Ég yfirgaf Hafnarfjörð ekki oft sjálfviljugur. En ein var þó undantekningin, hún var sú að komast í sveit.
Ég fékk þeirrar gæfu að njóta að kynnast eyjalífinu á Breiðafirði þau sumur sem ég mátti teljast táningur. Ég var í sveit hjá miklum heiðursmanni, Jóhannesi G. Gíslasyni í Skáleyjum. Þetta eru merkiseyjar og má finna sögu af nafngift þeirra í Jómsvíkingasögu.

Þar fékk malbiksbarnið að kljást við fullorðinshluti eins og traktora og þeirra fylgihluti. Kýrnar á bænum voru einungis til heimilisins og þar lærði ég að handmjólka. Heyvögnunum fylgdi sér skóli því á þá þurfti að hlaða eftir ákveðnum reglum og þá stóð hlassið líka hálfri til heilli mannshæð ofar húsinu á traktornum. Heyið var laust og hafður var sá hátturinn á að heyinu var sturtað fremst í hlöðuna, þar stóðum við svo með kvíslar og köstuðum því inn eftir hlöðunni. Þetta var nytjabú enda langt að sækja allan kost og því reynt að nota allt sem fannst í nærumhverfinu. Einn veturinn fékk bóndinn þá hugmynd að nýta þara sem áburð á tún. Gamli útikamarinn var fylltur af grænu góðgætinu og fékk þar að rotna fram á sumar. Svo var hafnfirðingurinn settur í að koma þessu á túnið. Dreifingin gekk svona líka ljómandi vel fyrstu fimmtán sekúndurnar en svo kakkstíflaðist haugsugan. Ég reyndi að setja hana á sog en allt fyrir ekki. Ég náði mér þá í boldungs kúbein en þegar ég kom aftur að sugunni þá var ég búinn að hræra svo mikið í sveifinni að ég mundi ekki hvað var sog og hvað var blástur…þannig að ég giskaði. Og ég giskaði rangt því þegar ég rak kúbeinið inn í opið kvað við ægilegur hvellur og ég fékk hálfrotna þörunga uppí mig, uppí nefið, inná skyrtuna og ofan í stígvélin. Eins og marbendill staulaðist ég heim í hús og gerði nokkuð sem ég var ekki vanur…ég fór í sturtu.