Markaðsstofa Hafnarfjarðar (MsH) er sjálfseignarstofnun, rekin af fyrirtækjunum í bænum sem greiða árgjald og með framlagi frá Hafnarfjarðarbæ. MsH var stofnuð í október 2015 og er stjórn hennar kjörin á árlegum aðalfundi og hana skipa fjórir fulltrúar frá aðildarfyrirtækjum og þrír frá Hafnarfjarðarbæ. Í dag eru aðildarfyrirtæki stofunnar 85 og þeim fjölgar hratt. Framkvæmdastjóri og jafnframt eini starfsmaðurinn er Ása Sigríður Þórisdóttir, en hún hóf störf í mars 2016. Fjarðarpósturinn ræddi við Ásu um MsH og hlutverk stofunnar.

Frá samkomu á vegum MsH í haust.

Frá stofnun MsH hefur verið lögð áhersla á að gera Hafnarfjörð að öflugum valkosti fyrir fólk og fyrirtæki til búsetu, atvinnu og afþreyingar. Efla atvinnuþróun og starfa að ferða- og markaðsmálum í nánu samstarfi við atvinnulíf, sveitarfélag og aðra þá sem vilja stuðla að uppbyggingu í bænum. Hlutverk stofunnar er því afar margþætt en segja má að eitt að höfuðmarkmiðunum sé að koma á öflugu tengslaneti og samstarfi milli fyrirtækjanna í bænum.

 

Mörg verkefni fyrir einn starfsmann

„Já vissulega er í mörg horn að líta (segir Ása og brosir) en einn er betri en ekki neinn er það ekki? Eitt af verkefnunum okkar snýr að því að efla fólk til þátttöku í víðu samhengi. Samstarf milli fyrirtækja getur opnað á nýja og spennandi hluti og útvíkkun á starfseminni. Við höfum nýmörg dæmi þess að fyrirtækin sem mæta á Fyrirtækjahittinga og Fyrirtækjaheimsóknir Markaðsstofunnar hittast þar í fyrsta sinn og hafa jafnvel ekki vitað af starfsemi hvors annars.“

Hvernig sérðu fyrir þér að virkja íbúa Hafnarfjarðar? „Sem íbúar í bænum þá getum við lagt heilmikið af mörkum. Við Hafnfirðingar förum alveg að detta í 30 þúsund og ef við hugsum aðeins hvaða áhrif það hefði ef við t.d. deildum nú öll þeim viðburðum sem eru í bænum á samfélagsmiðlum og byðum vinum okkar á viðburðina, hugsaðu þér hversu mikla dreifingu það fengi! Bæjarbúar eru í raun allir sendiherrar bæjarins og við hafa það í sér að tala bæinn upp eða niður. Ég segi að Hafnarfjörður hefur upp á allt að bjóða; tækifærin eru óþrjótandi. Við tökum höndum saman og gerum hann betri en hann var í gær.“

Frá fyrirtækjahittingi. Þá er glatt á hjalla. 

Þjónusta innan 10 km radíuss

Ása segir að það það sé búið að vera gaman að fylgjast með hvernig Hafnarfjörður hefur þróast og vaxið undanfarin ár. „Við höfum séð fjölmörg ný fyrirtæki, verslanir, veitinga- og kaffihús opna. Þetta er ekki sjálfgefið og við getum ekki tekið því sem sjálfsögðum hlut. Við þurfum að leggja okkar af mörkum til að verslun og þjónusta blómstri og dafni í bænum. Oft ræðum við um stressið og lætin í samfélaginu. Það að geta í raun nálgast flest allt sem við þurfum innan 10 km radíuss eru forréttindi og veitir okkur meiri tíma í annað. Höfum þetta hugfast,  leitum ekki langt yfir skammt, styrkjum fyrirtækin og byggjum upp sterkt bæjarfélag saman.“

 

Ávinningur af aðild

Ávinningur af aðild að MsH er fjölbreyttur, s.s. margvísleg aðstoð varðandi starfsemi fyrirtækja, tengingar við önnur fyrirtæki, aðildarfyrirtækin geta sett mál á dagskrá sem þau vilja láta vinna að eða skoða, fá ókeypis á Fyrirtækjahittinga þar sem boðið er upp á fjölbreytta fræðslu sem gagnast í rekstri fyrirtækja og er boðið í Fyrirtækjaheimsóknir til annarra fyrirtækja í bænum. „Aðildarfyrirtækin geta einnig sótt aðstoð og ráðgjöf í samskiptum við bæjaryfirvöld. Einnig eru fyrirtækin sýnileg á msh.is og samskiptamiðlum stofunnar og geta birt ýmis tilboð til viðskiptavina á markaðsstorgi MsH auk þess sem rafrænt fréttabréf er sent út einu sinni í mánuði,“ segir Ása.

 

Hverfafélög fyrirtækja
MsH setti á stofn fjögur Hverfafélög fyrirtækja á Hraunum, Völlum, hafnarsvæði og Holti og í miðbæ. „Hverfafélögunum er ætlað að skapa samráðsvettvang og vinna að sameiginlegum hagsmunum viðkomandi hverfis og kortleggja hvaða mál þarf að fara í á hverjum stað, gera verkefnalista og aðgerðaráætlun. Hvert hverfafélag er með Facebooksíðu.“

 

Hvatningarverðlaunin afhent í lok janúar

Í fyrra voru Hvatningarverðlaun MsH veitt í fyrsta sinn Íshúsi Hafnarfjarðar en auk þess fengu viðukenningu Annríki – þjóðbúningar og skart og VON mathús & bar. Hvatningarverðlaunin eru veitt fyrirtæki, einstaklingi eða félagi sem lyft hefur bæjaranda Hafnarfjarðar með starfsemi sinni og athöfnum og eru verðlaunin þakklætisvottur Markaðsstofunnar fyrir óeigingjarnt starf við að gera Hafnarfjörð að betra samfélagi. Það eru aðildarfyrirtækin sem tilnefna og stjórn MsH vinnur úr tilnefningunum. Verðlaunin verða veitt síðar í þessum mánuði. „Verðlaun sem þessi eru gríðarlega mikilvæg því það er svo mikilvægt að við sýnum að við tökum eftir og metum það sem vel er gert í bænum,” segir Ása.

Viðburðadagatal fyrir allan bæinn

„Við erum miðstöð og hér fer fram ákveðin upplýsingaöflun og við erum meðvituð um hvað er í boði í bænum. Það er þó alltaf bundið því að fyrirtæki og einstaklingar séu duglegir að láta okkur vita svo við getum sett inn á viðburðadagatal og vakið athygli á,“ segir Ása. Til þess að efla Hafnarfjörð og sýna alla þá möguleika sem bærinn hefur upp á að bjóða segir Ása að það þurfi vitundarvakningu. „Við þróum mátt bæjarins saman og máttur allra skiptir máli. Þetta erum við, ekki við og hinir,“ segir Ása.

 

Mynd af Ásu: Olga Björt. Aðrar myndir frá Msh.