Ég heiti Aníta Estíva Harðardóttir og ég er þrítug tveggja barna móðir, eiginkona og blaðamaður. Báðir foreldrar mínir, sem og ömmur og afar eru héðan úr Hafnarfirðinum og vil ég hvergi annarstaðar búa, enda besti bærinn!

Ég ólst upp á Hraunkambi þar sem ég bjó í rúmlega tíu ár. Síðan ég fór sjálf að búa hef ég nánast alltaf haldið mig í Hafnarfirðinum og eigum við fjölskyldan nú íbúð á Eyrarholtinu þar sem útsýnið leyfir okkur að fylgjast með öllu lífinu í bænum.

Ég starfa sem blaðamaður hjá DV ásamt því að blogga með vinkonum mínum hjá Fagurkerunum. Það mætti því segja að mitt helsta áhugamál sé fólk og fjölmiðlun. Einnig finnst mér virkilega gaman að baka, skipuleggja viðburði, ferðast um heiminn og að sjálfsögðu eyða tíma með fjölskyldunni minni og vinum. Ég elska líka að fá mér tattoo og hef meðal annars fengið mér tvö í beinni útsendingu á snappinu. Jú og svo elska ég líka gott partý (gera það samt ekki allir?)

Ég ákvað að opna snappið mitt í kjölfarið af því að ég skrifaði færslu um Endómetríósu sem ég hef glímt við frá unglingsárum og gerði það að verkum að ég átti erfitt með að verða ólétt. Þegar sú færsla kom út fóru mér að berast ótrúlega mörg skilaboð og vildi fólk fá að forvitnast meira um þennan sjúkdóm. Eftir það fór boltinn að rúlla og Snapchat heimurinn varð stór hluti af lífi mínu.

Ég er rosalega opin og læt nokkurnvegin allt vaða sem vellur upp úr mér inn á snappinu mínu, sem er nokkuð ólíkt starfinu mínu þar sem maður þarf að ritskoða allt. En það er líka eitt af því sem er skemmtilegt við snappið, maður getur látið eins og vitleysingur og allir verða búnir að gleyma því 24 klukkutímum síðar (eða vonandi).

Mig langar til þess að skora á hana Erlu Kolbrúnu vinkonu mína að kynna sig næst. (erlak85)