Ragnheiður Thorarensen og Unnur Thorarensen Skúladætur eru nemendur í Víðistaðaskóla og búa ásamt móður sinni, Dagnýju Huldu Erlendsdóttur, föðurnum Skúla Thorarensen Theódórssyni og tveimur bræðrum við Kirkjuveg. Systurnar eru eineggja tvíbuar, fæddar 15. desember 2009, og eru því alveg að verða 8 ára. Þær voru svo líkar nýfæddar að foreldrarnir tússuðu A og B undir iljarnar til að greina þær að.

„Hún er með síðara hár en ég! Og kannski öðruvísi augu. Amma þekkir alltaf muninn á augunum og eyrunum,“ segir Ragnheiður þegar systurnar eru spurðar um hver helsti munurinn á þeim sé. „Þegar það er verið að tala við mig í frímó og sagt Unnur þá segi ég bara já.“ Unnur bætir við: „Einu sinni þegar við vorum í frístundaheimilinu vildum við plata kennarann og við skiptum um galla og hann fattaði það ekki fyrr en ég kallaði nafnið hennar Ragnheiðar. Svo þegar við fórum eitt sinn í mötuneytið í skólanum þá fékk Ragnheiður sér fyrst að borða og svo kom ég og þá sagði konan: Nei þú ert búin að fá fullt að borða! Hún hélt að ég hefði komið aftur í röðina.“

Nýfæddar og ilmandi. 

Rugluðust í 5 daga skoðun

Móðirin Dagný Hulda situr við borð með okkur og segir frá því þegar þau foreldrarnir þurftu að grípa aðeins til aðgerða fljótlega eftir fæðingu Ragnheiðar og Unnar til að rugla þeim ekki saman. „Við merktum A og B undir iljarnar á þeim. Þegar við fórum svo með þær í fimm daga skoðun settum við þær í sinn hvorn litinn af fatnaði til að þeim yrði ekki ruglað saman. Þegar við komum á staðinn klæddum við þær úr og settum fötin í eina hrúgu. Þegar læknirinn sagði okkur að koma með tvíbura A, þá vissum við ekki hvor þeirra það var fyrr en þær voru vigtaðar.“ Smám fóru foreldrarnir að greina mun en gátu reitt sig á að önnur dóttirin var 200 grömmum léttari og síðan þá hefur alltaf munað örlítið á þyngd systranna. „Við þurftum að rýna vel í þær til að byrja með. Við tökum alveg eftir að fólk ruglar þeim saman, segir bara tvíburarnir og sjá þær sem eina manneskju.“ Unnur bætir við: „Einu sinni ruglaðist mamma líka á okkur þegar hún sá bara hárið á okkur.“

Ásamt móður sinni, Dagnýju Huldu.

„Erum við samt ennþá tvíburar?“

Á fyrstu árum systranna bjó fjölskyldan um tíma í lítilli íbúð og fengu sérsmíðað tvíburarúm sem aðrir tvíburar höfðu áður átt. „Það fannst systrunum voða notalegt. Þegar það var orðið of lítið þá fengu þær sitt hvort rúmið. Þá spurðu þær: Erum við samt ennþá tvíburar? Svo skriðu þær bara á milli rúma til að komast aftur í notalegheitin,“ segir Dagný Hulda. Ragnheiður og Unnur eru afar sjálfstæðar systur þótt þær séu samtaka og leika sér stundum alveg sáttar í sínu hvoru lagi með vinkonum. „En þegar önnur þeirra veikist og þarf að vera heima þá leiðist hinni og vill helst vera heima líka.“

Unnur og Ragnheiður um eins árs aldurinn. 

Hrósað í bak og fyrir

Unnur og Ragnheiður segja að skemmtilegast við að vera tvíburar sé að vera saman og þurfa ekki að vera einar. Að eiga alltaf bestu vinkonu og rífast bara stundum en aldrei lengi! Þær eru báðar að læra á blokkflautu, æfa fótbolta hjá FH og þeim finnst báðum gaman að teikna.

Einnig eru þær duglegar að ganga saman yfir í Fjörð að skoða sig um eða kaupa litlar gjafir og einnig að fara í Pylsuvagninn og kaupa franskar kartöflur fyrir fjölskylduna. „Fólkið í Pylsuvagninn er alltaf að hrósa okkur og segja hvað við erum með fallegt hár, fallegar húfur og hvað við erum duglegar. Þá segjum við alltaf takk!“ segja systurnar og eru samtaka með það.

 

Nýjar myndir: Olga Björt