paint_iceland1Fyrir skömmu tók afþreyingarfyrirtækið Paint Iceland á móti fyrstu viðskiptavinum sínum í húsnæði að Flatahrauni 5 hér í Hafnarfirði. Fyrirtækið býður upp á nýja tegund afþreyingar sem ekki hefur verið í boði hér á landi fram til þessa. Ætti hún að geta vakið áhuga, bæði hjá heimamönnum og þeim ferðamönnum sem leggja leið sína til landsins.

Paint Iceland býður upp á svokölluð málunarkvöld þar sem einstaklingar og hópar geta mætt til leiks. Á þessum kvöldum leiðbeina myndlistarkennarar gestum í gegnum gerð málverks allt frá fyrstu pensilstroku og þar til að verkið stendur fullklárað eftir. Hver og einn þátttakandi vinnur sína útgáfu af fyrirfram ákveðinni fyrirmynd og fræðist m.a. um litanotkun og litablöndun. Í lok kvölds fara gestir heim með fullkláraða myndina. Ekki eru selda veitingar eða drykkir á staðnum en gestir geta komið með veitingar og létta drykki með sér.

paint_icelandVinsælt hjá hópum

Kvöldin henta öllum sem hafa áhuga á að mála, hvort sem fólk hefur haldið á pensli áður eða ekki. Þannig sýnir reynslan að fólk kemur sjálfu sér oftast mjög á óvart þegar það hefst handa við að móta myndina. Nú þegar er komin nokkur reynsla á þessa afþreyingu að sögn þeirra sem standa að fyrirtækinu. Hafa smærri og stærri hópar málað fjölda fallegra mynda sem þátttakendur geta verið stoltir af og hægt er að  sjá nokkur dæmi um afraksturinn á heimasíðu fyrirtækisins painticeland.is og einnig facebook-síðu þess. Einkunarorð Paint Iceland eru „Sköpum og skálum“ og vísa þau til þess markmiðs fyrirtækisins að gera fólki kleift að skapa, skála og skemmta sér. Hefur það til dæmis komið skemmtilega út þegar starfsmannafélög og fyrirtækjahópar hafa tekið kvöldið frá hjá Paint Iceland og þannig nýtt hugmyndafræðina til að hrista hópinn vel saman en hægt er að taka á móti allt að 30 manns í hvert sinn. Hefst þá kvöldið jafnvel á góðum kvöldverði á veitingahúsi en þá eru einnig dæmi um að hópar hafi slegið upp Pálínuboði og gæðir hópurinn sér þá á veitingum inn á milli.