Tónlistarhátíðin Hjarta Hafnarfjarðar fór fram um þarsíðustu helgi fyrir fullu Bæjarbíó. Það hefur margsýnt sig að Hafnfirðingar kunna að meta tónlistarviðburði og hafa meira að segja búið til sína einstöku eigin Heimahátíð. Og hún er einnig afar vel sótt.

Margt þekkt tónlistafólk og annað listafólk býr í bænum okkar. Leikarar, hljóðmenn, rótarar, umboðsmenn, rithöfundar, hönnuðir og fleira skapandi fólk. Mörg þeirra hafa flutt hingað á undanförnum árum. Það er vinsælt að búa í Hafnarfirði.

Við vitum alveg að það er enginn bær án menningar og menninguna sköpum við í sameiningu. Auðvitað væri gaman ef hér væri hægt að fjárfesta smám saman í einhverju svipuðu og Rokksafnið er í Reykjanesbæ. Það þarf ekki að vera jafn stórt í sniðum. Bara staður þar sem hægt væri að búa til safn utan um hafnfirska listamenn sem hafa sett svip sinn á söguna og um leið aukið hróður Hafnarfjarðar.

Eins og Björgvin Halldórsson sagði í viðtali í síðasta tölublaði þá er hann „safnari dauðans“ og „bara“ 36 af 45 gíturum hans fóru á sýninguna Þó líði ár og öld í Hljómahöll. Fyrir utan allt annað sem hann hefur safnað í tímans rás. Hvaða listar- og menningarverðmæti gætu leynst uppi á háalofti hjá öðru tónlistafólki héðan?

Listafólk er harðduglegt og þarf að hafa mikið fyrir því að koma sér og sínu efni á framfæri og skapa sér tekjur. Tímakaupið er oft æri lítið þegar uppi er staðið. Þetta er m.a. fólkið sem mætir á styrktarviðburði hvað eftir annað og gefur vinnu sína. Það verður að hafa stöðugt og virkt ímyndunarafl til að búa til viðburði, efni og hluti fyrir okkur. Og þau þurfa að hafa tengslanet, sjarma, útgeislun, hæfileika, vera hugmyndaríkir frumkvöðlar og geta lesið í tíðarandann hverju sinni. Og skapað menninguna með hjálp okkar sem njótum.

Áfram listafólk!