Haraldur L. Haraldsson tók við stöðu bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar í ágúst 2014 eftir að hafa um árabil sérhæft sig í greiningu og rekstri fyrirtækja og sveitarfélaga og komið að mörgum slíkum verkefnum. Hann var ráðinn í kjölfar síðustu sveitarstjórnarkosninga og var það forgangsverkefni hans fyrstu tvö árin að fylgja eftir stefnu núverandi meirihluta um að  endurskipuleggja rekstur og fjármál sveitarfélagsins.

Þremur árum eftir að Haraldur tók við er sveitarfélagið farið að skila rekstrarafgangi og náði að fara undir skuldaviðmið íslenskra sveitarfélaga. Þar með losnaði sveitarfélagið einnig undan viðjum Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. „Hjá Hafnarfjarðarbæ starfar gott fólk í umhverfi stöðugra breytinga sem krefst þess að hópurinn sé m.a. vel vakandi fyrir tækninýjungum og möguleikum til bættrar þjónustu. Bærinn fékk nýverið fyrst íslenskra sveitarfélaga jafnlaunavottun og í byrjun árs var heimasíðu sveitarfélagsins veitt sérstök viðurkenning. Áfangasigrar síðustu mánuði hafa verið sætir og ljóst að í mannauði samfélagsins og ekki síður sveitarfélagsins felast mikil verðmæti,“ segir Haraldur.

IMG_8993

Harald á vinstri hönd er Haukur Ingibergsson, formaður Landsambands eldri borgara og hægra megin er Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Myndin er tekin við setningu landsfundar LEB í Hraunseli í maí.

Dægurþras truflar ekki

Haraldur hefur um 18 ára reynslu af bæjar- og sveitarstjórastarfi. Hann vill láta verkin tala og láta dægurþras stjórnmálafólks ekki trufla sig. „Fyrir mér er auðvelt að aðskilja þetta og og ég svara bara spurningum sem ég fæ og leiðrétti ef rangt er farið með. Ákvarðanir eru teknar í bæjarstjórn og ég framfylgi þeim og geri það sem ég þarf að gera.“ Skemmtilegast við starfið segir Haraldur vera mannlegu samskiptin við allt það góða fólk sem starfi hjá hjá bænum og einnig samskipti við bæjarbúa og þá sem sæki þjónustu sína til bæjarins. „Ég neita því ekki að það er líka alltaf ánægjulegt að sjá þegar vel gengur og við náum að koma verkefnum í framkvæmd. Reynslan áður en ég kom hingað til starfa hefur sýnt mér að það er ótrúlegt hvað sveitarfélög eru fljót að rétta sig við þegar tekið er á málum af festu og ákveðni. Ég held líka að þetta sé vilji íbúanna að það sé festa í málefnum sveitarfélaga því það gerir það að verkum að auðveldara er að vinna í brýnum málum.“ Hann líti á það sem hlutverk sitt að eiga samtal við bæjarbúa og starfsmenn og koma skilaboðum áleiðis til bæjarstjórnar. „Það er mjög mikilvægt að hlusta á það sem fólk hefur að segja og leiða það mögulega til breytinga.“

Bæjarstjórinn segist horfa bjartsýnn til framtíðar og að skapast hafi svigrúm til aðgerða og að enn meiri áhersla verði lögð á bætta þjónustu við íbúa, umhverfi starfsmanna, aukna snyrtingu bæjarins og aukið viðhald svo fátt eitt sé nefnt. „Þetta eru framkvæmdir sem taka tíma en íbúar vonandi þegar farnir að verða varir við sýnilegan árangur.“

IMG_9315

Setið fyrir svörum í Ástjarnarkirkju.

Aukið samstarf leiðir af sér aukin tækifæri

Spurður um hvað sé helst framundan segir Haraldur ákveðin mál séu bæjarstarfsfólki afar hugleikin þessa dagana. „Við erum að kortleggja tækifæri og möguleika með stjórnendum, starfsmönnum, skipuðum starfshópum og viðeigandi ráðum. Það er t.a.m. nauðsynlegt að efla þjónustu við nemendur með greiningar sem kallar meðal annars á aukið samstarf innanhúss og að starfmenn fjölskylduþjónustu komi meira beint að verkefnum með skólum á báðum skólastigum.“ Verkskiptingu og ábyrgð hefði þurft að marka betur þegar grunnskólarnir voru fluttir yfir til sveitarfélaganna og eins þegar hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar var sett í lög og skólastjórum og kennurum gert að framfylgja. „Þetta, ásamt stöðugum samfélagsbreytingum, og auknu áreiti heilt yfir, hefur skapað mikla áskorun og vanda í skólakerfinu og aukið álag umtalsvert á starfsmenn skóla,“ segir Haraldur.

