„Nú er gras í súpu og sárum eftir flóð síðustu daga og jarðvegur viðkvæmur. Mikið væri indælt ef bílstjórar myndu ekki leggja á grasi,sem margir gera. Þetta er ljótt að sjá,“ segir Agnes Reynisdóttir, íbúi við Bjarkavelli, á íbúasíðu hverfisins. Við heyrðum í Agnesi vegna þessarar mikilvægu áminningar hennar til samborgara sinna. 

„Þetta vandamál, að bílum sé lagt á grasi við bílastæði, er ekki bundið við þessa götu eingöngu. Það eru fleiri blettir í nágrenninu illa farnir en þetta er skelfilegt,“ segir Agnes og bætir við að á meðan frost var í jörðu hafi daglega verið lagt á þessum stað. „Það eru ekki nógu mörg stæði við blokkina þar sem ég bý, en fyrir vinnandi fólk er hægt að leggja t.d. við Ástjarnarkirkju. Ég hef reyndar aldrei þurft þess, fæ alltaf stæði við Bjarkavelli 1, stundum 20 m rölt eða 200. En alla daga er lagt fyrir aðkomu neyðarbíla. Ég hef búið hér í tæpa sjö mánuði og veit að þeir sem leggja ólöglega eru ekki aðkomufólk. Og það er heldur ekkert stæði fyrir hreyfihamlaða. Þegar pabbi minn, sem er í hjólastól, kemur í heimsókn, þá neyðist hann til að leggja hreinlega ólöglega (þó ekki á grasi) og kemur inn gegnum pallinn hjá mér. Á hreyfihamlaða vini líka sem lenda í vandræðum ef þeir eiga að heimsækja mig,“ segir Agnes að lokum og hvetur alla til að sýna tillitssemi, hvort sem um neyðarbílastæði eða viðkvæmt gras er að ræða.

Mynd: Agnes. Rauða bifreiðin tengist fréttinni á engan hátt, enda rétt lagt.