Margrét Gauja Magnúsdóttir bæjarfulltrúi og móðir hennar Sigríður Kolbrún Oddsdóttir hafa safnað jólahúsum um árabil og hafa bætt við húsi á hverju ári síðan 1998 með nokkrum undantekningum þó. Margrét á 13 hús og Sigríður 20 hús.

Það örlar á samkeppni á milli þeirra þó að þær viðurkenni það nú ekki mæðgurnar. „Mamma er flugfreyja þannig að hún átti alltaf auðveldara með að ná sér í hús. Svo er hún búin að svindla tvisvar þess vegna á hún tuttugu hús á þessum átján árum“, segir Margrét greinilega full öfundar.

Þær hafa keypt húsin frá Department 56 en þar hægt að velja um alls konar þorp og fígúrur. „Ég elska jólasöguna Christmas Carol um Ebenezer Scrooge, horfi alltaf á hana um jólin en þorpið mitt er í þeim anda. Mig vantar reyndar meira fólk og aukahluti, það kannski eitthvað sem ég þarf að fara að safna.

Mamma er með jólasveinalandið „North Pole“ hans sveinka.“ Hún er svolítið „crazy“ í þessu.“ Aðspurð segir hún þetta verða hálfgerða söfnunaráráttu að maður vilji alltaf meira og meira í safnið. „Þegar mamma og pabbi urðu sextug vorum við fjölskyldan öll saman á Kúbu yfir jólin og þá gerðum t.d. við samning um að við keyptum ekki hús það árið, þar sem þau yrðu hvort eð er ekki sett upp.“

Margrét hefur búið s.l. tvö ár austur á Höfn í Hornafirði og er nýflutt aftur í Hafnarfjörð. „Ég setti húsin mín ekki upp á meðan ég var fyrir austan. Fannst þau ekki passa þar. Nú er ég svo ánægð að vera komin aftur heim í Bjarnabæ, þar sem húsin mín eiga heima. Þau eru eina jólaskrautið sem ég set upp. Þegar við mamma erum búnar að koma húsunum okkar fyrir þá mega jólin koma.“