IMG_1345

Með Haraldi eru þau Bára Kristín Þorgeirsdóttir skólastjóri Vinnuskóla Hafnarfjarðar, Aron Kristján Sigurjónsson og Hekla Lydía Gísladóttir flokkstjórar Competo jafningjafræðslunnar og Fanney Dóróthea Halldórsdóttir sviðsstjóri Fræðslu- og frístundaþjónustu að undirbúa Gleðigöngu hinsegin daga.

Bætt starfsumhverfi og meðferð mála

Eitt af verkefnum Haraldar síðustu mánuði hefur verið að heimsækja starfsmenn allra grunnskóla og leikskóla í Hafnarfirði með það fyrir augum að eiga beint samtal við starfsmenn og fá fram hugmyndir og umræðu um það sem betur má fara innan skólanna. „Skipulögð vinna meðal starfsmanna grunnskóla fór af stað síðasta haust og er aðgerðaáætlun við það að verða tilbúin. Svipuð vinna er hjá leikskólunum sem einnig miðar að því að bæta starfsumhverfi og þar með flæði og meðferð mála.“ Tímasett viðhaldsáætlun leik- og grunnskóla sé líka við það að verða tilbúin og flýti framkvæmdum bæði utan- og innanhúss og þar á meðal á starfsaðstöðu. „Allt hefur þetta áhrif á líðan starfsmanna, foreldra og barna. Snyrtilegt húsnæði kallar á snyrtilegri umgengni og viðeigandi stuðningur og gott flæði verkefna á ánægðari starfsmenn og nemendur. Þetta helst allt í hendur,“ segir Haraldur.

Nýlega var samþykkt í bæjarráði að frá og með komandi hausti muni Hafnarfjarðarbær greiða fyrir námsgögn, þ.e ritföng og stílabækur og að hefja að nýju gjaldfrjálsan frístundaakstur fyrir sex og sjö ára börn í Hafnarfirði í haust. Þar með hafi ákveðnu ákalli foreldra í stóru sveitarfélagi verið svarað. „Samhliða stórum verkefnum á fræðslusviði erum við að skoða hvernig við getum komið betur að málum einstaklinga á öllum aldri sem eru með ýmsar greiningar. Við þurfum að bæta þjónustu sveitarfélagsins við þessa hópa því þjónustuskortur getur haft keðjuverkandi áhrif í gegnum allt kerfið.“  

IMG_4925

Hafnarfjörður er vinsæll

Eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði í Hafnarfirði hefur aukist síðustu misseri og er nú svo komið að íbúar nálgast óðum 30.000. 69 lóðir verða byggðar í Skarðshlíð, svæði sem undangengist hefur miklar skipulagsbreytingar síðustu mánuði gagngert til að svara aukinni eftirspurn eftir húsnæði. „Á næstu fjórum árum er gert ráð fyrir uppbyggingu á allt að 800 íbúðum í Skarðshlíð og Hamranesi, nýju hverfi sem liggur við hlið Skarðshlíðar. Íbúðarformið er fjölbreytt, stærðir húsnæðis minni en áður var skipulagt sem gæti stutt við einstaklinga og fjölskyldur og raunverulega greiðslugetu þeirra. Hugmyndin er að leigjendur sjálfir verði aðilar að sjálfseignastofnun um félagið sem á og rekur íbúðirnar fái stofnframlag frá sveitarfélagi og Íbúðalánasjóði og á leiga að standa undir afborgunum og vöxtum af láni og daglegum rekstri. Hér er um að ræða hreina viðbót við samstarfsverkefni ASÍ og Hafnarfjarðarbæjar um uppbyggingu 150 leiguíbúða á fjögurra ára tímabili þar sem Hafnarfjarðarbær hefur ráðstöfunarrétt yfir 25% íbúðanna.“

3

Haraldur kynnir götuhreinsitækið Svanga Manga til leiks. 

