Rölta um bæinn á Þorláksmessukvöldi. Skreyta jólatréð. Lyktin af smákökunum. Heimsækja jólaþorpið. Skera út laufabrauð. Tárast af skötunni. Lesa jólakortin. Hrein rúmföt. Jólakveðjurnar á Rás eitt. „Útvarp Reykjavík. Gleðileg jól“ og allskonar minningar.

Jólin eru byggð á minningum. Frá því að við munum eftir okkur byrjum við að leggja inn í jóla-minningabankann. Mikilvægustu undirstöðurnar eru lagðar snemma. Á þeim minningagrunni hvíla öll jólin sem á eftir koma. Þess vegna eru jólin okkur svona kær. Þess vegna finnst okkur í lagi að hlusta á jólalög sem eru í raun orðin hallærisleg og endast illa. Þau færa okkur minningar sem eru okkur kærar. Við sækjum í slíkt um jólin. Við sækjum í minningar sem framleiddar hafa verið á fyrri jólum og endurnýtum þær, aftur og aftur.

Þessari fallegu staðreynd fylgir líka ábyrgð. Það er á okkar ábyrgð að búa til nýjar minningar. Í þessari verksmiðju minninganna erum við sjálf framleiðslustjórar. Það er í okkar valdi að velja minningar sem fara í framleiðslu fyrir jól framtíðarinnar. Minningar fyrir okkur sjálf, og það sem meira er, minningar fyrir börnin okkar og þau sem standa okkur næst.

Kannski gerir þú eitthvað um þessi jól sem börnin þín eða jafnvel barnabörn munu halda í heiðri um komandi jól. Kannski verður það einmitt sá hlutur sem minnir þau á þig, löngu eftir að þú kveður. Kannski segir þú eitthvað eða gerir sem mun ylja þeim sem þú elskar á þessum tíma á hverju ári. Hversu virði er slíkt?

Það eru forréttindi að fá að búa til jólaminningar. Við skulum vera metnaðarfullir framleiðslustjórar. Það lætur okkur líða vel og það skilar sér margfallt til þeirra sem við elskum. Jólareikningurinn í minningaverksmiðjunni ber hæstu vexti sem hægt er að hugsa sér. Það hafa aðrir lagt inn á reikninginn þinn. Hvað vilt þú leggja inn hjá öðrum um þessi jól?

 

Gleðileg jól!

Biggi