Jón Jónsson ætlar að halda tónleika í Bæjarbíói á morgun föstudaginn 7. apríl. Hann heldur ekki tónleika á hverjum degi í heimabænum og gefst bæjarbúum því kjörið tækifæri að kíkja á kappann, sem ætlar að að fá tónleikagesti til að fara brosandi inn í helgina. Jón gaf Fjarðarpóstinum af tíma sínum í vikunni og leyfði okkur að kynnast sér aðeins betur. Hann gaf meira að segja í skyn að brúðkaup sé í vændum í sumar.

Hvaðan ert þú? „Ég er úr Hafnarfirðinum fagra, trúlofaður Hafdísi Björk og saman eigum við Jón Tryggva, þriggja ára og Mjöll, tveggja ára. Eftir að hafa búið í tvö ár á Álfaskeiðinu og tvö í Stekkjarhvammi, lá leiðin í Birkibergið í Setberginu og þar búa foreldrar mínir enn. Ég var í Setbergsskóla öll mín grunnskólaár en fór svo í Verzló. Eftir eitt ár í HÍ fór ég í Boston University og útskrifaðist þaðan vorið 2009.“

Hvernig myndir þú lýsa þér í fjórum orðum? „Glaður, hjartahlýr, metnaðarfullur og skapgóður.“

Hver er þinn uppáhalds staður í bænum?„Einfalt. Kaplakriki.“

Hvernig kviknaði áhugi þinn á tónlistinni? „Upprunalega bara heima. María Mjöll eldri systir mín var þá byrjuð í tónlistarskóla og pabbi glamraði aðeins á gítarinn.“

Var gítarinn alltaf þitt hljóðfæri? „Í raun og veru já. Ég byrjaði sex ára í forskólanum í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og þegar ég var átta ára gafst mér kostur á að velja mér hljóðfæri. Ég pældi aðeins í saxafóninum en klassíski gítarinn togaði meira í mig og ég lærði á hann í heil tíu ár.“

Fótboltamaðurinn Jón Ragnar og Jón Jónsson eru víst einn og sami maðurinn.

Fótboltamaðurinn Jón Ragnar og Jón Jónsson eru víst einn og sami maðurinn.

Hver er munurinn á Jóni Ragnari Jónssyni og Jóni Jónssyni tónlistarmanni? „Hann er í raun ekki mikill, ef einhver. Ég syng um hluti sem ég vil syngja um og spila tónlistarstíl sem ég vil spila. Það er kannski aðeins meiri hrokapúki í Jóni Jónssyni þegar hann er á sviði og talar um sig í þriðju persónu eins og hann sé svalasti maður á jörðu. Segi ég í þriðju persónu.“

Hefur þú alltaf samið lög? „Ég hugsa að ég hafi gert það síðan ég var svona tíu ára. Þegar ég var tólf ára spilaði ég frumsamið lag gegn reykingum í „Íslandi í dag“ og í 8., 9., og 10. bekk tók ég þátt í hæfileikakeppni Hafnarfjarðar, sem þá hét Höfrungur og lék þar frumsamin lög ýmist sjálfur eða með hljómsveit. Í Verzló var ég bara söngleikjagaurinn og var ekkert að flagga þessum lagasmíðum mínum. Það var svo Kaninn, þ.e. krakkarnir sem voru með mér í Boston, sem fengu mig út úr lagasmíðaskelinni á nýjan leik og gáfu mér sjálfstraustið til að taka þetta alla leið.“

Hvernig músík hlustar þú á? „Ég er náttúrulega hundleiðinlegur hvað það varðar að ég get hlustað ég sömu lögin að eilífu og því er yfirleitt það sama undir nálinni. Ég elska John Mayer og Stevie Wonder. Gavin Degraw og Coldplay. Damien Rice og Jack Johnson. Og auðvitað Frikka Dór. Það kannski lýsir smekknum mínum best að ég hlustaði eiginlega bara á MTV Unplugged tónleikana með Nirvana en lét harðara stöffið eiga sig að mestu.“

Nú hefur þér brugðið fyrir í hinum ýmsu skemmtiþáttum og jafnvel leiknum þáttum í sjónvarpi. Er það eitthvað sem heillar þig að gera meira af? „Þegar ég var í Verzló þá var ég í skemmtiþætti skólans og við félagarnir gerðum margar stuttmyndir. Það nærði sálina og hjartað. Undanfarin ár hef ég líka lesið inn á eina teiknimynd á ári og það finnst mér alveg ferlega gaman. Ég elska að leika. Geri bara ekki nógu mikið af því. Það er líka bara ágætt kannski að eiga eitthvað eftir.“

Nú er bróðir þinn eitthvað að gutla í tónlistinni líka. Ert þú ekki miklu betri? „Það er geggjað að eiga bróður í tónlistinni. Þannig er auðvelt að leita ráða og álits og eins finna lausnir á hinum ýmsu efnum tengdum bransanum. Ég held að við eigum það sameiginlegt að taka okkur ekkert of hátíðlega í tónlistinni en vera þó samkvæmir sjálfum okkur og vanda til verka. Ég er kannski betri á gítarinn og kann fleiri hljóma og eitthvað svoleiðis en Friðrik hefur ótrúlega gott eyra fyrir góðum húkkum og skemmtilegum textalínum.“