Bættari samgöngur og nýr skóli

Samhliða uppbyggingu segir Haraldur að það þurfi að bæta samgöngur inn á Vellina með nýjum mislægum gatnamótum, tvöföldun Reykjanesbrautar og vonandi endurskoðun á tveimur hringtorgum sem reynst hafa mikil slysagildra með vaxandi umferð á svæðinu. „Hraunvallaskóli, sem þjónar þessu hverfi í dag, er einn stærsti grunnskóli landsins. Hinn nýi Skarðshlíðarskóli mun taka til starfa í bráðabirgðahúsnæði í safnaðarheimili Ástjarnarkirkju í haust og flytur í nýtt húsnæði haustið 2018. Skólinn, sem samanstendur af húsnæði grunnskóla, tónlistarskóla, leikskóla og íþróttahús verður svo tekinn í notkun í áföngum í sjálfri Skarðshlíðinni fram til ársins 2020.“

IMG_7316

Í einni af fjölmörgum dæmigerðum vinnustellingum á fundi. 

Miklir möguleikar í ferðaþjónustu

Spurður um ferðamannaiðnaðinn í bænum segist Haraldur að varlega hafi verið til jarðar hvað varðar og slíkt eigi að gera áfram. „Við höfum enn tækifæri til að vanda valið, halda í sérstöðu svæðisins og bjóða velkominn valinn hóp ferðamanna sem nýtur alls þess sem Fjörðurinn hefur upp á að bjóða í sátt og samlyndi við íbúa og fyrirtæki á svæðinu. Við búum svo vel að vera með lifandi miðbæ, heillandi hafnarsvæði og fjölbreytta verslun og þjónustu.“ Fallegar náttúruperlur séu víða og hafnfirskir gististaðir sem gestir velji sér. „Næstu skref eru að marka stefnu í þessum málum og í undirbúningi er að halda málþing um ferðamál í haust þar sem öllum áhugasömum verður boðið að taka þátt í umræðu. Ferðaþjónustuaðilar á svæðinu hafa verið að gera góða hluti en nú þurfum við að undirbúa komu ferðamanna í auknu mæli“.

IMG_3989

Fjörður handan Hafnarborgar. 

Nýtt hótel við Fjörð

Fasteignafélagið Reginn og samstarfsaðilar í samvinnu við erlenda hótelkeðju stefna að því að byggja nýtt hótel sem kemur til með að tengjast Firði verslunarmiðstöð í haust. „Ég tel að öflugt hótel við Strandgötu sé ákveðin kjölfesta í uppbyggingu á þjónustu og komu ferðamanna til Hafnarfjarðar og því er mikilvægt að vanda næstu skref. Þegar uppi er staðið þá þurfa allir að leggja sitt að mörkum við að skapa upplifun um hreinan, fallegan og heimilislegan bæ, bæði fyrir ferðamenn og ekki síður fyrir íbúana sjálfa. Bærinn er snyrtilegur en gæti verið enn snyrtilegri og þá skiptir framlag allra máli. Ég vil t.a.m. sjá Strandgötuna sópaða helst daglega og þá sjá verslunar- og þjónustuaðilar vonandi hag sinn í því að hafa hreint í kring hjá sér“ segir Haraldur.

Frekari endurbætur á Reykjanesbraut

Haraldur segir að gagnvart ríkivaldinu sé framundan að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar innan Hafnarfjarðar með tilheyrandi gatnamótum. „Starfshópur vinnur nú að tímasettri tillögu sem á að liggja fyrir í haust. Mikilvægt er að tryggja fjármagn fáist á fjárlögum ríkisins 2018 til að halda þessu verkefni áfram. Við fögnum þeim framkvæmdum sem nú standa yfir við mislæg gatnamót við Reykjanesbraut og Krísuvíkurveg en það þarf meira til, til að koma þessum stofnæðum í gegnum Hafnarfjörð um Reykjanesbraut í gott lag.“ Umferðaþungi um brautina hafi aukist talsvert og þá ekki síst vegna aukinnar umferðar um Keflavíkurflugvöll. „Það verður að tryggja öryggi allra sem ferðast um svæðið.“IMG_7341

Mundar púttkylfur ásamt Árdísi Huldu Eiríksdóttur, forstöðumanni hjá Hrafnistu í Hafnarfirði, Pétri Magnússyni, forstjóra Hrafnistuheimilanna og Rósu Guðbjartsdóttur, formanni bæjarráðs. 

