Ástríður Sólrún Grímsdóttir gaf nýverið út barnabókina Nú erum við í ljótum málum. Sögur af Týra og Bimbó til minningar um dótturdóttur sína og nöfnu, Ástríði Rán Erlendsdóttur sem féll fyrir eigin hendi á Vogi í september 2014. Hún hefði orðið 25 ára gömul 31. júlí síðastliðinn.

Sögurnar urðu til þegar Ástríður yngri var lítil og þær fjalla um tvo hunda sem lenda í allskonar ævintýrum. „Hún var mikið hjá mér og það voru mjög mikil samskipti okkar á milli og við nánar. Það er oft verið að plata mat ofan í ung börn eða nota aðferðir við að svæfa þau á kvöldin. Þá er stundum gripið til þess ráðs að skálda sögur til að fá þau til að gleyma stað og stund og gera samveruna skemmtilegri. Í okkar tilfelli eru þetta sögur af hundum sem voru til í raun og veru og áttu heima á Kjalarnesi. Fyrir Ástríði Rán voru sögurnar raunverulegar, segir Ástríður Sólrún, en dótturdóttirin skildi eftir sig son sem verður sjö ára í  desember . „Það er gullmoli sem elst upp hjá pabba sínum. Minning um mömmu hans lifir m.a. áfram í bókinni.“

 Myndskreytti sjálf

Árið 2001 hóf Ástríður Sólrun að setja sögurnar niður á blað og segja þær fleiri barnabörnum, einnig til að varðveita þær betur. „Mamma Ástríðar Ránar teiknar vel og mig langaði  til að hún myndi myndskreyta bókina en úr því varð ekki. En svo fór ég námsleyfi til Danmerkur frá janúar og fram í júní sl. Ég er abstakt málari og ákvað bara að myndskreyta bókina sjálf svo  þau sem lesa hana geta auðveldlega notað ímyndunaraflið þegar myndirnar eru skoðaðar. Ég veit að það hafa orðið til ný ævintýri við að lesa úr myndunum.“

„Ömmgurnar“ og nöfnurnar þegar Ástríður eldri var sýslumaður á Ólafsfirði. 

Vill styrkja þau sem styðja fíkla á rétta braut

Bókin er til sölu í gegnum Facebook síðuna Týri og Bimbó eða í gegnum símanúmerið 896-5685. Allur ágóði af sölu bókarinnar fer til styrktar samtökum sem styðja unga fíkla til að koma sér á réttu brautina og/eða samtökum sem styðja þá sem hafa misst börn vegna fíknar eða styðja þá sem eru í sjálfsvígshættu.

„Það eru engin raunveruleg eða sértæk úrræði, meðferðir  eða stuðningsnet til fyrir unga fíkla sem eru orðnir 18 ára í dag  og hafa ekki styrk til að halda meðferðir út. Krýsuvík er eina úrræðið í dag sem hjálpar í raun og veru og er fyrir 18 ára og eldri en þar  er t.a.m. bara 21 pláss. Þar  eru þau á eigin vegum og forsendum eins og í annarri meðferð og geta útskrifað sig sjálf ef viljinn er ekki nægur eða fíknin tekur völdin. Dótturdóttir mín hafði hvorki getu né viljastyrk til að vera á áfangaheimilum eftir meðferðir á Vík þar sem hún bar ábyrgð á sér og sinni meðferð sjálf. Því var auðvelt að fara í sama farið aftur,“ segir Ástríður Sólrún.

Sífelld aðsteðjandi ógn
Hún bætir einnig við að fjölskyldur geti oft ekki tekið ungmenni í neyslu inná heimilin þar sem þau jafnvel leggi allt í rúst eða steli til að ná í pening fyrir neyslu. „Það er sífelld aðsteðjandi ógn sem loðir við fjölskyldur ungra fíkla í neyslu. Hún átti t.d. yngri bræður á heimilinu sem varð að taka tillit til. Fjölskyldur ungra fíkla verða að vita að raunveruleg meðferðarúrræði séu fyrir hendi áður en þær geta tekið þá inn á heimilin aftur og í framhaldi af því verið hluti af stuðningsneti á ný.“

Hér er Facebook síða bókarinnar.