Voruð þið bræður fyrirferðamiklir í æsku, þ.e. alltaf að troða upp í afmælum og slíkt? „Ég held að ég hafi heilt yfir verið athyglissjúkari en Friðrik og það var ekki fyrr en að Frikki kom í Verzló að hann fór eitthvað að trana sér fram. En mamma hefur alltaf haft svaka trú á okkur og var alveg dugleg að stinga upp á því að við myndum spila við hin ýmsu tilefni. Það var misspennandi þá en svona eftir á að hyggja þá er það eflaust frábær reynsla.“

Nú spilar þú fótbolta með Íslandsmeisturum FH en lagðir skóna á hilluna fyrir nokkru síðan og tókst þá svo fram aftur. Hvað kom til? „Til að gera langa sögu stutta þá hætti ég í boltanum í ársbyrjun 2016. Hélt mér þó í standi með því að fara í Crossfit XY og hlaupa úti. Svo þegar FH datt úr úr bikar- og Evrópukeppni og gerði jafntefli í deildinni þá fannst mönnum vanta einhvern neista. Þá var upplagt að bjalla í brosmilda bakvörðinn og fá hann til að taka skóna af hillunni, hressa upp á mannskapinn og smita smá sigurvilja í hópinn. Ég sumsé byrjaði aftur eftir Verslunarmannahelgi og sjö vikum seinna varð ég Íslandsmeistari með liðinu. Það var fínt.“

Gengur vel að samtvinna fótboltann og tónlistina? „Það hefur gengið furðuvel í þessi sjö ár sem ég hef verið að stússa í hvoru tveggja. Ég er auðvitað alveg meðvitaður um það að ég hefði eflaust náð lengra í öðru hvoru hefði ég valið á milli en ég kýs að miða velgengni mína við hamingjustigið og það er yfirleitt eins og best verður á kosið. Tónlistinn og boltinn gera mig glaðan og ég tel mig bara ansi heppinn að hafa fengið tækifæri til að vinna við það sem mér finnst skemmtilegast. Auðvitað er það svo þannig að fótboltinn er hópíþrótt og þar er allt planað fyrir þig. Æfingar eru á ákveðnum tímum og tímasetningar á leikjum eru ákveðnar með löngum fyrirvara. Þess vegna er það oftast þannig að ég plana tónlistina í kringum boltann en stundum hef ég þurft að blikka Heimi þegar mér bjóðast tækifæri í tónlistinni sem ég get ekki hafnað.“

Hvað gerir þú þegar þú ert ekki að spila eða á fótboltaæfingu? „Ég auðvitað stússa alls konar í kringum tónlistina sem krefst þess að sitja frekar við tölvuna heldur en með gítarinn í fanginu en frítíma mínum ver ég að mestu með fjölskyldunni minni. Ég á alveg dásamleg börn og yndislega konu og ég reyni að haga tímanum mínum þannig að ég nái að eyða sem mestum tíma með þeim.“

Er nýtt efni á leiðinni? „Já. Sem betur fer. Það er svakalega mikilvægt að senda frá sér nýtt efni og ég viðurkenni það fúslega að ég hef ekki verið nógu duglegur upp á síðkastið. Það er gott og hollt fyrir mann sjálfan að senda frá sér eitthvað nýtt svo maður þurfi ekki að hamast endalaust á gamla efninu og svo held ég að þeir sem hlusti hafi gaman af því að fá nýmeti í eyrun. Ég mun skella í eitt lag fyrir sumarið og svo ætla ég að gefa út nokkur lög með haustinu.“

Eru einhverjir staðir eða samkomur sem er meira gaman að spila á en öðrum? „Vissulega. Græni hatturinn á Akureyri er geggjaður og Þjóðhátíð auðvitað engri lík. Síðust tvö ár hef ég líka spilað í Hljómahöllinni og þar hefur myndast einhver svaka stemning sem ég er þakklátur fyrir. Ég hef ekki spilað oft erlendis en þegar ég hef gert það þá finnst mér það einstök upplifun. Ég held það sé vegna þess að maður hefur enga forgjöf þar. Enginn veit hver maður er og enginn hefur heyrt lögin. Svo þegar maður nær til fólksins og fær jákvæð viðbrögð þá svífur maður um á bleiku skýi.“

Er einhver staður eða samkomur sem þú spilar ekki á? „Ég ætlaði að vera hættur að spila í verslunarmiðstöðvum en er að fara að spila í Kringlunni 6. apríl. En það er bara af því að það er dýrt að gifta sig.“

Áttu einhverja skemmtilega sögu af balli eða giggi? „Mér dettur ekki neitt sérstakt í hug. Nema kannski þegar ég var að spila í afmæli hjá manni sem hét Andri en ég kallaði hann alltaf Ara. Mér leið ömurlega eftir það gigg.“

Þú verður með tónleika í Bæjarbíói á morgun. Hvað munt þú spila þar? „Ég ætla að spila öll þessi helstu. Bæði lög sem allir þekkja úr útvarpinu og eins lög sem þeir sem hafa hlustað á plöturnar kannast við. Svo ætla ég að spila að minnsta kosti tvö ný lög. Fyrst og fremst ætla ég bara að vera í svakalega góðum fíling og fá alla sem mæta til að fara brosandi inn í helgina.“

Er munur á því að spila í heimabænum sínum og annars staðar?„Hann er ekkert svakalegur en hann er einhver, já. Ég held það sé bara aðallega hjá manni sjálfum. Mig langar að standa mig einstaklega vel til að gefa til baka til bæjarins sem gerði mig að þeim manni sem ég er í dag.“

Jón spilar í bæjarbíói föstudagskvödlið 7. apríl. Hægt er að nálgast miða á midi.is

Jón Jónsson
Jón Jónsson. Myndir: Óli Már