Hafnarfjörður er heilsubær og ánægjulegt hve mörg börn stunda íþróttir og aðrar tómstundir af kappi. Fyrir flesta foreldra hefur það oft reynst þrautin þyngri að samræma vinnu og heimilislíf við tómstunda- og íþróttaiðkun barnanna. Ég tel það mikið hagsmunamál fyrir fjölskyldurnar í bænum að bæjarfélagið taki þátt í að brúa bilið milli skóladags og tómstundaiðkunar barna og styðja við styttri vinnudag barna.

Við lok skóladags fara flest börn í neðri bekkjum grunnskóla í frístund. Að því loknu hefst hið eilífa skutl til og frá tónlistarskólum og íþróttasvæðum með tilheyrandi streitu fyrir börn og foreldra. Æfingar eru oft síðla dags því þjálfun er gjarnan aukavinna og þannig getur vinnudagur barna orðið mjög langur og þau þreytt þegar þau sinna áhugamálum sínum. Ég vil að bæjarfélagið haldi áfram að vinna að því í samtarfi allra aðila að samþætta skóla-, íþrótta- og tómstundastarf barna enn frekar. Það getur gerst með góðri samvinnu allra sem að málunum koma, íþrótta- og tómstundafélögin leggi sitt af mörkum við að færa tómstundaiðkun nær skólastarfi og bæjarfélagið getur aukið hlutdeild sína í akstri barnanna á milli staða.

Síðastliðið haust hófst akstur Frístundabílsins aftur eftir að hafa verið lagður af á síðasta kjörtímabili og farið var af stað með tilraunaverkefni þar sem börn yngstu bekkja grunnskóla eru keyrð úr frístund og á æfingar hjá þremur íþróttafélögum. Það verkefni hefur gefið góða raun og mörg börn hafa nýtt sér það. Ég vil að verkefnið verði þróað í þá átt að öll börn sem stunda íþróttir og tómstundir geti nýtt sér þjónustu Frístundabílsins.  Með því eykst samfella i vinnudegi barna og foreldrar og börn græða nokkrar gæðastundir í viku hverri.

 

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, sækist eftir 3-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.