Stöllurnar Carolin Guðbjartsdóttir, Marta María Skúladóttir, Oddrún Ólafsdóttir og Þóra Birna Ásgeirsdóttir kalla sig Síkátu Zúmbínurnar. Þær bjóða upp á vinsæl „aqua zumba“ námskeið (danssund) í gömlu Sundhöllinni við Herjólfsgötu. Fjarðarpósturinn kíkti við í fyrsta tíma ársins.

Mikil gleði og kraftur var meðal þátttakenda, sem voru ekki bara konur.

Hópurinn byrjaði á fullu farti 9. janúar og er með tíma kl 19:30 á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum. „Þetta er nokkurs konar sundleikfimi nema það er mikið fjör og skemmtileg tónlist. Þessi hreyfing er mjög góð fyrir fólk með gigt eða er að jafna sig eftir meiðsli. Það kemur þó til okkar fólk á ýmsum aldri og báðum kynjum sem einfaldlega finnst best að hreyfa sig í vatni; og það er sko vel tekið á því,“ segir Þóra Birna, en búið er að auka umferð ofan í laugina um 30 til 40 manns á viku. „Það er biðlisti að komast á námskeið. Við fengum yfir 100 manns í Suðurbæjarlaugina í „pop up“ tíma í sumar. Það er mjög gaman að fá meira líf í þessa flottu og fornfrægu byggingu. Við erum líka að spá í að bjóða upp á “bleikan tíma” í október til styrktar góðu málefni,“ segir Þóra Birna.

Myndir: OBÞ.