af endalausu að taka á svona langri ævi en það er engin ákveðin saga sem ég hef á takteinum. Ég þarf bara koma mér henni upp.“

Draumahlutverk?

„Ég er nú svo heppinn að vera búinn að fá mörg ólík draumahlutverk í gegnum tíðina og þau hafa reynt mismunandi á mig. En í dag er mitt draumahlutverk það hlutverk sem ég er að leika þessa stundina. Það eru algjör forréttindi að fá að fara í kvöld að leika Ove. Ef þið bara vissuð hvað það er gaman,“ segir hinn geðþekki leikari að lokum og fer að undirbúa sig fyrir draumahlutverk kvöldsins, Ove.

Hraðaspurningar

Skegg eða skegglaus?
Skegg.

FH eða HAUKAR?
Haukar.

Hvernig á ísinn að vera?
Heimagerður vanilluís.

Kaffið?
Svart eins og Ove.

Leikstýra eða leika?
Bæði.

Gaman eða drama?
Geri ekki upp á milli, vonandi bara góður leikari.

Bíó eða leikhús?
Leikhús.

Hundar eða kettir?
Hundar.

Uppáhaldsstaður í Hafnarfirði?
Þeir eru nú svo margir en ég segi Stuðlaberg 14.

Laugin?
Suðurbæjarlaug.

Uppáhalds teiknimyndapersóna sem þú hefur léð rödd þína?
Svampur Sveinsson.

Sunnudagsmaturinn?
Hryggur.

Kristján Ólafsson eða Ragnar Reykás?
Báðir vitleysingar.

Hafnfirðingabrandari?
Opnist hér… Um Hafnfirðinginn sem opnaði mjólkina í búðinni því á fernunni stóð „Opnist hér“.