Heiða S. Davíðsdóttir 290466-5479Minni þjónustutími hefur vakið athygli skjólstæðinga heilsugæslunnar Sólvangi í sumar og Fjarðarpósturinn leitaði svara hjá Heiðu Davíðsdóttur, svæðisstjóra og fagstjóra hjúkrunar, sem upplýsti um ástæður og fyrirkomulag þjónustunnar.

 „Heilsugæslan Sólvangi býður upp á fjölbreytta þjónustu fyrir íbúa Hafnarfjarðar og ein af þeim er síðdegismóttaka heilsugæslunnar sem nú er opin alla virka daga frá kl. 16-18. Á þessu ári hefur þjónusta stöðvarinnar tekið töluverðum breytingum eins og með auknum fjölda samdægurstíma hjá heimilislæknum, lyfjaendurnýjun og afgreiðslu skólavottorða daglega frá kl. 9-11:30 auk fjölbreyttum móttökum hjúkrunarfræðinga,“ segir Heiða og ennfremur að til langs tíma hafi kvöldmóttaka verið opin á heilsugæslunni Sólvangi frá kl. 16-20 virka daga sem almennt hafi nýtst skjólstæðingum þeirra vel en aðsóknin hafi þó mest verið fyrri hluta vaktarinnar þ.e.a.s. fyrir hefðbundinn kvöldmatartíma.

Teir læknar í stað eins

„Við endurskoðun á fyrirkomulagi síðdegisvaktarinnar var ákveðið að stytta hana án þess þó að skerða þjónustuna þar sem að öllu jöfnu sinna tveir læknar vaktinni í stað eins áður. Með þessu tryggjum við að tímaframboð á síðdegisvakt fyrir skjólstæðinga okkar verði sambærilegt eða meira en áður og á þeim tíma sem eftirspurnin er mest.“ Síðdegisvaktin sé einnig með þessu móti samræmd opnunartíma annarra heilsugæslustöða hjá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins (HH) sem allar séu reknar samkvæmt nýju fjármögnunarkerfi sem var innleitt í ársbyrjun 2017.

Skylt að hagræða í rekstri

Heiða segir nýja fjármögnunarkerfið á margan hátt ágætt en því miður undirfjármagnað í grunninn og ekki nægjanlega vel aðlagað að íslensku heilbrigðiskerfi eins og það er í dag. „Samkvæmt því var heilsugæslunni Sólvangi ásamt mörgum öðrum heilsugæslustöðvum gert að hagræða í rekstri og er breytt fyrirkomulag síðdegisvaktarinnar einn liður í því. Heilsugæslan þarf stóraukið fjármagn til að geta sinnt hlutverki sínu sem skyldi og öllum þeim spennandi verkefnum sem að auki væri hægt að sinna innan hennar. Markmið okkar er og verður að veita skjólstæðingum okkar alltaf eins góða þjónustu og hægt er á hverjum tíma,“ segir Heiða.