Fleiri hjúkrunarrými

Annað stórt verkefni sem Haraldur segir að liggi á að tryggja sé fjölgun hjúkrunarrýma. „Líkt og með vegaframkvæmdirnar hefur Hafnarfjarðarbær setið verulega eftir þar. Íbúum fjölgað um 10.000 frá árinu 1999 og fjöldi 67 ára stækkað úr um 1.500 í um 3.000. Á sama tíma hefur hjúkrunarrýmum fækkað um 20. Þetta getur ekki verið annað en skerðing á þjónustu við aldraða og það getum við ekki sætt okkur við.“ Á heimasíðu heilbrigðisráðuneytis sé gefið upp hvernig reikna á áætlaða þörf á hjúkrunarrýmum í sveitarfélögum landsins. Samkvæmt því sé áætlað að það þurfi 218 hjúkrunarrými fyrir íbúa Hafnarfjarðar. „Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu voru 222 hjúkrunarrými í Hafnarfirði árið 2016 sem þó segir ekki alla söguna þar sem hjúkrunarrýmin eru ekki bara fyrir Hafnfirðinga heldur fyrir íbúa alls höfuðborgarsvæðisins. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið frá Sólvangi og Hrafnistu eru um 100 einstaklingar í hjúkrunarrýmum í Hafnarfirði sem ekki áttu lögheimili í Hafnarfirði fyrir flutning á heimilið. Þetta segir okkur að það vanti um 100 hjúkrunarrými í Hafnarfjörð til að uppfylla þá þörf sem áætluð er fyrir Hafnfirðinga. Eins og staðan er í dag þá eru um 20 Hafnfirðingar í brýnni þörf á hjúkrunarrými í bið.“

HreinsadUppAHolti

Takið til hendinni í einu af hreinsunarátökum bæjarins. 

Sótt á ráðuneytið

Haraldur segir að sótt hafi verið á ráðuneytið með fjölgun um allt að 33 hjúkrunarrými í gamla Sólvangi til viðbótar við þau 60 rými sem færast yfir í nýtt húsnæði. „Á bæjarráðsfundi fyrir skömmu var lagt fram erindi frá velferðarráðuneyti þar sem opnað er á samtal um fjölgun hjúkrunarrýma. Þessu ber að fagna og tel ég þetta vera verkefni sem við verðum að fá samþykkt.“ Hafnarfjarðarbær hafi samhliða skoðað möguleika á aukinni þjónustu til eldri Hafnfirðinga sem kjósi að búa lengur heima og hafi alla burði til þess. „Liður í því er m.a. aukin heilsuefling og hefur fjölskylduráð Hafnarfjarðarbæjar unnið að því að fá Janus Friðrik Guðlaugsson, íþrótta- og heilsufræðing, í samstarf um fjölþætta heilsurækt og leiðir að farsælum efri árum.“

IMG_1371

Ásamt starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar, þeim Hálfdáni K. Þórðarsyni, umsjónarmanni fasteigan, Ishmael R. David, tæknifræðing og Stefáni Eiríkssyni, verkfræðingi. Tilefnið er fyrsti dagur í niðurrifi Dvergs. 

Spennandi verkefni framundan

Spurður að lokum um árangur á kjörtímabilinu segir Haraldur að sveitarfélagið hafi staðið í miklum framkvæmdum og reynt eftir megni að fjármagna framkvæmdir fyrir eigið fé. „Nýr leikskóli var opnaður á Völlunum og nýr skóli í Skarðshlíð. Nýtt æfinga- og kennsluhúsnæði á Ásvöllum verður tekið í notkun á næsta ári. Ekki hafa verið tekin lán vegna þessara framkvæmda og stefnt er að því að ljúka þeim án lántöku. Húsið Dvergur að Lækjargötu 2 var rifið og mun þar rísa blönduð byggð. Gert er ráð fyrir að sala á lóðum á Dvergsreitnum muni standa að fullu undir þeim framkvæmdum sem ráðast þurfti í vegna þessa. Verkefnin framundan eru mörg og spennandi. Ég vil hlusta á íbúa, fyrirtæki og starfsmenn í brúnni, greiða leiðina og draga að borðinu rétta aðila til framkvæmda og aðgerða. Hafnarfjörður hefur allt til þess að bera að vera fyrirmyndarsveitarfélag í svo margþættu tilliti. Þangað stefnum við,“ segir Haraldur að lokum.

Stúdíómynd af Haraldi: ÓMS.
Mynd af tjarnarpolli, Hafnarborg og Firði: Olga Björt.

Aðrar myndir: Hafnarfjarðarbær.