Eyrún Ósk Jónsdóttir hefur skrifað sögur frá því hún lærði að skrifa. Strax sex ára var hún farin að skrifa sögur og myndskreyta fyrir mömmu sína. Á dögunum hlaut Eyrún bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina sína, Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa.

„Ég lít á mig sem skapandi einstakling með óstjórnlega þörf til að skapa og tjá mig. Stundum geri ég það í gegnum ljóð, stundum með greinaskrifum, öðrum stundum gegnum leiklistina og stundum hreinlega með statusum á facebook eða fyrirlestrum. Fyrir mér er þetta ekki bara starf eða áhugamál. Ég fúnkera ekki öðruvísi en ég sé að skapa eitthvað. Mér líður hreinlega illa, eins og ég sé að kafna, ef ég er ekki að vinna að einhverri sköpun. Þegar ég var átta ára byrjaði ég svo að semja ljóð og ég hef í raun alltaf verið að skrifa eitthvað. Ég hef það fyrir reglu að skrifa eitthvað á hverjum degi.“

Foreldrar Eyrúnar eru aldir upp í Hafnarfirði, mamma hennar á Selvogsgötunni og pabbi á Álfaskeiðinu. Hún ólst upp að hluta til í Sæbólshverfinu í Kópavogi en flutti svo aftur í Fjörðinn á Hringbraut þegar hún var þrettán ára. Fór í Flensborgarskólann og síðan til Englands og tók BA í leiklist í Rose Bruford leiklistarháskólanum og MA í fjölmiðlun og þróunarfræðum frá Winchester University. Hún starfaði í átta ár í Flensborg sem leiklistarkennari og hefur unnið í fimm ár á þjónustukjarna fyrir fatlaða. Auk þess er hún varabæjarfulltrúi og mamma fjögurra ára drengs.

Fjörugt ímyndunarafl

„Ég var með mjög fjörugt ímyndunarafl sem barn og það olli mér oft miklum óþægindum. Ég man einu sinni þegar ég var svona 6 ára að við fórum fjölskyldan að Geysi. Með í för var systir mömmu og börnin hennar. Það var kalt í veðri og þegar við komum að Geysi lágu túristar á jörðinni í kringum hverina og voru að hlýja sér á heitri jörðinni. Mér fannst þetta eitthvað skrýtið og spyr mömmu hvað þeir séu að gera. Frænka mín svarar í gríni að það sé verið að steikja þá fyrir hótelið og það eigi að hafa þá í matinn í kvöld og allir fóru að hlæja, nema ég trúði henni og fékk bara nett taugaáfall og grét og öskraði. Það var alveg sama hvað mamma reyndi að hugga mig og útskýra að hún hefði verið að grínast, ég var gjörsamlega óhuggandi yfir þessari tilhugsun í marga daga á eftir.

Þetta var bara eitt skipti af mörgum sem eitthvað svona sem ég heyrði út undan mér fór alveg með mig. Einhvern tímann, þegar ég var svona 8 ára, þá heyrði ég í fyrsta sinn af því að fólk gæti fengið hjartaáfall. Og í heilt ár á eftir gekk ég um með krosslagðar hendur því ég þorði ekki að taka höndina af hjartanu því ég var alltaf að hlusta eftir hvort það væri enn að slá. Og nokkrum sinnum fann ég ekki hjartsláttinn og þá varð ég mjög hrædd en tilbúin að gefa sjálfri mér hjartahnoð ef þess þyrfti.“

Þörf fyrir að skapa

„Ég hef alltaf haft þörf fyrir að skapa eitthvað og hef bæði leikið og leikstýrt, gert collage-myndir og svo skrifað. Ég hef einnig mjög gaman af því að leika og leikstýra en undanfarið hef ég meira verið að skrifa. En leiklistin kallar líka alltaf annað slagið á mig og á þessu ári hef ég leikið smá í svona minni verkefnum eins og í uppsprettunni í Tjarnarbíóí, gjörningnum í Borgarleikhúsinu og fleira í þeim dúr.

Ég gaf út fyrstu ljóðabókina mína þegar ég var sextán ára og aðra ljóðabók strax tveimur árum seinna. Eftir að ég hóf nám í leiklist skrifaði ég aðallega leikrit í mörg ár en svo komu þrjár skáldsögur í röð.“

Lygar fullorðna fólksins kveikjan að bókinni

Eyrún hlaut á dögunum bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina sína, Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa. Hún lýsir kveikjunni að bókinni á þennan hátt: „Það var einhvern tímann í vetur að ég var að fylgjast með syni mínum snúa sér í hringi og einhver eldgömul minning vaknaði og ég ætlaði að fara að stoppa hann. Þegar ég var lítil heyrði ég svo oft að maður mætti ekki snúa sér í hringi því þá fengi maður garnaflækju. Ég hafði aldrei hugsað um þetta sem fullorðin og því lá þetta bara í dvala og minningunni skaut upp og orðin voru komin fram á varirnar þegar ég áttaði mig á að ég var að fara að bergmála einhverja lygi sem fullorðnir höfðu sagt við mig sem barn. Ég fór í kjölfarið að velta fyrir mér lygum sem fullorðnir segja við börn, sem og ýmsum hlutum sem ég hafði misskilið sem barn og svo aldrei hugsað um aftur sem fullorðin. Ja, fyrr en nú.“

Verðlaunin hvatning

„Þetta hefur mjög mikla þýðingu fyrir mig. Þetta er bæði mikil hvatning fyrir mig persónulega og svo hefur bókin fengið gríðarlega kynningu sem ég er mjög þakklát fyrir,“ segir Eyrún að lokum og bætir við að hún eigi nú þegar tvö til þrjú handrit í tölvunni sinni sem bíða útgáfu.

Hraðaspurningar

Sunnudagsmaturinn?

Grænmetisbuff með brúnuðum kartöflum, rauðkáli og sveppasósu.

FH eða Haukar?

FH

Uppáhaldsstaður í Hafnarfirði?

Gönguleiðin í kringum Stórhöfða.

Hundar eða kettir?

Hundar.

Uppáhaldslitur?

Fjólublár og gulur.

Ísinn þinn?

Kjörís í brauðformi með ristuðum möndlum eða ristuðum hnetum.

Kaffið?

Drekk ekki kaffi, finnst það ógeðslegt á bragðið, en elska heitt súkkulaði, þá madagaskar á Pallettunni með engum rjóma.

Leikhús eða bíó?

Leikhús.

Uppáhaldsskyndibitinn?

Sússí.

Skrítin staðreynd um þig?

Ég er mikil áhugamanneskja um ofurhetjur og átti í alvörunni pínulítið erfitt með það þegar sonur minn var að láta Superman leika við Hulk þar sem þeir eru klárlega ekki til í sama raunveruleika og gætu því aldrei leikið sér saman.

Bíll eða hjól?

Ég á hjól en ekki bíl.

Hvað setur þú á pizzu?

Ananas og sveppi.

Popp með salti eða með karamellu?

Ostapopp.

Hafnarfjarðarbrandari?

Hafið þið heyrt um Hafnfirðinginn sem var svo heimskur að þegar hann flutti í Garðabæ hækkaði greindarvísitalan á báðum stöðum?